Strč prst skrz krk

2007-04-29

Matarboð

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 21:11

Ekki nóg með að við værum með vínsmökkun á föstudaginn. Heldur vorum við líka með matarklúbb í gær.

Í forrétt vorum við með snittubrauð (örlítið steikt til að fá ristaða áferð) með parmaskinku, manchego osti og klettasalati. Aðalrétturinn var síðan úr smiðju Nigellu, kóksvín (pepsígrís) með maísbaunum og sætumkartöflum með sýrðum rjóma og hvítlauksrjómaosti. Að lokum vorum við með heimagerðan ís, með karamellusósu, líka frá Nigellu. Læt uppskriftina fylgja með hér að neðan.

1 bolli púðursykur
slatti af smjöri
2 msk. síróp
150 ml rjómi

Púðursykur, smjör og síróp látið bráðna saman í potti og malla smástund. Rjóma hellt saman við og látið malla smástund í viðbót. Himneskt.

Þetta var ekki síður skemmtilegt kvöld heldur en vínsmakkið.

Vínsmakk

Filed under: Matur,Vín — Jón Lárus @ 20:54

Héldum í fyrrakvöld vínsmakk þar sem við buðum nokkrum bloggurum. Hildigunnur er reyndar búin að fjalla um þetta þannig að ég ætla ekki að fara að telja upp vínin, sem tekin voru fyrir.

Það má þó bæta því við að vínin, sem smökkuð voru, komu öll frá mismunandi héruðum á Spáni. Fyrsta vínið, freyðivín var frá Penedés. Síðan var hvítvínið frá Somontano. Þar næst var rauðvín frá Navarra (þó framleiðandinn sé reyndar frá Rioja (er það ekki rétt, Arnar?)). Þar næst í röðinni var Rioja rauðvín. Síðan var klykkt út með rauðvíni frá Ribera del Duero, sem var að hinum vínunum ólöstuðum langbest.

Reyndar ekki alveg rétt. Við enduðum á púrtvíni. Árgangspúrtvín frá 1999, alveg ljómandi gott.

Vínin komu því öll frá svæðum frekar norðarlega á Spáni. Hefði verið skemmtilegt að hafa einhvern fulltrúa frá svæði sunnar í landinu en ég átti bara ekkert slíkt að þessu sinni.

Þessu var skolað niður með 5 mismunandi tegundum af ostum (emmentaler, cheddar, höfðingja, grana padano og manchego) og dökku súkkulaði. Forvitnilegt að sjá hversu mismunandi kom út hvernig vínin pössuðu með ostunum. Þar var Navarravínið held ég bara fjölhæfast.

Þetta var semsagt bara mjög skemmtilegt kvöld þar sem voru smökkuð vín, hverju öðru betra með skemmtilegu fólki. Takk fyrir mig.

Uppfærsla

Filed under: Hneykslun,Undrun — Jón Lárus @ 13:49

Ég fór inn á heimasíðu ÁTVR fyrir helgi og ætlaði að skoða vörulistann hjá þeim. Þá kom í ljós að verið er að vinna að breytingum á síðunni og gert er ráð fyrir að hún verði komin í gagnið í byrjun júní! Byrjun júní! Vörulistinn á semsagt að vera niðri í einn og hálfan mánuð.

Ég skil ekki svona framkvæmdir. Ekkert verið að reyna að halda röskun í lágmarki.

2007-04-23

Búinn

Filed under: Blogg — Jón Lárus @ 22:34

að standa mig vel í blogginu í þessum mánuði. Hef aldrei áður frá því ég byrjaði að blogga náð jafn mörgum færslum í einum mánuði. Og einn bloggdagur eftir.

Þvottadagur

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 18:07

Ég tók mig til í gær og þvoði húsið að utan. Ekkert smá sem að járnið verður drullugt eftir veturinn. Var semsagt prílandi í stiga í eina þrjá tíma með bílkúst og slöngu að nudda járn og glugga.

Ekki kannski það skemmtilegasta sem maður gerir en þvílíkt þess virði. Nú er húsið hreint og fínt og liggur ekki saltslikja á járninu.

2007-04-19

Grísari dauðans

Filed under: Dægradvöl,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:25

Við Hildigunnur vorum að spila Trivial áðan og ég grísaði þvílíkt allan tímann. Fyrir utan að hitta mjög fljótt á kökureitina og fá skítléttar spurningar á þeim öllum þá svaraði ég rétt tveimur spurningum sem ég misskildi. Fyrst: Hvað samdi Tjækofskí margar óperur (og ég tók það sem sinfóníur)? Var gefið upp 5, 10 og 15. Svaraði 10 en hefði svarað 5 ef ég hefði fattað að þetta væru óperur. Síðan: Hvaða íþróttagrein æfðu Hayden Christiansen og einhver annar leikari í 2 mánuði fyrir tökur… Og ég svaraði skylmingar og gerði ráð fyrir að þetta væri Hringadrottinssaga. Svarið var rétt en þetta var Star Wars. Mesta furða að sleppa við barsmíðar eftir svona grísa.

Vorverkin

Filed under: Grænir fingur — Jón Lárus @ 19:19

Potaði niður nokkrum hvítlauksgeirum í garðinn áðan. Síðan sáðum við fyrir steinselju og erum líka komin með nokkrar aðrar kryddjurtir. Er líka að gera tilraun með að taka afleggjara af sankti pálíu. Veit nú ekkert hvernig það fer; verður bara að koma í ljós.

