Strč prst skrz krk

2007-11-29

Dilbert

Filed under: Brandarar — Jón Lárus @ 23:13

Getur verið alveg magnaður.

Dilbert, snilld.

Tenglalistinn

Filed under: Blogg,Bloggarar — Jón Lárus @ 22:10

Tók þvílíkt til í tenglalistanum mínum um daginn. Var mjög grimmur. Henti út öllum, sem ekki hafa bloggað í langan tíma. Meira að segja tenglar á Fífu og Bjössa bróður fengu að fjúka. Þau fá þá bara nýjan tengil ef þau byrja að blogga aftur.

Síðan var Finnur að fá WordPress síðu.  Geysilega spenntur yfir því. Var alveg áðan: „Pabbi, pabbi ætlarðu að kíkja á síðuna mína?“ Ekki hægt annað en að bæta honum inn á tenglalistann.

Píparabros

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:03

Er búinn að vera í þvílíkum vandræðum með ofninn á baðinu uppi. Hann var búinn að vera kaldur og eftir að fór að kólna þá var alveg hrikalega óþægilegt að koma inn á ískalt baðið.

Þannig að fyrir 2-3 vikum tók ég á mig rögg. Byrjaði á þessu einfalda og athugaði með loft á ofninum. Það var ekki neitt. þannig að næsta skref var að athuga með lítið stykki í hitastillinum, sem virkar oft að skipta um í svona tilvikum (er nú ekki meiri pípari en svo að ég hef ekki hugmynd um hvað það heitir). Ég átti eitt slíkt stykki og reif hitastillinn af og skipti um stykkið. Ekki kom hiti á ofninn. Þá var aðeins eitt eftir, að rífa ofninn frá og athuga hvort hann væri eitthvað stíflaður. Nennti því nú samt ekki akkúrat þarna.

Um síðustu helgi þá ákvað ég að kíkja á þetta mál aftur. Áður en ég byrjaði að rífa ofninn frá ákvað ég að hamast aðeins á pinna í stykkinu, sem ég skipti um áður. Ég þurfti ekki að ýta honum inn og toga út aftur nema 2-3 sinnum þar til vatn byrjaði að streyma í ofninn.

Varð ekki smá feginn. Hefði verið frekar fúlt að fá pípara hingað til að laga ofninn. Hann hefði bókað byrjað á þessu. Tekið 5 mínútur og síðan rukkað fyrir útkall.

Gína

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 20:00

Fífa gargaði á okkur áðan: „Að gína, er það sterk eða veik sögn?“ Við Hildigunnur: Sterk, gína, gein, ginum ginið. Síðan bætti ég við: Þýðir það ekki annars að klæða gínur í eitthvað?

2007-11-23

Malbikshúðuð lungu

Filed under: Ýmislegt,Hjólreiðar — Jón Lárus @ 20:46

Ekkert víst að það sé sniðugt að hjóla við aðstæður eins og voru í bænum í gær. Kalt og stillt og svifryksstuðullinn fór upp úr öllu valdi. Fór hæst í 250 μg á rúmmetra og meðaltal dagsins yfir 100 μg á rúmmetra. Þetta er ógeðslega mikið. Enda astmaveiku fólki ráðlagt að halda sig frá umferðaræðum og helst bara innan dyra. Til samanburðar þá voru gildin í dag hæst eitthvað um 17 og meðaltalið um 14.

Binni er bestur

Filed under: Fjölskyldan,Ruglið — Jón Lárus @ 00:36

Við Fífa sáum eitt svona bjarga deginum atriði áðan. Þetta var búinn að vera svona vinna, versla, æfinga og skutl dagur dauðans.

