Strč prst skrz krk

2008-01-31

Veit ekki alveg hvað Loppa

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 21:28

var að vesenast inni í þvottahúsi áðan. Sat uppi á skáp, beit með kjaftinum í eina þvottasnúruna og togaði svo í hana þangað til hún náði að lyfta henni upp á pappakassa við hliðina. Svo lagðist hún bara annars staðar uppi á skápnum.

Ekki eins og snúran hefði verið eitthvað fyrir henni.

Skaðræðiskvikindi

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 18:09

Hildigunnur fann þetta einhvers staðar á netinu. Forvitnileg lesning fyrir utan hallærislegt málfar á köflum.

Við lesturinn varð ég forvitinn því það var minnst á einhvern Schmidt sársaukakvarða. Ég varð náttúrlega að fletta honum upp. Fann þetta. Áhugavert.

Stundum er gott að búa á Íslandi.

2008-01-29

Er það ekki dæmigert

Filed under: Íþróttir,Undrun — Jón Lárus @ 22:48

að eftir að Danir sneru heim eftir að hafa unnið Evrópumeistaratitilinn í handbolta á dögunum þá var tekið á móti þeim með pompi og pragt (eins og vera ber). Flugvélinni, sem flutti þá heim var m.a. fylgt eftir af orrustuflugvélum (hvers vegna í ósköpunum veit ég ekki). Þetta hefur víst ekki gerst síðan Danir urðu Evrópumeistarar í knattspyrnu ’92.

Síðan þá hefur danska kvennalandsliðið unnið Evrópumeistaratitil, heimsmeistaratitil og gull á ólympíuleikum. Fékk aldrei þessar móttökur. Hvenær ætli það verði að karla og kvennalandsliðum verði gert jafn hátt undir höfði?

Heilsuleysi

Filed under: Veikindi — Jón Lárus @ 22:29

á heimilinu. Hildigunnur búin að vera með vonda magapest í tvo daga. Ekki séns að hún fari að kenna á morgun og fólki svo ráðlagt að halda sig heima a.m.k. tvo daga eftir að vera orðið einkennalaust. Krossa putta að við hin fáum ekki þennan óþverra.

2008-01-23

Vestmannaeyjagosið

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:42

Ég man það eins og í gær þegar pabbi vakti mig (á afmælisdaginn minn) fyrir 35 árum og sagði mér að það væri farið að gjósa í Vestmannaeyjum. Ég reis upp við dogg og sagði:
„Pabbi, þú ert að plata mig. Það vita allir að Vestmannaeyjar eru útdauð eldstöð.“

Snemma besserwisser. En núna er Finnur nánast jafngamall og ég var á þeim tíma. Ég held að eitthvað svona svipað gæti alveg dottið upp úr honum núna.

Herbergið hans FIIInns

Filed under: Fjölskyldan,Húsið — Jón Lárus @ 22:58

Jæja, jæja þá fer þetta að verða búið. Afi hans Finns og afabróðir komu og settu niður teppi í nýja krókinn stráksins í morgun. Síðan setti ég nýja rúmið hans saman þegar ég kom heim úr vinnunni.

Smá myndasería hér að neðan.

Gangurinn fyrir teppalögn.

Teppið komið á.

Og rúmið á s�num stað

Strákur � rúmi. Sáttur við nýja staðinn.

Loksins, loksins!

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 21:42

Strákarnir tóku sig saman í andlitinu og unnu glæsilegan sigur á Ungverjum. Eftir skrykkjótta byrjun þar sem þeir lentu m.a. 8-4 undir þá tókst þeim að jafna fyrir hálfleik. Síðan náðu þeir að keyra algerlega yfir andstæðingana í síðari hálfleik. Hreiðar át sóknarmennina eins og snakk. Held hann hafi varið úr 5 dauðafærum. Ólíkt öðrum leikjum þá tókst þeim að nýta sér það og byggja upp gott forskot. Endaði á 8 marka sigri. Ekki smá flott afmælisgjöf.

Spánverjar á morgun. Ættum að eiga góða möguleika á móti þeim því þeir töpuðu á móti Svíum með eins marks mun á flautumarki og eiga ekki lengur möguleika á að vinna til verðaluna.

Ekki amalegt

Filed under: Afmæli — Jón Lárus @ 08:02

að vera vakinn og í morgunmatinn eru bandarískar pönnukökur og meðlæti. Ekki smá flottar stelpur, sem við eigum.

Wonderbread?

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 07:59

Í síðustu viku var hægt að kaupa í Krónunni amrískt brauð, sem kostaði skít og kanil. Við keyptum eitt brauð bara til að prófa, bjuggumst svo sem ekki við miklu. Passaði líka, þetta var eins vont eins og frekast var hægt að ímynda sér og örugglega löðrandi í rotvarnarefnum. Við nánari skoðun á innihaldslýsingunni kom svo í ljós að amríska brauðið var framleitt í Þýskalandi. Örugglega bakarí á yfirgefnum herflugvelli.

2008-01-21

Páskarnir

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 00:55

eru snemma í ár. Ég hef samt aldrei áður séð páskaegg til sölu í janúar! Fór í Krambúðina á laugardagskvöld og þá voru komin þar í umferð Nóa egg nr. 1.