Hjólatúr

Filed under: Fjölskyldan,Hjólreiðar — Jón Lárus @ 14:49

Við Hildigunnur skruppum í smá hjólatúr áðan, eins og við höfum gert nokkrum sinnum í vor.  Hjóluðum vestur í Örfirisey.  Veðrið aldeilis fínt til að frílista sig.  Svolítið kalt en lítill vindur.

Skemmtilegt að þvælast svona um borgina og uppgötva alls konar staði, sem maður kemur annars aldrei á.  Sérstaklega ekki þegar maður er á bíl.

Gleðilegt sumar

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 14:45

kæru lesendur.

Vörusvik

Filed under: Matur,Nördismi — Jón Lárus @ 00:14

Ranglaði inn í Hagkaup um daginn og sá þar í ávaxta og grænmetisdeildinni sveppi, sem voru merktir sem kóngssveppir (king bolete reyndar).  Nema hvað þessir sveppir áttu ekkert skylt við kóngssveppi.  Þetta voru fansveppir en kóngssveppir eru pípusveppir!

Þetta er svona álíka og að selja epli með merkimiðanum appelsínur.  Þessar tvær sveppategundir eru sennilega álíka skyldar og epli og appelsínur ef ekki minna.

2007-04-17

Stolinn

Filed under: Brandarar — Jón Lárus @ 23:12

Heyrði um daginn ansi góða sögu af fólki á kassa í Hagkaupum.

Maður, sem við þekkjum var í röð á eftir einhverju fólki, sem hafði tekið tvennt af sömu vörunni og áttaði sig fyrst á því þegar komið var á kassann. Þau voru fyrst eitthvað að vandræðast yfir þessu en sögðu svo við kassabarnið: Þetta er allt í lagi við tökum bara hvorttveggja. Kassabarnið varð eitt spurningamerki í framan þangað til að gall í þeim sem var á næsta kassa: Ég veit hvað þetta þýðir. Ég heyrði þetta um daginn. Þetta þýðir bæði…

Skatturinn

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 21:34

Þá er kominn tími til að safna saman skattagögnunum og henda í endurskoðandann okkar. Þetta er búinn að vera þvílíkur lúxus eftir að við fórum að nýta okkur þá þjónustu. Eina sem þarf að gera er að halda saman skattagögnunum og svo skrifa undir. Bætist heil helgi við líf manns á hverju ári.

Sætt, sætt, sætt.

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:07

Það er fátt sætara en eins marks sigrar. Nú er bara að láta kné fylgja kviði og landa sigri í síðasta leik á tímabilinu. Kemur ekki til greina að enda tímabilið á tapi.

Er á leiðinni

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 18:55

í næstsíðasta tímann í innanhússboltanum í vetur. Í síðasta tíma var ég í sigurliði í fyrsta skipti í 5 tilraunum. Leit nú reyndar ekki vel út framan af. Vorum undir nánast allan tímann. Svo þurfti ég að fara út af eftir að hafa fengið hnakkann á einum í nefið.

Liðsfélagar mínir bitu þá í skjaldarrendur og náðu að landa sætum eins marks sigri. Ég neita reyndar að trúa því að það hafi skipt sköpum að ég þyrfti að yfirgefa völlinn…

Hvenær

Filed under: Stjórnmál — Jón Lárus @ 18:30

ætli Bandaríkjamenn sjái að sér og geri eitthvað til að takmarka hvernig vopn menn geta keypt sér á almennum markaði?

2007-04-13

Nýja

Filed under: Þættir,Nördismi — Jón Lárus @ 23:15

serían með Lewis, gamla aðstoðarmanni Morse lögregluforingja fer vel af stað. Bæði handrit og leikur góður eins og við mátti búast af enskri seríu.

Komu síðan nördabrandarar eins og: „Heisenberg gæti hafa dvalið hér“ og þegar viðkomandi persóna var spurð hvort hún hefði átt við óvissulögmálið þá var svarið: „Ég er ekki viss“.

Finnur prakkari

Filed under: Stríðni — Jón Lárus @ 17:47

Hildigunnur sat við tölvuna áðan. Hringir síminn hennar. Svo heyri ég undrunarrödd: Heima?! Hvað þá?! Finnur!

Síðan heyrðist hláturroka í gaurnum niðri. Mamma ég var að stríða þér smá…

Hildigunnur

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 12:36

er svo með góðan punkt hér.

Þar

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 12:27

sem ég starfa nú í flutningabransanum þá fannst mér þetta nokkuð gott.

Svo kom í ljós að það var skýring á þessari sérkennilegu flutningsleið.  Farmurinn var of breiður fyrir flutning á vegum eða með járnbrautum. Sést vel hér.

Það sem ég skil ekki er hvers vegna þeir leigðu ekki bara loftskip til að sjá um þetta.

2007-04-11

Farið

Filed under: Grænir fingur — Jón Lárus @ 22:24

að klæja í garðyrkjufingurna, þannig að nú er spurning um að fara að henda niður fræjum fyrir kryddplöntum áður en það verður of seint.

Höfum verið með steinselju í garðinum undanfarin ár. Oft sem hún stendur fram að áramótum eða jafnvel lengur. Ég hef stundum klippt af steinselju í garðinum fyrir áramótaboðið, sem við höldum alltaf.

Svo vorum við að hugsa um að setja niður hvítlauk líka. Kominn tími á að fjarlægja sandkassann. Krakkarnir löngu hættir að leika sér í honum. Þar myndast smá pláss sem mætti nota undir plöntur, sem ekki þurfa mikla sól.

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.