Strč prst skrz krk

2007-07-31

Bókin

Filed under: Lestur — Jón Lárus @ 23:37

gerði að engu fyrirætlanir mínar um að byrja á ferðasögunni núna. Er á leiðinni niður og ætla að halda aðeins áfram með Potterinn…

2007-07-29

Wulffmorgenthaler

Filed under: Brandarar — Jón Lárus @ 21:43

er oft góður. Rakst á þennan
áðan. Ekki hægt annað en henda þessu inn.

Fríið búið

Filed under: Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 21:34

Komin heim eftir frí á Ítalíu. Æðislegt frí, þar sem stórfjölskyldan tók á leigu stórt hús í Le Marche héraðinu.  Vorum þar í viku og þar áður í 5 daga í Róm.  Róm ekki sem verst þrátt fyrir gífurlegan hita.

Ferðasagan verður annars að bíða betri tíma. Ferðalag í gær og í dag tók talsverðan toll þannig að ég orka ekki langri færslu núna.

2007-07-13

Ætli það sé rétt tilfinning

Filed under: Húsið,Hm? — Jón Lárus @ 23:07

hjá mér að málning nú til dags þeki ekki eins vel og hún gerði hér áður?

Er núna að vinna með tvær mismunandi málningartegundir. Annars vegar Lady lakk, sem var allavega hér á árum áður frábær málning. Þakti bæði vel og svo jöfnuðust pensilför ótrúlega vel. Er ekki viss um að hún þeki eins vel núna og jafni sig eins vel. Hins vegar er ég með Hörpu silki og það er sama sagan mér finnst málningin bara ekki þekja neitt.

Eða ætli þetta sé bara tilfelli af: Það var allt best hérna í gamla daga…

Vá!

Filed under: Matur,Ruglið — Jón Lárus @ 23:01

Var ekkert smá utan við mig þegar ég var að elda pizzur fyrir okkur krakkana áðan. Var búinn að fletja út botninn á báðum pizzunum, setja tómatmaukið á og dreifa osti yfir.

Henti síðan annarri pizzunni inn í ofninn og fattaði meira að segja ekki að ég ætti eftir að setja afganginn af álegginu á pizzuna þegar ég athugaði hvort hún væri að verða bökuð.

Áttaði mig síðan þegar ég tók pizzuna út. Fengum þá út úr þessu eina margarítu og eina með fullt af parmaskinku og kryddjurtum.

2007-07-11

Setningar I

Filed under: Setningar — Jón Lárus @ 23:58

Ég hef lengi haft áhuga á setningum sem eru sérkennilegar á einhvern hátt eða þá tungubrjótum af ýmsu tagi. Eins og til dæmis: Hnoðri í norðri verður að veðri þótt síðar verði (reynið bara að segja þetta hratt).

Á næstu vikum og mánuðum mega lesendur eiga von á að sjá undarlegar setningar á hinum ýmsustu málum. Það sem er merkilegt við þær getur verið ýmsilegt. Framburður, stafsetning o.s.frv. Sérstaklega þætti mér vænt um ef lesendur sem luma á einhverjum svona setningum væru til í að deila þeim með mér.

Fyrsta setningin sem ég skelli fram er um leið heitið á blogginu mínu:

Strč prst skrz krk.

Þetta er tékknesk setning og það sem mér finnst merkilegt við hana er að það eru engir sérhljóðar í henni.

Uppfærsla, framhald.

Filed under: Hneykslun,Ruglið,Undrun — Jón Lárus @ 20:17

Vá! Ég skrifaði þessa færslu í lok apríl um uppfærslu á vef vínbúðanna. Ætlaði svo að skoða vefinn hjá þeim í gær. Þá kom í ljós að maður getur ekki enn séð vörulistann hjá þeim. Eftir tvo og hálfan mánuð! Hverslags framkvæmdir eru þetta?! Ég bara á ekki orð.

2007-07-7

Peter Lehmann

Filed under: Vín — Jón Lárus @ 23:41

hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá okkur.  Á enn eftir að smakka vonda vínið frá honum.

Eitt af vínunum sem við höfum keypt reglulega er Wildcard shiraz.  Smökkuðum hins vegar 2005 árgang af þessu víni í gær og ég var lítt hrifinn.  Allt of kryddað fyrir minn smekk.

