Strč prst skrz krk

2007-10-17

Garmin raunir

Filed under: Græjur — Jón Lárus @ 23:32

Garmin hlaupagræjan mín er fín. Ég er búinn að nota hana villt og galið í þessi ca. tvö ár sem ég hef átt hana. Hins vegar er hugbúnaðarstuðningurinn þegar búið er að tappa gögnunum af tækinu alveg glataður.

Fór í það um síðustu helgi að færa nokkra hlaupa og hjólahringi inn á Google maps. Hafði gert það einu sinni áður fyrir nokkrum mánuðum. Það er alveg ótrúlegt vesen því Garmin skilar bara frá sér gögnum á einu sniði (garmin xml). Ég var náttúrlega búinn að steingleyma hvernig ætti að fara að þessu. Og það tók smá tíma að rifja það allt saman upp. Það sem ég þurfti að gera var eftirfarandi:

1) Flytja gögnin út úr Garmin á xml sniði. Öll hlaup frá upphafi í einu xml skjali.
2) Fara í GPSVisualizer (www.gpsvisualizer.com/forerunner/split). Þar er hægt að hlaða inn xml skjalinu og fá til baka zip skrá þar sem búið er að skipta hlaupunum upp.
3) Afþjappa zip skrá og finna hlaupin, sem ég hafði áhuga á.
4) Fara í GPSBabel (hugbúnaður til að varpa milli GPS skráasniða) og varpa xml skránum, sem ég vildi sjá á Google maps yfir á kml snið, sem Google notar.
5) Lesa skrárnar inn í Google maps.

Þannig að ef ég gleymi þessu aftur er ég kominn með notkunarleiðbeiningar hér.

Rennuraunir

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:20

Það gerðist einhvern tímann í september að ein rennan á húsinu okkar stíflaðist. Niðurfallið var beint fyrir utan eldhúsgluggann okkar. Í rigningunum undanfarið þá var bókstaflega foss fyrir utan hjá okkur.

Um seinustu helgi þá mannaði ég mig upp í að reyna að leysa vandamálið. Dró fram stiga, stíflugorm og vatnsslöngu.

Rennuhreinsun

Ég byrjaði á að reyna að losa stífluna með gorminum en þá reyndist hann of stuttur. Þá potaði ég slöngunni ofan í rennuna og reyndi að losa stífluna þannig. Það kom alls konar drulla upp meðal annars fjöldinn allur af sígarettustubbum (sem er undarlegt miðað við að í risinu hefur ekki verið reykt í á fjórða ár) en ekki losnaði stíflan. Þá var þrautaráðið að taka rennuna í sundur. Þegar ég var búinn að því þá kom í ljós þvílík drullustífla þar sem rennan beygir fyrir horn (sést reyndar ekki á myndinni). Góð botnfylli í skúringafötu.

Bloggaðu hjá WordPress.com.