Strč prst skrz krk

2007-09-29

Á ekki orð

Filed under: Hneykslun — Jón Lárus @ 21:37

yfir fréttirnar af dónaskap fólks við afgreiðslufólk í IKEA og fleiri búðum, sem hafa birst undanfarna daga. Hvernig stendur á því að fólk helli sér yfir fatlað afgreiðslufólk eða af erlendu bergi brotnu þó það tali ekki íslensku. Ég skil þetta bara ekki. Það hlýtur að vera verulega mikið að hjá þessu fólki. Það kostar ekki mikið að vera kurteis.

Loksins, loksins

Filed under: Boltinn,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 21:23

Fór á leik Vals og HK í úrvalsdeildinni í dag. Ekki annað hægt. Hef verið Valsari frá blautu barnsbeini og nú í fyrsta skipti í óratíma, sem þeir hafa átt raunverulega möguleika á að verða Íslandsmeistarar.

Dró alla krakkana með og við hjóluðum meira að segja fram og til baka. Um leikinn er nú svo sem ekki mikið að segja. En mínir menn gerðu nógu mikið til að merja sigur og hirða titilinn. Í fyrsta skipti í 20 ár! Núna sleppur maður að minnsta kosti við að heyra brandara um að bikarinn hafi verið með rúnaletri síðast þegar titillinn vannst eða þá að boltinn hafi verið reimaður saman.

Hálf var nú hráslagalegt að sitja þarna í gjólu og stundum rigningu þannig að þegar heim var komið skelltum við okkur öll (Hildigunnur líka) á Mokka og fengum okkur heitt súkkulaði með rjóma. Svíkur aldrei.

2007-09-24

Venjulega

Filed under: Hneykslun,Ruglið,Stjórnmál — Jón Lárus @ 23:27

færi ég ekki utan prímtöludagsetninga (nema í stöku tilfellum þegar ég tek Fibonacchi svindl). En þessi grein hér er bara svo svakaleg að ég get ekki orða bundist.

Verst að til að lesa hana verður að kunna svolítið í ítölsku. Ef einhver veit um upprunagreinina væri urlið vel þegið.

2007-09-23

Finnur og víólutíminn

Filed under: Fjölskyldan,Tónlistarnám — Jón Lárus @ 23:49

Fór með Finn í víólutíma núna fyrir nokkrum dögum. Þegar tíminn var búinn þá sagði hann við mig: Pabbi ég hlakka rosalega til þegar ég byrja á bók 3, veistu af hverju. Ég, nei Finnur minn ég veit ekki af hverju. Jú þá fæ ég nefnilega að læra víbrató.

Vonandi bara að hann verði jafn spenntur þegar hann fer að æfa það. Það er víst ekki mjög skemmtilegt að æfa það skilst mér.

Loksins

Filed under: Blogg — Jón Lárus @ 23:42

er kommentakerfið á WordPress.com komið í lag. Búið að vera í þvílíku ólestri undanfarna daga. En semsagt virðist vera hrokkið í lag núna.

Ég eyðilagði

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:36

greinilega urlið fyrir þessum bloggara með blogspot síðunni minni. Þegar strcprstskrzkrk var upptekið þá notaði hann strcprstskrskrk. En svo er z-an komin inn í hausnum á síðunni. Ég sem nota ekki einu sinni þá síðu.

2007-09-19

Kommentakerfið

Filed under: Blogg — Jón Lárus @ 23:01

hjá WordPress er í tómu tjóni þessa dagana. Tók eftir þessu fyrir tveimur dögum fyrst að það væri ekki hægt að skrá inn komment við eina færslu. Það fór líka að bera á þessu hjá Hildigunni og fleiri WordPress bloggurum um svipað leyti. Nú er ekki hægt að skrifa við tvær síðustu færslur í dag. Grrr…

Orkustöðvar

Filed under: Íslenska — Jón Lárus @ 22:48

Forsetinn var eitthvað að velta fyrir sér um daginn hvað ætti að kalla bensínstöðvar þegar þær væru farnar að selja ýmis konar eldsneyti annað en bensín. Ég hef nú kallað þetta orkustöðvar í mörg ár og finnst það alveg gefið nafn. Örugglega mörgum búið að detta þetta í hug.

Fór í gær

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:45

og tók myndir af húsinu, sem var flutt með miklum tilfæringum í fyrrinótt.

Húsaflutningar

Meiri húsaflutningar

Ég er ekkert hissa á að þetta hafi gengið brösuglega miðað við hvað húsið tók mikið pláss þar sem það stóð á gatnamótum Spítalastígs og Bergstaðastrætis,við hliðina á grunninum þar sem átti að fara að planta því.

Broskallinn

Filed under: Afmæli,Nördismi — Jón Lárus @ 21:05

eða smælinginn eins og sumir kalla hann á afmæli í dag. Orðinn alveg 25 ára. Einhverjir nerðir í Bandaríkjunum lögðust í talsverða rannsóknarvinnu og komust að þessu eins og sjá má hér

2007-09-17

Íslandsmeistarar

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 23:47

Valsstelpur Íslandsmeistarar í krasspyrnu kvenna. Til hamingju með það.

Á sama tíma misnotuðu strákarnir tækifæri til að komast upp að hlið FH. Þeir verða þá bara að vinna þá í næsta leik.

St. pálían

Filed under: Grænir fingur — Jón Lárus @ 23:37

Ákvað í vor að endurnýja st. pálíuna, sem ég er með. Þetta á ekki að vera neitt mál. Bara skera hraustlegt blað af jurtinni og stinga í mold. Passa síðan að ofþorni ekki. Þá eiga að stinga upp kollinum nýir sprotar eftir fáeinar vikur. Ég gerði þetta í vor einhvern tímann.

