Strč prst skrz krk

2007-10-23

Smá misskilningur

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:40

Var að hjálpa Fífu með stærðfræðina í gær. Við vorum búin að leysa allt sem hún átti í erfiðleikum með og hún var hætt að læra. Ég lagðist upp í sófa og fór að lesa. Fífa kom til mín og byrjaði að nauða í mér um að spila. Ég nennti því eiginlega ekki og sagði eitthvað á þá leið að ég væri lagstur niður og nennti því ómögulega, hún yrði þá að draga mig á fætur. Þá heyrðist í Hildigunni, sem var í tölvunni og hafði greinilega ekki tekið eftir að við vorum hætt að læra: JÓN! Ætlarðu ekki að hjálpa Fífu?! Misskilningurinn var nú leiðréttur fljótt. Verst að ég fattaði ekki strax að segja eitthvað fáránlegt eins og: Æ, ég nenni ekki meiru í kvöld eða eitthvað í þeim dúr.

Slagsíðan

Filed under: Nám,Ruglið — Jón Lárus @ 21:14

Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa yfir fréttinni sem birtist í gær um fjölda þeirra sem útskrifuðust með háskólapróf.  Konur eru rúmlega 2/3 af þeim sem útskrifast en karlar innan við 1/3.
Hvernig getur staðið á þessu? Það getur hvorki verið eðlilegt né æskilegt að svona mikil slagsíða sé á kynjahlutföllum, bara á sama hátt og ef slagsíðan væri á hinn veginn.  Þetta er þeim mun einkennilegra þegar tölur þeirra sem útskrifast með framhaldsskólapróf er skoðað.  Þar eru kynjahlutföllin nánast jöfn (52% konur, 48% karlar).

Ég bara skil ekki hvað gerist þarna á milli. Er þetta vegna þess að fleiri strákar fari í iðnnám og taki ekki framhaldsnám eftir það? Fara fleiri karlar í framhaldsnám í útlöndum án þess að klára háskólanám hér fyrst (væntanlega ekki algengt)? Hvernig ætli sé með kynjahlutfallið við byrjun háskólanáms ætli það sé svipað og við lok þess? Og ef fleiri karlar hætta námi án þess að klára gráðu þá væri fróðlegt að vita hver ástæðan fyrir því væri.

Mér finnst þessar upplýsingar vekja fjöldann allan af spurningum og þess vegna er ég hissa á því hvað lítið hefur verið fjallað um þær í fjölmiðlum.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.