2008-01-19

Þeir komu til baka

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 21:20

Vá! Þvílíkur fyrri hálfleikur hjá liðinu áðan. Þetta er hrikalegasta vörn, sem ég hef séð spilaða. 5 mörk í heilum hálfleik og andstæðingurinn ekki Ástralía eða Grænland! Enda skoruðum við mörk á færibandi og grey Slóvakarnir eins og kjúklingar á leið til slátrunar.

Síðari hálfleikurinn var síðan eins og framhald af Svíaleiknum. Sóknin hikstandi og vörnin ekkert spes. Skytturnar okkar eru bara ekki með í þessari keppni ennþá. Síðan náttúrlega algerlega óásættanlegt að fá á sig 2 mörk þvert yfir völlinn. Hvað voru markverðirnir að hugsa? Samt skiljanlegt að sé erfitt að einbeita sér þegar er kominn 11 marka munur í hálfleik.

Á endanum frekar öruggur sigur, sem hefði samt átt að verða miklu stærri.  Má mikið vera ef þetta dugar ekki til að fleyta okkur í milliriðil. Sé ekki alveg þetta slóvakíska lið sigra Svía. Hvað þá með 5-6 mörkum.

Hildigunnur

Filed under: Matur,Stríðni — Jón Lárus @ 11:36

á námskeiði í Skálholti um helgina. Þá getum við eldað ýmsa rétti, sem eru annars sjaldan eða ekki á matseðlinum.

Spurði stelpurnar að því hvernig þeim litist á þorrapizzu í kvöld. Skemmtilegur svipur, sem kom á þær.

Ætli það endi nú samt ekki á pizzu með mozzarella, parmaskinku og klettasalati…

2008-01-17

Púff…

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 21:13

Ekki var þetta nú glæsilegt gegn Svíum. Vörnin svo sem allt í lagi. Ekkert stórslys að fá á sig 24 mörk. En sóknin var hræðileg. Sænska vörnin og sérstaklega þó markmaðurinn pökkuðu okkur saman. Hann hélt Svíunum á floti í fyrri hálfleik þegar þeir sýndu ekki neitt og jarðaði svo íslensku sóknina í síðari hálfleik. 2 mörk á næstum 20 mínútum er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.

Segir nú allt sem segja þarf að Svíarnir, sem voru margoft manni færri, töpuðu ekki slíkum leikkafla fyrr en undir lok leiksins. Til að kóróna þetta allt saman var vítanýtingin slök hjá okkur.

Það þarf mikið að gerast til að við vinnum Frakka eða Slóvaka.

Er þetta

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 21:02

ekki bara málið eins og færðin er þessa dagana?

Ktrak útbúnaðurinn



Hrímfaxi

Filed under: Ýmislegt,Myndir — Jón Lárus @ 00:08

eða Snæfaxi? Það er spurningin.

Hr�mfaxi

Ekki gott að segja en að minnsta kosti er ljóst að nágrannar okkar í bakhúsinu eru listfengir.

2008-01-13

Setningar II

Filed under: Setningar — Jón Lárus @ 23:58

Einhvern tímann henti ég inn furðulegri tékkneskri setningu hérna inn og ætlaði svo að halda áfram. Ekkert hefur nú orðið af því fyrr en þá núna.

Best að láta tvær franskar flakka. Það sem er skemmtilegt við þessar tvær er framburðurinn.

Sú fyrri:

Caton, écarte ton carton, car ton carton me gêne.

Í lauslegri þýðingu: Caton, ýtu pappaspjaldinu þínu til hliðar því pappaspjaldið þitt fer í taugarnar á mér.

Og sú síðari:

Nous choisissons ces six saucissons ci.

Eða á ylhýra: Við veljum þessar sex pylsur hérna.

Helgin

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:12

fór í þetta svona að miklu leyti. Fer að nálgast það að ég hlaupi æpandi í burtu ef ég sé sparslspaða eða sparsltúpu.

Sem betur fer er farið að sjá fyrir endann á þessu. Verður svo sannarlega sleginn tappi úr kampavínsflösku þegar þetta er yfirstaðið.

2008-01-11

Finnur átvagl

Filed under: Fjölskyldan,Undrun — Jón Lárus @ 21:25

Í kvöldmatnum borðaði Finnur örugglega mest af öllum af gulrótahakkkökunni, sem var í matinn. Horfðum svo á útsvar. Komum upp og þá spurði hann hvort hann gæti fengið AB-mjólk, hann væri svangur.

Við Hildigunnur sögðum þá í kór: SVANGUR!!

Herbergið hans Finns II

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 19:57

Herbergið hans Finns er farið að taka á sig mynd. Nú er búið að hlaða glervegginn við hliðina á hurðinni.

Svona leit þetta út áður en hann var hlaðinn

Fyrir glervegg

en lítur svona út núna:

Nýi glerveggurinn

2008-01-7

Jólunum pakkað

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 20:10

Tókum á okkur rögg í gær (eftir þrettándaboðið hjá mömmu) og tókum niður jólaskrautið og hentum trénu út. Skildum samt eftir nokkrar seríur. Ætlum að leyfa þeim að loga örlítið lengur.

Maður þorir ekki lengur að bíða neitt með þetta. Annars á maður á hættu að missa af trjáhreinsuninni og þá veltast trén hér um gangstéttar og götur langt fram eftir vetri.

Alltaf svolítið tómlegt þegar er búið að taka niður tréð og skrautið.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.