Strč prst skrz krk

2008-02-29

Flóð!

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 21:39

Hildigunnur lenti í smá hremmingum í dag.  Hún hafði farið í bað og rak fótinn eitthvað í yfirfallið (sem var úr plasti),  það var orðið gamalt og lúið og hrökk í sundur við höggið.  Þá skipti engum togum að frárennslispípan á bak við losnaði frá og byrjaði að flæða inn um glufuna, sem myndaðist.  Hildigunnur var snögg og kippti tappanum úr baðinu og rauk síðan niður á neðri hæðina.  Þar lak niður úr loftinu og inn í herbergið hans Finns.  Sem betur fer þá kom þessi leki á besta stað ef svo má segja.  Lak ekkert í rúmið og hvorki á bókaskápinn né parkettið á ganginum.  Bara á teppið inni hjá Finni.  Eina sem sér eitthvað smá á er panellinn í loftinu.  Maður þarf samt eiginlega að vita af því til að sjá það. 

Skutumst svo í  Húsasmiðju eftir vinnu og ætluðum að kaupa nýtt lok fyrir yfirfallið.  Fékkst ekki þar en okkur var bent á Tengi.  Drifum okkur þangað og fengum stykkið.  Þurftum reyndar að kaupa tengisett en það kostaði nú engin ósköp þannig að þetta hefði nú alveg getað verið verra.

Sögulegt hámark

Filed under: Íslenska,Ruglið — Jón Lárus @ 00:44

hvað ég þoli ekki þennan frasa, sem tröllríður öllu þessa dagana. Síðast á forsíðu Fréttablaðsins í fyrradag. Hvað er með: Hefur aldrei verið hærra/meira/stærra? Líklega hefur þessi frasi orðið til í einhverju bríaríi. Var kannski fyndinn í eitt skipti eða tvö en algerlega búinn að missa bitið.

Nöldur.is

2008-02-24

Færsla D

Filed under: Blogg — Jón Lárus @ 22:13

Tók svo eftir því að síðasta færsla var sú fimmhundruðasta frá upphafi hjá mér. Mesta furða hvað þetta safnast saman.

Sumarbústaðaferð

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:09

Vorum í sumarbústað uppi hjá Hreðavatni um helgina. Algjör snilld, þvílík afslöppun. Ekkert gert nema leggja kapla, ráða sudokur og horfa á imbann.

Nokkrar myndir á síðunni hennar Hildigunnar.

Hér er svo líka mynd af fossinum Glanna, enn einu sinni. En nú í talsvert minni ham heldur en í síðustu skipti.

Glanni  vetrarbúningi

2008-02-19

Kattamaturinn

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:55

Dósamaturinn hennar Loppu var skyndilega búinn í kvöld þegar við ætluðum að gefa henni. Hentum smá þurrmatarlúku í hana og þar sem ég var að fara út að erindast aðeins ákvað ég að koma við í Drekanum, sjoppunni hérna á næsta horni (þurrmaturinn hennar fæst nefnilega ekki í Bónus). Bjóst við því að þetta myndi nú kosta verulega meira heldur en í Krónunni þar sem við kaupum hann venjulega.

Nema hvað, fékk dolluna í Drekanum á 130 kall. Undanfarið höfum við keypt sams konar dósir í Krónunni á 150-160 krónur og fyrir nokkrum dögum á 180 í Hagkaupum. Segir nú talsvert um álagninguna í þessum búllum að kattamaturinn sé verulega ódýrari í sjoppunni hérna á horninu.

Vona bara að strákarnir í Drekanum lesi ekki þetta blogg svo að kattamaturinn verði ekki orðinn dýrari næst þegar við þurfum að kaupa!

Erfið heimferð

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 21:46

Það var sprungið á hjólinu mínu eftir vinnu í gær. Ég var ekki með neinar græjur til að gera við slöngur þannig að ég ákvað að skilja hjólið eftir, taka bara strætó og sækja það í dag eftir að hafa útvegað nýja slöngu.

