Strč prst skrz krk

2007-12-31

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 20:30

Gleðilegt nýtt ár

og takk fyrir þau gömlu.

Matseðillinn í áramótaboðinu

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 15:43

Hildigunnur var búin að tengja á mig með þeim ummælum að matseðillinn í áramótaboðinu yrði birtur hér. Líklega er þetta í ellefta skipti sem við höldum svona fjölskylduboð á gamlárskvöld. Eina hefðin sem hefur orðið til í sambandi við matseðilinn er að hann er alltaf mismunandi (allavega fram að þessu). Boðið fer líka stækkandi ár frá ári og að þessu sinni verða líklega 21 að okkur meðtöldum. En semsagt svona lítur hann út að þessu sinni:

Forréttur:
Andabringur með kirsuberjasósu. Peter Lehman cuvée freyðivín er með forréttinum.

Aðalréttur:
Lambahryggur Provençale með rjómasoðnum kartöflum. Með þessu ýmis Chianti classico vín og endað á Dievole vendemmia 2004.

Eftirréttur:
Flamberuð jarðarber í appelsínusósu og heimagerður ís með.

2007-12-29

Íþróttamaður ársins

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 18:31

Ég var ekki smá ánægður með kjör á íþróttamanni ársins að þessu sinni. Margrét Lára átti þetta svo sannarlega skilið. Líka viðurkenning á kvennaknattspyrnunni, sem hefur alltaf staðið í skugga karlasparksins.

Árangur karlalandsliðsins í fótbolta var líka svo lélegur að það hefði aldrei komið til greina að velja neinn þeirra. Mesta furða að einhver þeirra skyldi komast inn á topp 10.

Er þetta sápa?

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 12:37

Við heyrðum ansi góða sögu af Finni núna um jólin. Hann hafði verið í heimsókn hjá ömmu sinni og afa. Eitthvað höfðu hendurnar kámast út þannig að honum var sagt að fara og þvo á sér hendurnar. Eitthvað virtist það vefjast fyrir honum þannig að afinn fór að athuga hvernig gengi. Þá var hann tvístígandi á baðinu og sagðist ekki finna sápuna. Afi hans benti honum á sápustykki, sem var á sínum stað við vaskinn. Þá sagði Finnur: „Ó, er þetta sápa?“

2007-12-23

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:54

Gleðileg jól

Kæru lesendur.

Þorláksmessa

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 21:56

Ástandið hér fyrir utan er að taka á sig venjubundinn Þorláksmessublæ. Bíll við bíl uppi á gangstétt og varla hægt einu sinni að leggja ólöglega lengur.

Þennan dag og á menningarnótt reynir maður að hreyfa bílinn ekki eftir hádegi.

Afgreiðslubörn

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:54

Komum í eitt Nóatúnið fyrir helgi þar sem var verið að sýna afgreiðslubarni hvernig ætti að afgreiða á kassa. Með afgreiðslubarn þá á ég ekki við krakkana, sem eru kannski 12-14 ára. Þessi var örugglega ekki eldri en 9 ára! Lá við að maður væri hissa á að barnið væri farið að tala.

Nýja dyramottan okkar

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 01:10

Þegar maður er búinn að búa til nýjan inngang þarf maður náttúrlega að fá sér dyramottu. Við vorum búin að spá í að fara í einhverjar teppabúðir til að leita.
Í gærkvöldi dró Fífa mig með sér í nokkrar jólagjafareddingar. Við rákumst meðal annars inn í Ranimosk. Þar rákumst við á þessa mottu

Dyramottan nýja

sem var keypt umsvifalaust.

2007-12-19

-2 dagar

Filed under: Frí,Vinnan — Jón Lárus @ 23:57

í jólafrí. Þetta eru þvílík launamannajól núna þannig að ég ákvað að geyma smá af orlofinu mínu til að geta tekið almennilegt jólafrí. Hefur ekki gerst síðan ég byrjaði hjá Samskipum. Hafa alltaf verið einhverjar innleiðingar á tölvukerfum í gangi um áramót, sem hafa komið í veg fyrir það. Ekki núna samt. Hlakka til 11 daga samfellds jólafrís.

