Strč prst skrz krk

2008-02-11

Spínatekrur

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:59

Það verður spennandi að sjá í hvaða spínatekru Villi trampar næst.

Ég er að hugsa um

Filed under: Hm?,Matur — Jón Lárus @ 23:58

að fara að berjast fyrir því að skatan verði sett á þorramatseðilinn. Ég meina, þorramatur er að mestu leyti samansafn af einhverju óæti. Það vantar samt eitthvað á seðilinn, sem er virkilega vont. Skatan uppfyllir þetta skilyrði með glans. Og svo er líka fýla af henni.

Þá er maður farinn að nálgast það að komast inn á þennan lista, sem ég birti hérna einhvern tímann um daginn. Semsagt ekki bara vondur matur heldur alvöru krassandi vondur matur.

Rúsínan

Filed under: Fjölskyldan,Stríðni — Jón Lárus @ 00:40

Var að drekka morgunkaffið í gærmorgun. Finnur var kominn inn í stofu og ég var að ráða krossgátu. Kaffikrúsin að verða tóm og ég sá að það var eitthvað voða mikill korgur í krúsinni, aldrei þessu vant. Sagði við Fífu, sem var við hliðina á mér „Voða er mikill korgur í kaffinu núna!“ Fór svo að skoða málið betur. Sá þá að þetta var ekki bara korgur heldur var líka rúsína í krúsinni (n.b. ég þoli ekki soðnar rúsínur). Ég: „Fífa, það er rúsína í kaffinu mínu, veist þú eitthvað um þetta? Fífa: „Nei, hef ekki hugmynd“ Þá heyrðist hlátur úr stofunni. Finnur alveg að springa úr hlátri og viðurkenndi að hafa hent henni út í kaffið mitt.

Ég ætla ekkert að reyna að setja upp undrunarsvip og ekki skilja hvaðan hann hefur þetta…

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.