að við skyldum drífa okkur í að tína sveppi og ber um helgina og á mánudagskvöldið því að það er búin að vera rigning síðan og sér ekki fyrir endann á henni. Vorum ekki búin að tína neitt af sveppum sjálf fyrr en núna (en vorum að vísu búin að fá lerkisveppasendingu að austan). Það hefði verið algert ómark ef við hefðum ekki náð að komast neitt í sveppamó sjálf. Fórum á sunnudag í berjamó og fundum talsvert af berjum bæði krækiberjum og bláberjum. Annars má sjá meira um berjatínslu og sultun hjá Hildigunni.
2007-08-29
Lítur ekki
vel út með Esjugöngu um helgina. Ég og stelpurnar vorum að spá í að skella okkur ef veður væri gott. Síðan er bara spáð rigningu eins langt og spár ná. Sjáum þá bara til um þar næstu helgi ef veðrið verður ekki spennandi um þessa.
2007-08-23
91%
Fyrir og eftir myndir
Ég er alveg ægilega lélegur í að taka svona fyrir og eftir myndir af framkvæmdum. Ætla alltaf að taka myndaseríu þegar ég ræðst í einhver verkefni en svo gleymist það næstum því alltaf. Núna síðast þegar ég var að taka eldhúsinnréttinguna í gegn. Var alveg þvílíkt búinn að hugsa mér að taka seríu. Svo tók framkvæmdahugurinn völdin og það steingleymdist.
2007-08-19
Vífilsfell
Ég og stelpurnar fórum í fjallgöngu í dag. Gengum á Vífilsfellið. Skemmtilegt fjall að ganga á. Frekar bratt en maður er líka verðlaunaður þegar á toppinn er komið með frábæru útsýni. Þetta var undirbúningur undir Esjugöngu, sem er ráðgerð um næstu helgi. Vonandi að það verði líka gott veður þá.
2007-08-17
Selatangar
Fórum, öll fjölskyldan, í sunnudagsbíltúr í dag. Ókum sem leið lá fram hjá Kleifarvatni. Stoppuðum þar smá stund til að tína ber. Héldum síðan áfram til Selatanga. Horfðum á öldur og brim dágóða stund. Öldur eru eins og eldur. Hægt að horfa endalaust á þær.
Þegar við gátum slitið okkur frá Selatanga lá leiðin til Selfoss eftir Suðurstrandarvegi til að kaupa málningu, sem fékkst hvergi annars staðar á landinu. Og ís. Eftir ísinn var síðan ekið í bæinn. Snilldar bíltúr.
Sicko
Sáum Sicko, nýjustu mynd Michael Moore fyrir nokkrum dögum. Ekkert smá góð mynd. Skylduáhorf, ekki spurning!
Maður fyllist óhugnaði yfir hvað heilbrigðiskerfið í BNA er hrikalega lélegt. Ekki einu sinni alltaf nóg að vera með sjúkratryggingu. Fólk getur misst trygginguna ef það er of oft veikt eða ef tryggingarfyrirtækið ákveður að sjúkdómurinn hafi verið kominn til áður en tryggingin var tekin. Og vesalings þeir, sem eru ekki tryggðir ef þeir verða veikir. Maður getur ekki nógsamlega þakkað fyrir að búa í landi þar sem heilbrigðiskerfið virkar svona að mestu leyti, þó það sé náttúrlega alltaf hægt að bæta kerfið.
2007-08-13
Þríþraut
Prófaði síðan í gær að taka hjól og hlaup, sem var tæpur helmingur af ólympíuvegalengdinni. Nánar tiltekið 18,2 km á hjóli og 4,4 km hlaup. Tímarnir voru nú ekki ógnvænlegir. 43:05 mínútur með hjólavegalengdina og 20 mínútur að hlaupa þetta. Plús svo 1 mínúta í að ganga frá hjólinu og koma sér af stað að hlaupa. Samtals 1:04:00. Þetta eru tímar sem verða mölvaðir rækilega.
Kemur í ljós að ég verð að útvega mér götuhjól ef ég ætla að keppa í þríþraut. Hef hjólað þessa sömu leið á götuhjóli á 36 mínútum. Svo er náttúrlega alltaf skrítið að byrja að hlaupa eftir að hafa hjólað. Tók mig 6 til 7 mínútur að ná upp almennilegum hlaupatakti.
2007-08-11
Var
svo að taka ákvörðun í morgun. Mig hefur lengi dreymt um að hlaupa maraþon í þriðja og síðasta skipti. Það átti þá að vera eitthvað stórt. Boston, New York, London eða eitthvað álíka. Ekki San Francisco samt.