Útvegaði nýja slöngu í dag en þegar ég var kominn til að sækja hjólið (eftir smá skutl fram og til baka) þá var snjókoma og mér leist ekki á að gera við dekkið úti. Ákvað því að rölta með hjólið upp á Max stöðina sem er við Sæbrautina og prófa að pumpa í dekkið. Gerði það og hjólaði af stað. Rétt áður en ég kom að Olís stöðinni við Klettagarða var dekkið orðið vindlaust. Dældi aftur í dekkið og hjólaði áfram eftir stígnum meðfram Sæbrautinni. Náði að ljósunum við Kringlumýrarbrautina. Þá var allur vindur aftur úr dekkinu. Ég snaraðist inn á N1 stöðina, sem er þar við Borgartúnið og dældi lofti í dekkið eins og ég þorði og svo aftur af stað. Á þessari fyllingu komst ég á Njálsgötuna að Vitastíg. Teymdi hjólið síðustu 200 metrana eða svo.

Ekki smá vesen að komast heim úr vinnunni stundum.

Finnur brandarakarl

Filed under: Brandarar,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 12:29

Gekk eitthvað hálf rólega hjá Finni að klæða sig í morgun. Ég sagði þá við hann: Þú verður að drífa þig í buxurnar, það borgar sig að fara í buxum í skólann. Hann sagði sosum ekki neitt við því og kláraði að klæða sig. Nokkru síðar var ég búinn að taka til nesti og á leiðinni niður með bakpokann (í náttfötum nota bene). Heyrist þá í litla gaur: Pabbi, þú verður að drífa þig að klæða þig. Það borgar sig að vera í fötum í vinnunni!

Þarf ekki að orðlengja það að við Hildigunnur sprungum bæði úr hlátri.

2008-02-17

Loksins, loksins

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 11:13

Reykjavíkurborg og Landsvirkjun hafa loksins náð samkomulagi um gömlu toppaflstöðina í Elliðaárdalnum (stóra, brúna og forljóta ferlíkið, sem er búið að vera lýti á dalnum í óratíma), eins og sjá má hér.

Vonandi að það verði nú drifið í að fjarlægja þennan ófögnuð og dalurinn fái að njóta sín fyrir alvöru.

Pirr.is

Filed under: Íþróttir,Ruglið — Jón Lárus @ 00:35

Fer ekkert smá í taugarnar á mér þegar íþróttafréttamenn tala um tvöfalda tvennu eða þrefalda tvennu í körfubolta þegar einhver leikmaður hefur náð yfir 10 í stigaskorun, fráköstum, vörðum skotum eða stoðsendingum.  Samanber til dæmis þessa frétt (ein af mörgum). Þetta er náttúrlega bara tvenna eða þrenna. Annars væri það ferna eða sexa. Hálfvitar.

2008-02-13

Heyrt í vínsmakkinu í kvöld

Filed under: Vín — Jón Lárus @ 23:58

„Íslendingar velja sér vín eftir styrkleika. Maður fær oft spurninguna: Ég keypti vín sem var þetta mörg prósent og af þessum árgangi. Í hvaða hillu er það?“

Þokkalega dapurlegt.

Lítur út fyrir að

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 18:15

St Mungo’s spítalinn í Harry Potter bókunum sé í Glasgow. Að minnsta kosti var ekki annað að sjá í Taggart myndinni, sem sýnd var sl. föstudag.

Þetta er nú ekki alveg í samræmi við það sem Wikipedia gefur upp.

2008-02-11

Spínatekrur

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:59

Það verður spennandi að sjá í hvaða spínatekru Villi trampar næst.

Ég er að hugsa um

Filed under: Hm?,Matur — Jón Lárus @ 23:58

að fara að berjast fyrir því að skatan verði sett á þorramatseðilinn. Ég meina, þorramatur er að mestu leyti samansafn af einhverju óæti. Það vantar samt eitthvað á seðilinn, sem er virkilega vont. Skatan uppfyllir þetta skilyrði með glans. Og svo er líka fýla af henni.

Þá er maður farinn að nálgast það að komast inn á þennan lista, sem ég birti hérna einhvern tímann um daginn. Semsagt ekki bara vondur matur heldur alvöru krassandi vondur matur.

