Ég veit, ég veit. Það er ekki prímtöludagsetning í dag. Ætla samt að svindla aðeins og taka Fibonacchi á þetta.
Vikan leið semsagt hjá okkur í því sem næst algerri leti. Sólin sleikt, lesið og slappað almennt af. Síðan úðaði maður í sig mat og drykk. Dæmigerður morgunmatur leit þannig út: Espressó, greipsafi, jógúrt og brauð með skinku og bel paese osti. Namm!
Við Hildigunnur, Fífa, Anna Sigga og Alexsandra skutumst til San Marínó einn daginn. Vorum um 5 tíma að keyra fram og til baka. Keyptum slatta af líkjörum og svo piadinupönnu.
Þótt við værum þarna úti í þvílíkri sveit þá þurfti maður ekki að fara langt til að finna fínustu veitingastaði. Fyrsta kvöldið okkar fórum við á pizzustað í S. Vittoria in Matenano, smábæ svona 10 km frá húsinu okkar. Pizzurnar þar voru í einu orði sagt hrikalega góðar, með þeim betri sem maður hefur smakkað.
Annað veitingahús sem við fórum á var í pínulitlu þorpi rétt hjá Comunanza, sem var stærsti bærinn í nágrenninu. Veit ekkert hvað þorpið hét en veitingastaðurinn hét Re Artù. Ég fékk mér tagliatelle með jarðkeppum. Í annað skipti á ævinni sem ég smakkaði slíkt hnossgæti. Þar sem við vorum ekki á jarðkeppatíma þá voru bara notaðir þurrkaðir sveppir. Ég get nú ekki sagt að það hafi verið mikið bragð af réttinum. Maður verður bara einhvern tímann að fara til Ítalíu á bilinu nóvember til mars til að prófa ferska jarðkeppi. Þá skilur maður kannski af hverju þeir eru lofsungnir svona.
Síðasta kvöldið sem við vorum í Le Marche fórum við svo á mjög fínan stað í mjög litlu þorpi sem var u.þ.b. 5 kílómetra frá húsinu okkar. Staðurinn heitir Le Logge. Þar fengum við blandaða forrétti (4 mismunandi réttir) hver öðrum ljúffengari. Síðan var blandað grill, sem var ekkert smá gott. Eins og venjulega var grillaði kálfurinn bestur. Eigum eftir að prófa það sjálf hér heima. Í lokin fengu þeir, sem höfðu verið svo forsjálir að geyma pláss í lakanum, sér eftirrétt. Útsýnið frá þessum stað var glæsilegt. Þorpið stóð efst upp á kletti og á veitingastaðnum voru tvennar svalir með útsýni yfir nærliggjandi dali. Punkturinn yfir iið var síðan víngeymsla veitingahússins sem gestir staðarins gátu skoðað.
Ég var ekki alveg búinn að gefast upp á skokkinu þótt við erfiðar aðstæður væri að etja. Næstsíðasta daginn þá rakst ég á dauðan snák. Hann var a.m.k. metri á lengd. Seinna um kvöldið, á leiðinni á Le Logge þá stoppuðum við og tókum mynd af hræinu. Fréttum síðar að þessi tegund væri sauðmeinlaus.
Síðasta morguninn þá skokkaði ég til Smerillo eftir bílnum. Höfðum skilið hann eftir hjá veitingastaðnum. Á leiðinni sá ég mjög stóran ránfugl hnita hringi rétt hjá þar sem ég hafði fundið snákinn daginn áður. Þetta var örugglega örn eða gammur. Hugsanlega hafði hann hirt snákshræið, því það var horfið. Eftir að hafa skoðað fuglabókina þá tókst mér með útilokunaraðferð að finna út að þarna hafi að öllum líkindum verið um gullörn að ræða.
Síðar um morguninn lögðum við af stað áleiðis til Rómar. Að þessu sinni var ekið á hraðbrautum eins og kostur var. Ágætt að losna við hlykkina. Leiðin sem við fórum var afskaplega falleg. Ekið rétt hjá hæsta fjalli Appennínafjallgarðsins, Corno Grande, sem er 2914 m hátt. Þar rétt hjá var ekið í gegnum 10 km löng göng gegnum fjallgarðinn. Enduðum síðan á hóteli við flugvöllinn. Þurftum að vakna kl. 4 næsta morgun til að ná flugi til Stansted og síðar um daginn heim til Íslands.
Var ekki drukkið neitt létt í þessari ferð?
Athugasemd af Arnar — 2007-08-8 @ 22:51 |
hehe, jú, en best að Jón svari því sjálfur.
Við erum búin að reyna að hafa grillaðan kálf síðan við komum heim, en kálfakjöt er víst nokk ófáanlegt þessa dagana 😦
Athugasemd af hildigunnur — 2007-08-8 @ 23:01 |
Jú, jú það var nú eitthvað drukkið af léttvíni. Drukkum nánast bara hvítt. Höfðum bara ekki lyst á rauðvíni í þessum hitum sem voru. Í Róm smökkuðum við 2 eða 3 mismunandi tegundir af Frascati Superiore. Fyrir utan að vel má vera að einhver af húsvínunum hafi verið Frascati. Ég er hrifinn af Frascati. Átti sérlega vel við í veðráttunni eins og hún var. Síðan í Le Marche þá smökkuðum við Casal di Serra, Vecchie vigne. Mjög fínt vín. Hefur þú annars flutt eitthvað af því inn? Við tókum eina flösku með okkur til landsins. Síðan síðasta kvöldið á Le Logge þá fengum við okkur rauðvín. Man nú ekki hvað framleiðandinn hét en það var frá Picena, sem er þarna skammt frá.
Athugasemd af Jón Lárus — 2007-08-8 @ 23:10 |
jú, við fengum okkur nú aðeins oftar rauðvín. Með heimagrillinu (sem ég á eftir að segja frá á minni síðu) voru 3 mismunandi rauðvín; aftur þótti okkur staðarvínið best, og með bolognesinu var líka rauðvín, man nú ómögulega meira um það, ágætis rauðvín en frekar venjulegt 2 evrur á flöskuna eða álíka.
En tek annars undir, hvítvín og bjór var málið í þessum hita. Og kók…
Athugasemd af hildigunnur — 2007-08-9 @ 00:50 |
Já, kælt hvítvín og bjór er best við svona aðstæður. Frascati vín eru svo létt með góða sýru og gott að glugga niður. Nei, ég hef ekki flutt inn Vecchio Vigne ennþá en hver veit.
Athugasemd af Arnar — 2007-08-9 @ 22:06 |
Corno grande, hljómar eins og nafn á íspinna 😀
Athugasemd af hildigunnur — 2007-08-10 @ 15:59 |
Þokkalega stór íspinni þá…
Athugasemd af Jón Lárus — 2007-08-11 @ 12:48 |