Síðasti boltinn

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:48

á tímabilinu var í gær. Fyrir tímann í gær hafði ég verið í tapliði 5 eða 6 skipti í röð. Það hefði verið algerlega óásættanlegt að fara í jólafrí með áframhaldandi taphrinu. Mínu liði tókst að merja sigur eftir að hafa lent 4 mörkum undir á tímabili. Mér var nú ekki farið að lítast á blikuna þá en við áttum meira bensín á tönkunum í lokin. Náðum að jafna og komast 4 mörkum yfir. Þó hinir reyndu að sprikla og næðu að minnka muninn í eitt mark þá áttum við síðasta orðið og lokatölur 25:23. Síðasta markið var skorað með því að nota einn andstæðinganna sem batta, ógeðslega sætt.

Eftir boltann var síðan ákveðið að koma saman á Ölstofunni í kvöld og fá sér eina kollu eða tvær. Heimturnar voru nú ekki glæsilegar. Af 11 manna hópi mættu alveg 3. Skamm strákar! Við sem mættum skiptum öllum titlum á milli okkar (nema mesti tuddinn og sjaldséðasti leikmaðurinn). Verður vonandi betri mæting á árshátíðina í vor.

Núna er ÁTVR búið að vera

Filed under: Vín — Jón Lárus @ 19:18

Mig langar í svona…

2007-12-17

Jólakortin

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð — Jón Lárus @ 22:26

Mér finnst næstum því að jólaundirbúningurinn sé búinn þegar jólakortin eru frá. Tókum skorpu í gær og rúlluðum kortunum upp. Jólapakkarnir líka langt komnir (þó ég ætti reyndar lítinn þátt í því). Hildigunnur og stelpurnar sáu um þann hluta á meðan ég var að chilla í vinnunni. Nú er bara eftir smá tiltekt og svo að skreyta. Hefur oft verið miklu meira stress en þetta.

Það er fylgst með manni

Filed under: Skilorðið — Jón Lárus @ 18:00

Við Hildigunnur fórum í verslunarleiðangur í gær í Skeifuna. Það var niðamyrkur og hrikalega vont skyggni. Endaði á því að þegar ég ætlaði að taka beygju inn á bílastæði hjá Rúmfatalagernum þá var ég kominn aðeins of langt. Strax kominn bíll í skottið á manni þannig að ekki var hægt að bakka. Ég tók þess vegna á það ráð að aka þarna yfir kant, sem mér sýndist ekki vera neitt hár. Það sem ég sá ekki var að hinu meginn var kanturinn miklu hærri þannig að þegar ég fór fram af honum þá rakst hann aðeins upp undir bílinn. Slapp nú samt til. Sá síðan bílastæði og skellti mér í það. Þegar við stigum út úr bílnum þá var komin mótorhjólalögga að bílnum. Hafði greinilega tekið eftir þessum fáránlega akstri og ákveðið að tékka á málinu. Spurði hvort það væri ekki allt í lagi með okkur og við: Jú, jú allt í lagi með okkur. Löggi lét það gott heita og fór. Það var ekki fyrr en ég var svo kominn inn í búðina að ég fattaði að auðvitað hafði hann verið að tékka á hvort ég væri fullur.

2007-12-13

Nýi inngangurinn frh.

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:16

Núna er nýi inngangurinn loksins tilbúinn. Fluttum skó og yfirhafnir í dag og í kvöld. Verður tekinn opinberlega í notkun í fyrramálið með borðaklippingum og látum…

Svona lítur svo nýi hversdagsinngangurinn okkar út:

Nýi gangurinn

Nýi gangurinn, annað sjónarhorn

Ekki stór en dugar okkur alveg. Við grisjuðum líka vel í yfirhöfnum, skóm og draslinu, sem var ofan á hattahillunni.