Allavega ég sótti stelpurnar í kór. Skildi Freyju eftir í tíma í Suzuki og fór með Fífu heim. Komum við á leiðinni á nýju Atlantsolíustöðinni á Skúlagötu til að endurnýja orkubirgðirnar á bílnum. Fyrir framan okkur var stór, frekar skítugur jeppi. Maðurinn á honum var byrjaður að dæla þegar ég kom að og ég sá að hann skrifaði eitthvað á afturrúðuna á meðan dælingunni stóð. Ég hugsaði ekki meira um það og dældi bara á okkar bíl. Þegar hann var orðinn fullur leit ég upp og sá að gaurinn fyrir framan var að hengja sína dælu upp. Sá þá að hann hafði skrifað á rúðuna: Binni er bestur! Ég gat nú ekki annað en glott yfir þessu, sérstaklega vegna þess að viðkomandi var örugglega kominn vel yfir þrítugt. Fífa hins vegar var í krampakasti inni í bílnum yfir þessu. Átti ekki orð yfir að svona gamall maður væri að krota í drulluna á bílnum sínum.

Þegar ég sagði henni að ef ég hefði ekki þurft að halda handfanginu á dælunni inni þá hefði ég skotist og bætt við „ekki“ þá missti hún sig alveg.

2007-11-21

Montblogg

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 23:16

Skoraði í boltanum í gær flottasta mark sem ég hef skorað í fleiri ár held ég bara. Náttúrlega algjör grís en markið ekkert minna flott fyrir það. Fékk þvílíka draumasendingu frá okkar marki náði að stinga mér inn fyrir varnarmann og reka stórutá í boltann á lofti. Steinlá inni.

Skoraði svo seinna í sama leik alveg fáránlegt mark með því að reka bæði hnén í boltann. Þetta dugði nú samt ekki til að mitt lið næði að vinna leikinn. Get samt huggað mig við markið.

Væl, væl, væl

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 23:10

Get alveg ímyndað mér hljóðið í vinnufélögum mínum (sem flestir eru forfallnir fótboltaáhugamenn) á morgun eftir að Englendingar komust ekki áfram í Evrópukeppninni.

Ég hoppaði hins vegar í stólnum þegar ég sá að Króatarnir hefðu unnið. Vildi miklu frekar sjá Rússana komast áfram. Fífa skildi hins vegar ekkert í þessum látum í pabba sínum.

Hvar er Björg?

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 18:43

Síðdegis á laugardaginn var bankað upp á hjá okkur niðri. Ég fór til dyra. Fyrir utan stóð maður, sem var hálf vandræðalegur. Sagði: „Ég veit nú ekkert hvort ég er á réttum stað. En ég er að leita að Björgu vinkonu hennar Evu. Ég veit því miður ekki meira.“  Ég sagði honum að engin Björg byggi í húsinu og það sem meira væri að engin slík hefði búið í því síðastliðin tólf og hálft ár, að minnsta kosti.  Bætti því síðan við að það sama gilti um Evu.  Maðurinn virtist nú ekki alveg ánægður með þessi svör og spurði hvort ég væri alveg viss um þetta.  Já, ég var alveg viss.  Þá kvaddi hann og fór.

Um klukkan hálf ellefu á sunnudagskvöldið var aftur bankað. Sami maður stóð fyrir utan. Greinilega aðeins búinn að uppfæra hjá sér upplýsingarnar, spurði: „Ég hef komið hérna áður er það ekki? Ég er að leita að Björgu Sveinbjarnardóttur (minnir að hann hafi sagt það), getur verið að hún búi hér?“ Eins og áður þá þvertók ég fyrir það að hér byggi nein Björg. Eins og áður virtist hann ekki alveg ánægður með þetta svar en sagði síðan eitthvað á þá leið að fyrst ég segði það þá yrði hann að trúa mér.

Nú bíð ég bara eftir að hann birtist í þriðja skiptið. Verður spennandi að sjá hvaða upplýsingar hann verður búinn að grafa upp um hana Björgu…

2007-11-19

Beint í mark

Filed under: Brandarar — Jón Lárus @ 20:14

Þessi Wulffmorgenthaler hitti beint í mark hjá mér.