Rúsínan

Filed under: Fjölskyldan,Stríðni — Jón Lárus @ 00:40

Var að drekka morgunkaffið í gærmorgun. Finnur var kominn inn í stofu og ég var að ráða krossgátu. Kaffikrúsin að verða tóm og ég sá að það var eitthvað voða mikill korgur í krúsinni, aldrei þessu vant. Sagði við Fífu, sem var við hliðina á mér „Voða er mikill korgur í kaffinu núna!“ Fór svo að skoða málið betur. Sá þá að þetta var ekki bara korgur heldur var líka rúsína í krúsinni (n.b. ég þoli ekki soðnar rúsínur). Ég: „Fífa, það er rúsína í kaffinu mínu, veist þú eitthvað um þetta? Fífa: „Nei, hef ekki hugmynd“ Þá heyrðist hlátur úr stofunni. Finnur alveg að springa úr hlátri og viðurkenndi að hafa hent henni út í kaffið mitt.

Ég ætla ekkert að reyna að setja upp undrunarsvip og ekki skilja hvaðan hann hefur þetta…

2008-02-7

Jess!

Filed under: Dómsmál — Jón Lárus @ 19:52

Hæstiréttur er nú búinn að dæma olíufélögin (fyrir utan Atlantsolíu að sjálfsögðu) til að greiða Reykjavíkurborg skaðabætur vegna verðsamráðs. Sjá hér. Kominn tími til og eins gott að Hæstiréttur hlustaði ekki á aumkunarverða vörn félaganna, sem hljóðaði á þá leið að þau hefðu ekki borið neitt úr býtum með verðsamráðinu, jafnvel tapað á því! Hvar er Brøste núna? Þetta hlýtur að vera prófmál og vonandi að sem flestir sæki rétt sinn gagnvart þessum glæponum.

2008-02-5

Öskudagur

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 22:48

Svona verður útgangurinn á Freyju á morgun:

Ekki Solla stirða

(nei, þetta er víst ekki Solla stirða, heldur módel).

Finnur verður í Ninja turtle búningi (kemur örugglega mynd á blogginu hennar Hildigunnar á morgun). Vonandi bara að hann verði nógu frískur. Hann missti af öskudegi fyrir tveimur árum. Var að sjálfsögðu eiturfúll yfir því.

Vafningsviður?

Filed under: Fjölskyldan,Húsið — Jón Lárus @ 22:43

Ég veit ekki hvort Finnur (og hugsanlega Freyja líka) haldi að hurðakarmar og gerefti hér á heimilinu séu vafningsviður til að sveifla sér á. Að minnsta kosti eru ansi margir hurðakarmar hér á heimilinu útkámaðir.

Hreyfingarleysi

Filed under: Íþróttir,Boltinn — Jón Lárus @ 21:42

Mig er farið að lengja eftir því að geta hreyft mig almennilega. Var í fótbolta áðan og pústið var nú bara svona og svona. Hef ekki getað hreyft mig almennilega í næstum því mánuð. Hvorki hlaupið né hjólað.

Ég nenni ekki að fara út að hlaupa í svona snjó og hálku, finnst ég ekkert fá út úr því og hjóla ekki heldur. Hef ekki farið út í að kaupa mér snjódekk með nöglum á hjólið. Þannig að eina hreyfingin núna er boltinn einu sinni í viku.

Og þegar boltinn er leiðinlegur (les: mitt lið tapar) þá er nú lítið varið í það…

2008-02-3

Herbergið hans Finns IV

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:04

Ætlaði svo sannarlega að klára þessar framkvæmdir alveg um helgina en það sannast hið fornkveðna: Þær eru drjúgar innansleikjurnar.

Þetta er nú reyndar aðeins meira en herbergið hans Finns. Var með 3 veggi niðri, sem ég hafði skipt út veggplötum á fyrir langa löngu en var ekki búinn að pússa og mála. Dreif mig í að halda áfram með þá líka þegar við vorum hvort eð er að mála og pússa á fullu.

Nú vantar bara herslumuninn. Eftir að mála seinni umferð á nokkrum gereftum og fá tjald fyrir útidyrahurðina hjá Finni. Og þá verður þetta loksins búið.

Áhættuhegðun

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:51

Er það ekki svolítið dapurlegt þegar mesta áhættuhegðunin, sem maður stundar er að leysa krossgátur með penna?

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.