hélst ekki vel á helíumblöðrunum í dag. Fórum staðlaðan 17. júní hring. Duttum inn í skrúðgönguna við Klapparstíg. Létum berast niður í miðbæ. Og skoðuðum okkur aðeins um þar. Þar var verið að dreifa Shrek blöðrum og Finnur fékk eina. Við bundum hana við hann en þá vildi ekki betur til en svo að spottinn losnaði við blöðruhálsinn og hún fauk út í veður og vind. Okkur tókst að útvega aðra blöðru í staðinn. Þrátt fyrir að vera með góðri lykkju og þótt Finnur væri mjög einbeittur í að halda í blöðruna þá missti hann hana líka upp í loft akkúrat þegar við vorum að koma heim. Litli gaur frekar svekktur með þessa niðurstöðu.
2007-06-17
Flott
íþróttahelgi núna. Fyrst vann kvennalandsliðið okkar lið Frakka í knattspyrnu. Glæsilegur sigur. Frakkar eiga eitt af bestu kvennalandsliðum heims. Nær væri fyrir KSÍ að leggja meiri áherslu á kvennaliðið heldur en að púkka upp á þetta handónýta karlalandslið.
Síðan voru úrslitin í Bandaríkjakappakstrinum fín. McLaren greinilega komið með góðan bíl og unnu öruggan sigur. Það sást meira að segja alvöru kappakstur á köflum (Fisichella kom á óvart með mjög ákveðnum akstri), sem hefur verið af skornum skammti á þessu tímabili fyrr en í síðustu tveimur keppnum.
Ég var dauðhræddur fyrir Kanadakappaksturinn og þennan um að Ferrarimenn yrðu erfiðir viðureignar. Annað kom heldur betur á daginn. Næsta keppni, Frakklandskappaksturinn, ætti síðan að henta McLaren vel. Þar er fullt af hægum beygjum, sem virðist vera Akkilesarhæll á Ferraribílnum í ár.
Að lokum vann svo handboltalandsliðið okkar einvígi við Serba um að komast í úrslitakeppni næsta Evrópumóts með einu marki. Hefðum við skorað einu marki færra hefðu Serbarnir farið áfram.
Þetta hefur greinilega verið háspennuleikur. Ég var hins vegar að stússa ýmislegt, gera jógúrt og rúgbrauð og gleymdi leiknum alveg.
Gleðilega þjóðhátíð
kæru lesendur.
Vonandi batnar veðrið eftir að líður á daginn. Frekar rakt núna úti.