Ákvað hins vegar í morgun að hætta við þá áætlun. Í staðinn er stefnan tekin á að taka þátt í þríþrautarkeppni. Ólympískri vegalengd. Það er að segja 1500 m sund, 40 km hjólreiðar og 10 km hlaup. Veit samt ekki ennþá hvar. Er samt þegar búinn að setja mér tímamarkmið.
Frí
Kominn aftur í frí. Tveggja vikna. Þvílíkt góð tilfinning. Að þessu sinni verður þó ekki farið neitt, nema kannski í einhverja bíltúra. Stefnan sett á að dytta aðeins að húsinu.
2007-08-8
Risaalda í Algeríu
Þetta er frétt á mbl.is núna í kvöld. Líklega er þó átt við Alsír í fréttinni. Svo er talað um að aldan hafi riðið yfir vesturströnd Algeríu, sem hlýtur að vera svolítið erfitt þar sem strandlengja Alsír snýr í norður svona að mestu leyti (reyndar að hluta til í NNV). Fyrir utan að innihald fréttarinnar er að mestu leyti fabúleringar af ýmsu tagi. Þetta er svo klént að maður á ekki orð.
Le Marche II
Ég veit, ég veit. Það er ekki prímtöludagsetning í dag. Ætla samt að svindla aðeins og taka Fibonacchi á þetta.
Vikan leið semsagt hjá okkur í því sem næst algerri leti. Sólin sleikt, lesið og slappað almennt af. Síðan úðaði maður í sig mat og drykk. Dæmigerður morgunmatur leit þannig út: Espressó, greipsafi, jógúrt og brauð með skinku og bel paese osti. Namm!
Við Hildigunnur, Fífa, Anna Sigga og Alexsandra skutumst til San Marínó einn daginn. Vorum um 5 tíma að keyra fram og til baka. Keyptum slatta af líkjörum og svo piadinupönnu.
Þótt við værum þarna úti í þvílíkri sveit þá þurfti maður ekki að fara langt til að finna fínustu veitingastaði. Fyrsta kvöldið okkar fórum við á pizzustað í S. Vittoria in Matenano, smábæ svona 10 km frá húsinu okkar. Pizzurnar þar voru í einu orði sagt hrikalega góðar, með þeim betri sem maður hefur smakkað.
Annað veitingahús sem við fórum á var í pínulitlu þorpi rétt hjá Comunanza, sem var stærsti bærinn í nágrenninu. Veit ekkert hvað þorpið hét en veitingastaðurinn hét Re Artù. Ég fékk mér tagliatelle með jarðkeppum. Í annað skipti á ævinni sem ég smakkaði slíkt hnossgæti. Þar sem við vorum ekki á jarðkeppatíma þá voru bara notaðir þurrkaðir sveppir. Ég get nú ekki sagt að það hafi verið mikið bragð af réttinum. Maður verður bara einhvern tímann að fara til Ítalíu á bilinu nóvember til mars til að prófa ferska jarðkeppi. Þá skilur maður kannski af hverju þeir eru lofsungnir svona.
Síðasta kvöldið sem við vorum í Le Marche fórum við svo á mjög fínan stað í mjög litlu þorpi sem var u.þ.b. 5 kílómetra frá húsinu okkar. Staðurinn heitir Le Logge. Þar fengum við blandaða forrétti (4 mismunandi réttir) hver öðrum ljúffengari. Síðan var blandað grill, sem var ekkert smá gott. Eins og venjulega var grillaði kálfurinn bestur. Eigum eftir að prófa það sjálf hér heima. Í lokin fengu þeir, sem höfðu verið svo forsjálir að geyma pláss í lakanum, sér eftirrétt. Útsýnið frá þessum stað var glæsilegt. Þorpið stóð efst upp á kletti og á veitingastaðnum voru tvennar svalir með útsýni yfir nærliggjandi dali. Punkturinn yfir iið var síðan víngeymsla veitingahússins sem gestir staðarins gátu skoðað.
Ég var ekki alveg búinn að gefast upp á skokkinu þótt við erfiðar aðstæður væri að etja. Næstsíðasta daginn þá rakst ég á dauðan snák. Hann var a.m.k. metri á lengd. Seinna um kvöldið, á leiðinni á Le Logge þá stoppuðum við og tókum mynd af hræinu. Fréttum síðar að þessi tegund væri sauðmeinlaus.
Síðasta morguninn þá skokkaði ég til Smerillo eftir bílnum. Höfðum skilið hann eftir hjá veitingastaðnum. Á leiðinni sá ég mjög stóran ránfugl hnita hringi rétt hjá þar sem ég hafði fundið snákinn daginn áður. Þetta var örugglega örn eða gammur. Hugsanlega hafði hann hirt snákshræið, því það var horfið. Eftir að hafa skoðað fuglabókina þá tókst mér með útilokunaraðferð að finna út að þarna hafi að öllum líkindum verið um gullörn að ræða.
