Hildigunnur lenti í smá hremmingum í dag. Hún hafði farið í bað og rak fótinn eitthvað í yfirfallið (sem var úr plasti), það var orðið gamalt og lúið og hrökk í sundur við höggið. Þá skipti engum togum að frárennslispípan á bak við losnaði frá og byrjaði að flæða inn um glufuna, sem myndaðist. Hildigunnur var snögg og kippti tappanum úr baðinu og rauk síðan niður á neðri hæðina. Þar lak niður úr loftinu og inn í herbergið hans Finns. Sem betur fer þá kom þessi leki á besta stað ef svo má segja. Lak ekkert í rúmið og hvorki á bókaskápinn né parkettið á ganginum. Bara á teppið inni hjá Finni. Eina sem sér eitthvað smá á er panellinn í loftinu. Maður þarf samt eiginlega að vita af því til að sjá það.
Skutumst svo í Húsasmiðju eftir vinnu og ætluðum að kaupa nýtt lok fyrir yfirfallið. Fékkst ekki þar en okkur var bent á Tengi. Drifum okkur þangað og fengum stykkið. Þurftum reyndar að kaupa tengisett en það kostaði nú engin ósköp þannig að þetta hefði nú alveg getað verið verra.