Jólahóptími

Filed under: Brandarar,Fjölskyldan,Tónlistarnám — Jón Lárus @ 23:11

Finnur spilaði í jólahóptíma hjá víólunum í gær. Lagið, sem hann átti að spila var: Dvel ég í draumahöll úr Dýrunum í Hálsaskógi. Hildigunnur var meira að segja búin að útbúa drungalegt undirspil fyrir píanóið, sem var kallað: Dvel ég í draugahöll. Fyrir misskilning komst það ekki til skila en það er nú önnur saga. Þegar röðin kom að Finni að spila þá arkaði hann fram á sviðið mjög öruggur með sig og sagði síðan við meðleikarann, þannig að heyrðist um allan salinn, þegar hann gekk fram hjá píanóinu: „Þú kannt ekki að spila það, sem ég ætla að spila!“ Hún svaraði samstundis: „Jú ég kann það víst!“ Sármóðguð. Salurinn sprakk.

images.google.it

Filed under: Blogg — Jón Lárus @ 20:58

Það var einhver ítali, sem var að leita að farsumagru á images.google.it, sem rakst inn á síðuna mína fyrir nokkrum dögum. Veit ekki hvernig honum hefur litist á þetta óskiljanlega hrognamál á síðunni. Vona hins vegar að honum hafi litist á myndirnar.

Daginn eftir þá var einhver sem lenti inn á Selatangafærslunni minni. Mætti halda að ég væri alltaf með myndavélina á lofti.

2007-12-11

Nýi inngangurinn

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:11

Stundum væri ég til í að sjá aldrei sparslspaða og sandpappír aftur. Þannig líður mér núna, eftir allt sparslið og pússið undanfarið. Verst er að þetta er ekki næstum því búið. Muuuu.
Nýi gangurinn er þó alveg að skríða saman. Bara ein málningarumferð eftir. Klárast á morgun að öllum líkindum.

Eins og ég er orðinn þreyttur á sandpappírnum og sparslspaðanum núna þá verð ég örugglega búinn að gleyma því aftur í vor. Líklega einhver smíðahormón sem láta mann gleyma þessum hörmungum.

2007-12-7

Bloggafmæli

Filed under: Afmæli,Blogg — Jón Lárus @ 22:57

Ég var að átta mig á því að ég á tveggja ára bloggafmæli um þessar mundir. Byrjaði að blogga 10. desember 2005. En þar sem ég blogga ekki nema á prímtöludagsetningum (nema í algjörum undantekningatilvikum) þá verður afmælisfærslan að koma í dag.

Afdalamennska

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:49

Íslensk afdalamennska birtist sjaldan jafnvel og í umferðarmerkingum. Sérstaklega þegar þarf að loka götum út af hinum ýmsustu framkvæmdum.

Við verðum reglulega vör við þetta núna þegar byggingarframkvæmdir standa yfir við nýjar blokkir í Skuggahverfinu. Þá kemur oft fyrir að Skúlagötunni er lokað og maður uppgötvar það ekki fyrr en maður er kominn að lokuninni. Væri til mikilla bóta ef sett væri upp skilti við afreinina af Sæbraut. Þá væri afskaplega lítið mál að taka smá aukakrók. Miklu erfiðara þegar maður er lentur á lokuninni og þarf að snúa við og fara til baka.

Því miður er svona lagað frekar regla heldur en undantekning.

2007-12-5

Blikkandi jólaseríur

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:17

fara alveg skelfilega í taugarnar á mér. Þetta getur verið allt í lagi í smá stund en ég myndi missa vitið ef ég hefði svona blikkandi drasl inni hjá mér. Ætli fólk, sem er með svona jólaseríur inni hjá sér sé líka þannig innréttað að það geti aldrei haft þögn hjá sér? Alltaf með síbyljuna í gangi?

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.