Já það var þetta með fyrramálið…
Það var bara þessi bók þarna. En nú er ég búinn með hana. Góður lokahnykkur á seríunni og engir lausir endar. Smá eftirsjá samt þegar þetta allt saman er búið. Ekki samt eins og gamall skólabróðir minn, sem sagði að honum hefði beinlínis liðið illa eftir að hafa klárað Hringadrottinssögu, þar sem hann vissi að hann ætti aldrei eftir að lesa nokkuð jafngott.
En nú er ég kominn þokkalega út fyrir efnið. Meiningin var að setja inn einhver brot úr Ítalíuferðinni. Hildigunnur er nú reyndar búin að rekja fyrstu dagana nokkuð ítarlega en hér er semsagt fyrsti skammtur:
Fyrsti dagurinn fór að sjálfsögðu í ferðalag. Flugum til Stansted. Þar þurftum við að bíða í 5 eða 6 tíma eftir flugi til Rómar. Við ákváðum því að taka bílaleigubíl og reyna að finna eitthvert þorp í nágrenninu til að eyða tímanum. Ég hef aldrei keyrt áður í Englandi og það hefur örugglega verið sjón að sjá okkur þegar við vorum að reyna að komast út af flugvallarsvæðinu, kortalaus og allslaus. Gerðist örugglega þrisvar sinnum að voru teknir 2 hringir á hringtorgum meðan við reyndum að leið út af flugvallarsvæðinu. Og þurfa alltaf að hugsa: Beygja vitlaust, beygja vitlaust, beygja vitlaust. Allt hafðist þetta nú að lokum og við fundum bæ þar sem var verslað smá og við fengum það sem reyndist vera langversta máltíð ferðalagsins.
Síðan var flogið með Ryanair (er það ekki Reynisflug?) til Rómar. Aldrei aftur með því flugfélagi ef hjá því verður komist. Hildigunnur lýsir því betur í sinni færslu. Komumst nú að lokum á Ciampino flugvöll hjá Róm. Tókum þar við bílnum. Það var smá vesen að fá hann afhentan því að hann var í dýrasta klassa og því heimtuðu Hertz menn að fá tvö kreditkort, sem tryggingu (kom í ljós síðar að þau þurftu að vera frá sama manninum!). Við erum bara óvart með eitt. Eftir smá japl, jaml og fuður tókst okkur samt að fá bílinn. Óxla flottur BMW 320, með díselvél. Ég var með smá efasemdir um díselvélina en þær hurfu strax og bíllinn var tekinn til kostanna. Hann var eins og hugur manns, kraftmikill og rúmgóður.
Komumst svo loks á hótelið eftir smá basl. Þurftum að spyrja til vegar þrisvar sinnum á leiðinni. Vorum bara með leiðarlýsingu prentaða út úr Google og komið niðamyrkur. Stelpunum fannst við skera okkur úr þar sem við keyrðum mjög hægt að reyna að skima eftir skiltum. Allt hafðist þetta samt að lokum.
Þessir fjórir heilu dagar, sem við höfðum í Róm liðu síðan eins og hendi væri veifað. Við slepptum viljandi öllum söfnum og Vatíkaninu. Ekki hægt að bjóða krökkunum upp á það og þetta var líka svo stuttur tími að það þurfti að velja og hafna. Á hinn bóginn voru helstu torg og gosbrunnar þrædd af mikilli nákvæmni ekki síst vegna þess að það var gífurlega heitt þegar við vorum þarna. 34-38 gráður. Hvert tækifæri var því notað, þegar við rákumst á vatnspósta, til að bleyta í hausum. Skruppum síðan einn dag niður á strönd. Það var mjög skemmtilegt. Algerlega ítölsk strönd, engir túristar þar nema við að því er við best gátum séð.
Þetta var eina skiptið, sem bíllinn var hreyfður meðan við vorum í Róm.
Síðan er náttúrlega ekki hægt annað en að minnast á Colosseo, sem við fórum í síðasta daginn, sem við vorum í Róm. Þá voru hinar fjölskyldurnar, sem við ferðuðumst með líka komnar út. Farið var í hópferð snemma um morgun til að skoða þessa stórmerkilegu byggingu. Ég hafði lesið fullt um hana og séð ótal myndir. Það jafnast samt ekkert á við það að koma þarna inn. Stórfenglegt í einu orði.
Það er náttúrlega bara skandall að hafa ekki komið áður til Rómar. En eitt er víst, þetta er ekki í síðasta skipti. Stórskemmtileg borg.