Bjóst við að eitthvað færi að gerast í júní en óekkí. Hélt að þetta hefði bara klúðrast hjá mér þegar ekkert var farið að gerast í júlí og ágúst. Svo var það núna í byrjun september að fór að sjást í ný blöð. Nokkrar vikurnar voru semsagt 16-18!

Skóflóð

Filed under: Heimilisstörf — Jón Lárus @ 23:13

Tók mig til um helgina og réðst á skóhrúguna niðri við aðalinnganginn okkar. Veitti ekki af, ástandið var orðið hrikalegt eins og sjá má hér að neðan. Líka vegna þess að bráðlega verður þeim inngangi breytt í herbergi fyrir Finn. Höfum þá ekki pláss nema fyrir brot af hrúgunni eins og hún var.

Skóflóð

Tækifærið var síðan notað til að grynnka á skófjallinu. Of litlum, gatslitnum og skóm sem voru aldrei notaðir var hent. Eitthvað á að fara í Sorpu. Sumarskóm pakkað inn í skáp.

Eftir tiltektina er gangurinn alveg ótrúlega snyrtilegur (spurning samt hvað það helst lengi) og lítur út fyrir að verði ekki vandamál að koma skóbúnaðinum fyrir í nýja ganginum, sem er miklu minni en sá gamli

2007-09-13

Grrr

Filed under: Formúla 1 — Jón Lárus @ 21:08

Mínir menn aldeilis teknir í bakaríið af FIA vegna njósnamálsins svokallaða. Í stuttu máli snýst málið um það að starfsmaður Ferrari lét starfsmann McLaren hafa tæknileg skjöl í talsverðu magni. Það er óumdeilt. Hins vegar er erfiðara að segja til um hvort að einhver annar innan liðsins hafi vitað af skjölunum eða þá að þau hafi verið notuð (það er raunar frekar ótrúlegt, því þegar upplýsingunum var lekið þá var löngu búið að hanna bílinn).

FIA menn telja sig greinilega hafa sannað að McLaren hafi nýtt sér þessar upplýsingar og láta sleggjuna falla. Búið að gefa upp hver refsingin á að vera (McLaren missir öll stig í keppni bílasmiða á þessu ári + 100 milljón $ sekt og síðan er einhver óútfylltur víxill á næsta ári ef þeir hegða sér ekki vel). Væntanlega getur McLaren áfrýjað en hvort það er til einhvers er annað mál.

Mér finnst megn skítalykt af þessu máli. Spurning hvort FIA er að nota aðstöðuna til að refsa McLaren fyrir að hafa reynt ásamt fleiri liðum að stofna aðra kappaksturskeppni um árið. Þeir sem hafa áhuga geta kíkt á þennan hlekk, þar sem velt er upp nokkrum spurningum, sem forvitnilegt væri að fá svör við.

Headhunting

Filed under: Vinnan — Jón Lárus @ 20:43

Það var haft samband við mig frá ónefndu fyrirtæki hér í bæ í síðustu viku og mér boðin vinna. Reyndar hefur verið haft samband við mig þrisvar sinnum á innan við ári og mér boðin vinna. Fyrri tveimur tilboðunum hafnaði ég. En þetta kitlaði svolítið þannig að ég fór og kíkti á aðstæður.

Fékk líka tilboð frá núverandi vinnuveitanda eftir að ég sagðist vera að skoða atvinnutilboð. Er síðan búinn að vera að vega og meta hlutina. Tók síðan þá ákvörðun í gær að vera um kyrrt. Líst bara betur á hlutina þar sem ég er.

Get samt ekki neitað því að það er gott fyrir egóið að verða fyrir hausaveiðurum.

2007-09-7

Stutt

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 16:58

að þessu sinni. Erum á leiðinni í sumarbústað uppi í Borgarfirði. Vorum heppin. Bjössi bróðir verður í húsinu á meðan. Sér um Loppu og blómin.

2007-09-5

Hér

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:59

kemur tengill á sólberjabökuna ef einhver hefur áhuga.

Við Finnur

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 22:50

byrjuðum á stærðfræðiprógrammi í kvöld. Hugmyndin er að taka smá tíma einu sinni í viku og reyna að gera eitthvað skemmtilegt og við hans hæfi. Bjó til 60 margföldunardæmi og leyfði honum að spreyta sig. Tekinn tími á skeiðklukku á hver 5 dæmi og Freyja myndskreytti stjörnugjöf eftir tíma og frammistöðu. Flottast var stórt brimbretta R (surfer R kallaði Finnur það). Honum fannst þetta mjög skemmtilegt og rúllaði upp þessum 60 dæmum á innan við hálftíma.

Byrjuðum

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:46

fótboltatímabilið í gær. Alltaf jafngaman að byrja. Maður er samt svolítið ryðgaður svona í byrjun. Misreiknar boltann, ekki nógu snöggur að átta sig, negatíf snerpa og harðsperrurnar maður! Leikurinn endaði samt vel að þessu sinni, sem er alltaf gott fyrir tapsáran mann.

Drattaðist

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:42

loksins til að ganga frá sólberjunum og frysta þau (nei enginn líkjör í þetta skiptið, eigum enn eftir frá því í fyrra). Geymdi samt 250 g, sem eiga að fara í sólberjabökuna, sem ég baka á hverju ári eftir tínsluna. Uppskriftin kemur eftir smá stund á brallinu. Vel þess virði að prófa. Bæði ljúffeng og mjög fljótleg af böku að vera.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.