Síðar um morguninn lögðum við af stað áleiðis til Rómar. Að þessu sinni var ekið á hraðbrautum eins og kostur var. Ágætt að losna við hlykkina. Leiðin sem við fórum var afskaplega falleg. Ekið rétt hjá hæsta fjalli Appennínafjallgarðsins, Corno Grande, sem er 2914 m hátt. Þar rétt hjá var ekið í gegnum 10 km löng göng gegnum fjallgarðinn. Enduðum síðan á hóteli við flugvöllinn. Þurftum að vakna kl. 4 næsta morgun til að ná flugi til Stansted og síðar um daginn heim til Íslands.
2007-08-7
Le Marche
Eftir 5 daga í Róm var stefnan tekin til Le Marche þar sem sem stórfjölskyldan ætlaði að dvelja í sveitasetri í eina viku. Tekin var ákvörðun um að aka sem allra stystu leið yfir Appennínaskagann. Eftir u.þ.b. 5 tíma ferðalag komumst við loks á áfangastað, rétt hjá þorpinu Montefalcone Appennino.
Síðustu 40 kílómetrarnir eða svo á afskaplega þröngum og hlykkjóttum vegum. Þar á leiðinni sáum við fyrsta af mörgum skógareldum, sem komu upp reglulega þarna í nágrenninu.
Húsið var síðan ekkert smá flott. 8 stór og glæsileg herbergi og a.m.k. tvö smærri þannig að hópurinn komst auðveldlega fyrir. Sér sundlaug og tennisvöllur.
Sundlaugin átti eftir að koma sér vel. Hitinn þarna var síst minni en í Róm þótt rakastigið væri líklega öllu lægra. Krakkarnir nánast bjuggu ofan í lauginni og okkur fullorðna fólkinu þótti heldur alls ekki slæmt að hoppa út í til að kæla okkur.
Eina sem hægt var að setja út á var að engin loftkæling var í húsinu. Við sváfum því við galopna glugga til að reyna að fá einhvern andvara í gegnum herbergin. Það var allt í lagi því þarna voru nánast engar moskítóflugur. Eftir að hafa verið nánast sem nálapúði eftir Róm þá bættust ekki nema 2 eða 3 stungur við í Le Marche.
Við Jón Heiðar ákváðum að reyna að skokka þarna um nágrennið. Það kom nú í ljós að aðstæður voru skokkurum frekar óhagstæðar. Dalbotninn var í ca. 300 m hæð og þorpið fyrir ofan í rétt tæplega 900 m hæð. Og húsið okkar svona u.þ.b. fyrir miðju eða í um 600 m hæð. Við reyndum fyrst að skokka upp eftir. Það var erfitt. 35 stiga hiti og 2 km stanslaust upp í móti. Við kláruðum 5 km og vorum gjörsamlega búnir. Ákváðum síðan eftir að hafa skokkað upp eftir tvisvar að skokka niður í dalinn. Tókum 6 kílómetra. 2,5 kílómetrar stanslaust niður í móti. Mesti halli yfir 20% og 36 gráðu hiti. Held svei mér þá að þetta séu erfiðustu aðstæður sem ég hef skokkað í á æfinni. Hafi maður verið búinn eftir fyrstu tvö skiptin þá var maður algerlega kláraður þarna. Þetta er ekki svæði sem er hentugt fyrir skokkara.
2007-08-5
Fyrramálið
Já það var þetta með fyrramálið…
Það var bara þessi bók þarna. En nú er ég búinn með hana. Góður lokahnykkur á seríunni og engir lausir endar. Smá eftirsjá samt þegar þetta allt saman er búið. Ekki samt eins og gamall skólabróðir minn, sem sagði að honum hefði beinlínis liðið illa eftir að hafa klárað Hringadrottinssögu, þar sem hann vissi að hann ætti aldrei eftir að lesa nokkuð jafngott.
En nú er ég kominn þokkalega út fyrir efnið. Meiningin var að setja inn einhver brot úr Ítalíuferðinni. Hildigunnur er nú reyndar búin að rekja fyrstu dagana nokkuð ítarlega en hér er semsagt fyrsti skammtur:
Fyrsti dagurinn fór að sjálfsögðu í ferðalag. Flugum til Stansted. Þar þurftum við að bíða í 5 eða 6 tíma eftir flugi til Rómar. Við ákváðum því að taka bílaleigubíl og reyna að finna eitthvert þorp í nágrenninu til að eyða tímanum. Ég hef aldrei keyrt áður í Englandi og það hefur örugglega verið sjón að sjá okkur þegar við vorum að reyna að komast út af flugvallarsvæðinu, kortalaus og allslaus. Gerðist örugglega þrisvar sinnum að voru teknir 2 hringir á hringtorgum meðan við reyndum að leið út af flugvallarsvæðinu. Og þurfa alltaf að hugsa: Beygja vitlaust, beygja vitlaust, beygja vitlaust. Allt hafðist þetta nú að lokum og við fundum bæ þar sem var verslað smá og við fengum það sem reyndist vera langversta máltíð ferðalagsins.