P� og félagar

Hérinn og skjaldbakan

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 00:28

Fór á bekkjarkvöld hjá Freyju síðasta miðvikudag.  Þar fengu bæði foreldrar og börn að spreyta sig á ýmsum þrautum eins og gengur.  Ég var tekinn upp ásamt Freyju í eggjahlaup (gamli leikurinn að hlaupa fram og til baka ákveðna vegalengd með egg í skeið, sem haldið er á í munninum).  Þarna á bekkjarkvöldinu voru reyndar notaðir ofurknettir í staðinn fyrir egg.   Ég hafði aldrei gert svona áður og lagði mjög rólega af stað. Freyja var miklu fljótari og náði að snúa við.  En missti síðan sitt egg á bakaleiðinni.  það skoppaði út í sal.  Þannig að ég vann þó ég væri á skjaldbökuhraða.  Freyju fannst þetta lítið gaman.  Hafði greinilega búist við að mala pabba sinn (sem hún hefði líka gert ef hún hefði ekki misst boltann).

2007-11-13

Spennandi

Filed under: Stjórnmál — Jón Lárus @ 22:50

Kosningar í Danmörku. Lítur út fyrir að sitjandi stjórn haldi ekki meirihluta án aðstoðar Ny Alliance (flokkurinn sem Khader stofnaði til höfuðs Danska þjóðarflokknum). Spurning hversu mikill áhugi er á því hjá honum. Væri nú frekar dapurt ef hann færi að hlaupa í fangið á erkióvininum.

Vonandi að Danir fái nú frí frá Anders Fogh og því sem hann stendur fyrir. Þeir eiga það svo sannarlega skilið.

990 km

Filed under: Hjólreiðar,Vinnan — Jón Lárus @ 21:56

Eftir daginn í dag er ég búinn að hjóla alls 990 km í vinnuna á þessu ári. Eða samtals 18 vikur. 1000 km múrinn ætti að falla í vikunni nema fari að frysta, sem lítur ekki út fyrir. Búinn að standa mig mun betur heldur en í fyrra. Þá náði ég 12 heilum vikum.

Tók svo hjólið í allsherjar klössun um helgina, smurði það allt og bætti vindi í dekkin. Munar ótrúlega miklu. Þetta er eins og nýtt hjól á eftir. Líka furðulega mikill munur á ferðinni sem ég náði í dag úr og í vinnu. Munar sennilega 2-3 mínútum á ekki lengri leið.

Það hefur greinilega verið farinn að minnka þrýstingur í dekkjunum án þess að ég tæki eftir því. Ég skildi líka ekkert orðið í því hvað ég komst lítið áfram þó ég puðaði og puðaði. Hélt bara að þetta væri aldurinn.

2007-11-11

Freyja

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 22:22

Getur verið ansi góð stundum. Á föstudaginn vorum við með parmakálf (alveg fáránlega langt síðan við höfum haft þann snilldarrétt annars). Freyju leist greinilega vel á þetta og fékk sér risasnitsel á diskinn. Ég spurði hana: Heldurðu að þú getir klárað svona stórt stykki? Hún: Já, þetta er einn af uppáhaldsréttunum mínum. Hvað er þetta annars?

Magnum flöskur

Filed under: Ruglið,Vín — Jón Lárus @ 17:16

Hvernig í ósköpunum ætli standi á því að magnum flöskur í ríkinu eru meira en tvöfalt dýrari en venjuleg flaska af sama víni? Get ómögulega skilið þetta. Ein flaska í staðinn fyrir tvær. Einn miði í staðinn fyrir tvo og svo framvegis. Ætti samkvæmt öllu eðlilegu að vera ódýrara. Varla getur selst mikið af þessum flöskum með þessari verðlagningu. Minnir mann bara helst á þegar eins og hálfs lítra gosflöskur voru dýrari en tveggja lítra flöskur.

2007-11-7

Svei mér þá

Filed under: Undrun — Jón Lárus @ 22:00

ef bílastæðamálin hér í nágrenninu fara ekki bara versnandi. Er að verða æ algengara að sé röð af bílum uppi á gangstétt á kvöldin. Um síðustu helgi var langur laugardagur. Ég neyddist til að hreyfa bílinn milli 2 og 3. Þegar ég kom til baka var hvergi stæði að fá. Endaði á að leggja upp við Hallgrímskirkju. Einn sá ég sem hafði lagt á Týsgötunni bara á götunni! Þetta ástand er farið að minna á Þorláksmessu eða Menningarnótt.

