Strč prst skrz krk

2008-02-19

Kattamaturinn

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:55

Dósamaturinn hennar Loppu var skyndilega búinn í kvöld þegar við ætluðum að gefa henni. Hentum smá þurrmatarlúku í hana og þar sem ég var að fara út að erindast aðeins ákvað ég að koma við í Drekanum, sjoppunni hérna á næsta horni (þurrmaturinn hennar fæst nefnilega ekki í Bónus). Bjóst við því að þetta myndi nú kosta verulega meira heldur en í Krónunni þar sem við kaupum hann venjulega.

Nema hvað, fékk dolluna í Drekanum á 130 kall. Undanfarið höfum við keypt sams konar dósir í Krónunni á 150-160 krónur og fyrir nokkrum dögum á 180 í Hagkaupum. Segir nú talsvert um álagninguna í þessum búllum að kattamaturinn sé verulega ódýrari í sjoppunni hérna á horninu.

Vona bara að strákarnir í Drekanum lesi ekki þetta blogg svo að kattamaturinn verði ekki orðinn dýrari næst þegar við þurfum að kaupa!

Erfið heimferð

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 21:46

Það var sprungið á hjólinu mínu eftir vinnu í gær. Ég var ekki með neinar græjur til að gera við slöngur þannig að ég ákvað að skilja hjólið eftir, taka bara strætó og sækja það í dag eftir að hafa útvegað nýja slöngu.

Útvegaði nýja slöngu í dag en þegar ég var kominn til að sækja hjólið (eftir smá skutl fram og til baka) þá var snjókoma og mér leist ekki á að gera við dekkið úti. Ákvað því að rölta með hjólið upp á Max stöðina sem er við Sæbrautina og prófa að pumpa í dekkið. Gerði það og hjólaði af stað. Rétt áður en ég kom að Olís stöðinni við Klettagarða var dekkið orðið vindlaust. Dældi aftur í dekkið og hjólaði áfram eftir stígnum meðfram Sæbrautinni. Náði að ljósunum við Kringlumýrarbrautina. Þá var allur vindur aftur úr dekkinu. Ég snaraðist inn á N1 stöðina, sem er þar við Borgartúnið og dældi lofti í dekkið eins og ég þorði og svo aftur af stað. Á þessari fyllingu komst ég á Njálsgötuna að Vitastíg. Teymdi hjólið síðustu 200 metrana eða svo.

Ekki smá vesen að komast heim úr vinnunni stundum.

Finnur brandarakarl

Filed under: Brandarar,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 12:29

Gekk eitthvað hálf rólega hjá Finni að klæða sig í morgun. Ég sagði þá við hann: Þú verður að drífa þig í buxurnar, það borgar sig að fara í buxum í skólann. Hann sagði sosum ekki neitt við því og kláraði að klæða sig. Nokkru síðar var ég búinn að taka til nesti og á leiðinni niður með bakpokann (í náttfötum nota bene). Heyrist þá í litla gaur: Pabbi, þú verður að drífa þig að klæða þig. Það borgar sig að vera í fötum í vinnunni!

Þarf ekki að orðlengja það að við Hildigunnur sprungum bæði úr hlátri.

Bloggaðu hjá WordPress.com.