Síðan var flogið með Ryanair (er það ekki Reynisflug?) til Rómar. Aldrei aftur með því flugfélagi ef hjá því verður komist. Hildigunnur lýsir því betur í sinni færslu. Komumst nú að lokum á Ciampino flugvöll hjá Róm. Tókum þar við bílnum. Það var smá vesen að fá hann afhentan því að hann var í dýrasta klassa og því heimtuðu Hertz menn að fá tvö kreditkort, sem tryggingu (kom í ljós síðar að þau þurftu að vera frá sama manninum!). Við erum bara óvart með eitt. Eftir smá japl, jaml og fuður tókst okkur samt að fá bílinn. Óxla flottur BMW 320, með díselvél. Ég var með smá efasemdir um díselvélina en þær hurfu strax og bíllinn var tekinn til kostanna. Hann var eins og hugur manns, kraftmikill og rúmgóður.
Komumst svo loks á hótelið eftir smá basl. Þurftum að spyrja til vegar þrisvar sinnum á leiðinni. Vorum bara með leiðarlýsingu prentaða út úr Google og komið niðamyrkur. Stelpunum fannst við skera okkur úr þar sem við keyrðum mjög hægt að reyna að skima eftir skiltum. Allt hafðist þetta samt að lokum.
Þessir fjórir heilu dagar, sem við höfðum í Róm liðu síðan eins og hendi væri veifað. Við slepptum viljandi öllum söfnum og Vatíkaninu. Ekki hægt að bjóða krökkunum upp á það og þetta var líka svo stuttur tími að það þurfti að velja og hafna. Á hinn bóginn voru helstu torg og gosbrunnar þrædd af mikilli nákvæmni ekki síst vegna þess að það var gífurlega heitt þegar við vorum þarna. 34-38 gráður. Hvert tækifæri var því notað, þegar við rákumst á vatnspósta, til að bleyta í hausum. Skruppum síðan einn dag niður á strönd. Það var mjög skemmtilegt. Algerlega ítölsk strönd, engir túristar þar nema við að því er við best gátum séð.
Þetta var eina skiptið, sem bíllinn var hreyfður meðan við vorum í Róm.
Síðan er náttúrlega ekki hægt annað en að minnast á Colosseo, sem við fórum í síðasta daginn, sem við vorum í Róm. Þá voru hinar fjölskyldurnar, sem við ferðuðumst með líka komnar út. Farið var í hópferð snemma um morgun til að skoða þessa stórmerkilegu byggingu. Ég hafði lesið fullt um hana og séð ótal myndir. Það jafnast samt ekkert á við það að koma þarna inn. Stórfenglegt í einu orði.
Það er náttúrlega bara skandall að hafa ekki komið áður til Rómar. En eitt er víst, þetta er ekki í síðasta skipti. Stórskemmtileg borg.
Grigliata mista
Eftir að hafa fengið hverja grillmáltíðina annarri betri út á Ítalíu þá ákváðum við að reyna að herma.
Drifum okkur í hjólatúr vestur í bæ. Finnur var meira að segja með. Komum við í Melabúðinni og keyptum hráefni í grill. Naut, svín, pylsur (pólskar), lúðu og hval. Reyndar ekki alveg dæmigert grigliata mista en það var ekki til neinn kálfur og Finnur vildi endilega einhvern fisk.
Við vorum líka búin að komast að því að það er hægt að fá viðarkol í Europris en þau virðast vera nauðsynleg til að fá þetta sérstaka bragð, sem okkur fannst vera á ítölskum grillmat. Við fórum því í Europris og fengum þar þessi fínu viðarkol. Ódýr í þokkabót. Svo var grillað. Niðurstaðan sést hér fyrir neðan.
Arinpumpa
Þetta verkfæri rákumst við á í Europris í gær. Líklega hefur sá sem skrifaði vörulýsinguna ekki þekkt orðið físibelgur.
2007-08-3
Þetta er upphafið að ferðafærslu
nr. 1.
Bara að taka frá plássið. Framhald í fyrramálið…
2007-08-2
Raincheck
Það verður greinilega engin færsla af viti hérna fyrr en ég er búinn með bókina. Það er bara þannig.