Lítill brandarakarl

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 21:02

Við Finnur erum að gera aukastærðfræðina sem við gerum alltaf (eða næstum alltaf á miðvikudögum). Allavega, ég bjó til 80 dæmi fyrir hann. 3 sinnum, 4 sinnum og 5 sinnum taflan komu mikið við sögu. Hann var búinn að gera nokkur dæmi sem ég fór síðan yfir. Hann hafði ruglast á 4*6 og fengið út 22. Ég spurði hann hvort hann væri alveg viss um hvort það væri rétt. Eftir smá umhugsun breytti hann því í 24. Og sagði síðan: Pabbi, geturðu búið til annað svona 4*6 dæmi. Ég gerði það. Þegar hann var búinn með næsta skammt þá var búið að leysa 4*6 dæmið með 22+2. Þegar ég sá þetta þá sprakk hann úr hlátri, fannst þetta alveg ótrúlega fyndið.

2007-11-5

Rithöndinni

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:41

minni hefur hrakað þvílíkt eftir að maður þurfti að skrifa á alla þessa Vísa og debetsnepla í búðunum. Núna er þetta orðið svo mikið hrafnaspark að það er engu lagi líkt.

Rósmarínskankar

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 22:39

Er búinn að elda mikið upp á síðkastið. Hildigunnur náttúrlega búin að vera alveg bakk. Á laugardaginn, þegar kom í ljós að hún væri með lungnabólgu þá vorum við búin að ákveða að vera með lambaskankarétt, sem við fundum hjá Huga. Hann hafði prófað þennan rétt og lofað í hástert. Þetta leit spennandi út þannig að ég ákvað að láta slag standa.

Uppskriftin er fáránlega einföld. Lambaskankar eru brúnaðir á pönnu. Settir í fat. 1 laukur og 1-2 hvítlauksgeirar steiktir þar til laukurinn er orðinn glær. Dreift yfir skankana. Nokkrir rósmarínkvistar saxaðir niður (ég notaði 4) og dreift yfir skankana. 2-3 dl af hvítvíni hellt yfir skankana. Saltað og piprað að smekk. Þetta er síðan bakað í ofni í 2-2 1/2 tíma (ég lét þetta vera í 2 1/2 tíma á 165°C).

Í stuttu máli sagt þá var þetta alveg hrikalega gott. Við eigum eftir að gera þennan rétt aftur fljótlega þegar Hildigunnur verður í betra formi til að njóta og geta fengið okkur gott rauðvín með.

Það var svo smá mál að útvega hráefni í réttinn. Ég fór í Nóatúnsbúðina okkar til að ná í skanka. Þegar kom röðin að mér þá bað ég um 4-5 lambaskanka. Kjötmaðurinn: Við erum ekki með neina skanka hérna frammi, ég skal athuga inni. Ég var eitt spurningamerki því ég var búinn að sjá nokkra skanka í einum bakkanum. Kjötmaðurinn kom til baka, við eigum því miður enga skanka. Ég: Bíddu þú ert með nokkra skanka þarna í bakka. Hann: Já þetta er súpukjöt. Ég get því miður ekki leyft þér að velja bara skanka. Ég: Hm, geturðu ekki bara fært skankana yfir á annan bakka og svo selt mér þá sem skanka? Hann: Hm, jú ætli það ekki. Ég fékk skankana.

2007-11-3

Fífa

Filed under: Fjölskyldan,Tónlistarnám — Jón Lárus @ 23:48

er búin að vera á kafi í óperuverkefni (Die Verschworenen eftir Schubert) núna í tvær vikur í tónlistarskólanum.  Síðustu viku hafa verið æfingar á hverjum einasta degi á .  Librettóið víst í svipuðum dúr og í Lýsiströtu. Smávegis togað og teygt víst, samt.

Núna eru búnar 2 sýningar af 4 á .  Ég og Freyja förum á morgun (Hildigunnur því miður ekki nógu frísk til að koma með á morgun, nær vonandi síðustu sýningu á þriðjudag).  Verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.