Ég er reyndar svolítið viðkvæmur fyrir shyraz þrúgunni.  Oft sem að mér finnst vín úr slíkri þrúgu fara yfir strikið og verða of áleitin.  Þetta vín var þannig.

Loforðið

Filed under: Ruglið,Stjórnmál — Jón Lárus @ 23:33

Var það ekki Villi borgarstjóri, sem ætlaði aldeilis að taka til hendinni og hreinsa borgina? Ég er búinn að bíða eftir því í allt sumar að eitthvað gerðist hér á Njálsgötunni. Skrapp út í dag og tók mynd af rennusteinunum hér í nágrenninu. Þeir eru að gróa upp. Skrautleg flóra m.a. njólar, fyrir utan ruslið, sem er annar handleggur.

https://i0.wp.com/farm2.static.flickr.com/1388/749819221_39cedc91b2_b.jpg

Sýrenan

Filed under: blóm,Garðurinn,Grænir fingur — Jón Lárus @ 23:19

okkar lítur bara ekki sem verst út.

Sýrena

Ég held hún hafi ekki áður verið svona flott hjá okkur áður. Fyrst eftir að við fluttum hingað þá blómstraði hún næstum ekki neitt. Hrúgur af þrífosfati höfðu hins vegar greinilega áhrif til hins betra.

2007-07-5

Fékk aftur

Filed under: Fjölskyldan,Ruglið — Jón Lárus @ 22:43

merkilegt símtal. Pabbi hafði verið að fara í gegnum einhver plögg og fann bréf til mín frá 1988, sem hafði aldrei komist til skila. Það var frá Reiknistofu bankanna. Alveg magnað. Væntanlega kemur þarna skýring á öllum horfnu milljónunum mínum.

2007-07-3

Það er langt síðan

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:14

ég hef séð jafn fáránlega fyrirsögn!

Hvað á það svo

Filed under: Bjór,Hneykslun — Jón Lárus @ 19:10

að þýða að vera ekki með bjór/vínkæli í Austurríki? Þýddi að maður neyddist til að hjóla upp í Kringlu til að fá kaldan bjór.

Fimmta

Filed under: Matur,Vín — Jón Lárus @ 19:08

grillið á sex dögum í uppsiglingu. Grillið, sem við gerðum á sunnudaginn var samt best. Grilluðum hrefnusteik, smurða í Caj P grillolíu. Mínútu á hlið. Algjör snilld, bráðnaði í munni. Með þessu Violetas malbec rauðvín frá Fincas Don Martino. Smellpassaði við. Meðlætið var svo þetta hér. Átti líka vel við.

Eitthvað annað en hvalkjötið, sem maður þrælaði í sig stundum á menntaskólaárunum. Lagt í mjólk yfir nótt til að reyna að taka mesta lýsisbragðið. Ekki vottur af því í þessum steikum.

Var ekki mönnum sinnandi

Filed under: Hm? — Jón Lárus @ 19:03

í vinnunni í dag eftir að hafa lesið fréttina um að Kate Moss og Pete Doherty væru hætt saman…

Guðrún Svava

Filed under: Afmæli,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 19:01

systir mín á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið kæra systir.

Verst að ég man ekki hvort hún er 33 eða 21h eða 29t.

2007-07-2

Aspasinn

Filed under: blóm — Jón Lárus @ 23:01

okkar byrjaði að blómstra núna um daginn einhvern tímann. Ég tók hins vegar ekkert eftir því fyrr en allt var orðið stráð blómum fyrir neðan plöntuna. Látlaus blóm hvað?

Fékk undarlegt

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 19:33

símtal í gærkvöldi. Vinur minn hringdi í mig og spurði mig hvað andarungar, líklega æðarungar ætu.

Þá hafði hann rekist á kött, sem var að leika sér að einum slíkum, rétt hjá Ægisíðunni. Hann ætlaði að koma honum út í fjöru en rakst þá á annan umkomulausan unga, sem mávar hnituðu hringa yfir. Hann endaði heima með báða ungana en ætlaði að gefa þeim eitthvað að éta áður en farið yrði með þá í Húsdýragarðinn í dag.

Ég hugsaði mig um í smástund. Sagði svo: „Þú ert líklega ekki með neinar marflær?“ Stakk síðan upp á að hann prófaði að brytja niður sardínur fyrir þá.

Er svo ekki enn búinn að athuga hvernig gekk með sardínurnar.

Bloggaðu hjá WordPress.com.