Dagurinn í gær var alger letidagur hjá mér. Gerði ekki neitt, sem mig langaði ekki til að gera. Lá bara uppi í sófa megnið af deginum og las og las (þetta var það sem ég ætlaði að gera á páskadag og klúðraðist hjá mér). Las m.a. Krabbann með gylltu klærnar (á frönsku), meirihlutann af Náttúrufræðingi, sem hafði lent ofan í blaðagrind, ólesinn og fór langt með að klára Dauðans óvissa tíma eftir Þráinn Bertelsson. Síðan horfðum við á Mannaveiðar og danska bíómynd, Adams æbler eða eitthvað í þá áttina. Nauðsynlegt að gera svona af og til. Bara allt of langt síðan ég hef tekið svona letidag.
2008-03-31
2008-03-29
Vísbendingaspurningarnar
í Lifandi vísindum eru erfiðar í nýjasta blaðinu. Við Hildigunnur fáum alltaf Fífu til að spyrja okkur spurninganna. Náum yfirleitt að skora svona 23-26 stig en núna ekki nema 20! Man ekki eftir nema svona tveimur skiptum þar sem við höfum verið slakari.
Svefnganga?
Ætli það hafi ekki verið á fimmtudagskvöldið. Við vorum öll komin upp í. Klukkan eitthvað um miðnætti. Ég var að lesa. Þá heyrði ég að Freyja byrjaði að tala upp úr svefni. Skömmu síðar heyrðist þrusk. Ég heyrði fótatak sem fór framhjá herberginu okkar og áfram upp stigann. Ég beið smá stund og þegar fótatakið kom ekki niður aftur fljótlega þá ákvað ég að kanna málið aðeins. Þegar ég kom upp þá var Freyja í óða önn að útbúa morgunmat og gefa kettinum. Ég spurði hana hvort hún vissi hvað klukkan væri og þegar Freyja sá að hún var u.þ.b. miðnætti þá var það eina sem hún sagði: „Ó“.
Ég veit ekki alveg hvort hún gekk í svefni en tímaskynið var allavega víðs fjarri.
2008-03-23
2008-03-21
Ekki hefði ég
viljað vera í írska handboltalandsliðinu (U20 ára), sem tapaði fyrir því íslenska 67:3 í gær í undankeppni heimsmeistaramóts. Hálfleikstölur 34:3 þ.a. þær síðari hálfleiknum 33:0. Martröð.
En að senda svona lið, sem á greinilega ekkert erindi í keppnina, skil ég ekki.
Páskaeggjagerð
Við Fífa ákváðum að gera tvö páskaegg fyrir þessa páska, ekki eitt eins og í fyrra. Við vorum algerlega búin að gleyma hvernig við fórum að þessu. Tók nokkrar tilraunir að ná tökum á þessu aftur. Við komumst meðal annars að því að það þýðir ekki að búa til egg bara úr rjómasúkkulaði (Fífa vildi endilega hafa sitt egg úr slíku súkkulaði), því það er ómögulegt að ná því úr forminu. Þetta vesen kostaði eitt egg, sem við neyddumst til að borða.
Það sem við gerðum til að leysa það mál var að gera fyrst þunna skel úr suðusúkkulaði og hjúpsúkkulaðiblöndu. Síðan gerðum við innri og þykkari skel úr rjómasúkkulaði. Þetta kom vel út og enginn vandi að ná egginu úr forminu með þessari aðferð. Í fyrra áttum við ekki fót og létum eggið liggja. Núna bættum við úr því og fengum okkur form til að gera fót. Fífa vildi endilega hafa gamaldags, massífan fót. Gerðum hann eins og eggið, með þunnri suðusúkkulaðiskel og svo fyllt upp með rjómasúkkulaði.
Ég notaði hins vegar 70% súkkulaði í mitt egg, eins og í fyrra. Aðalmunurinn er að við höfðum 2 lög. Seinna lagið sett aðallega hjá samskeytunum til að fá þykkar brúnir. Í fyrra var það helsta vandamálið, sem við áttum við að stríða. Þá létum við heldur ekki súkkulaðið kólna í ísskápnum eftir að hafa brætt það heldur kældum við það í forminu og veltum fram og aftur (mjög tímafrekt og leiðinlegt). Núna skelltum við súkkulaðinu bara inn í ísskáp í 10-12 mínútur eftir að hafa brætt það. Síðan smurðum við súkkulaðinu í formið og settum það svo á hvolf ofan á bökunarpappír. Þegar eggið var búið að taka sig aðeins hentum við því síðan aðeins inn í frysti. Ég var reyndar pínu óþolinmóður, beið ekki nógu lengi og skemmdi brúnirnar aðeins.
Síðan nokkrar myndir af eggjagerðinni, Fífu egg fyrst:
Síðan mitt egg:
Útlitið talsvert flottara en í fyrra en samt urðu smá mistök í samsetningunni…
2008-03-19
Fyrstu
krókusarnir eru farnir að gægjast upp úti í garði. Óvenjulega snemmt held ég því yfirleitt eru plönturnar í garðinum okkar ekkert sérlega snöggar til. Vonandi bara að hretið, sem spáð er á næstu dögum gangi ekki alveg frá þeim.
Á heimleið
úr risainnkaupaleiðangri í RL vöruhús þá ókum við fram hjá Kauphöllinni. Þá hrökk upp úr Hildigunni: „Hvernig ætli starfsmönnum Apple líði þegar allt þunglyndið lekur niður á þá af efri hæðunum?“ Við Fífa sprungum úr hlátri en litlu krakkarnir skildu ekki neitt í neinu.
2008-03-17
Skil þetta reyndar ekki alveg
Frétt um dýrasta kampavín í heimi. Umbúðirnar eru reyndar alveg flottar en það er ekkert á bak við þetta. Þarna er verið að selja 12 flöskur á 5,4 milljónir, sem ættu að kosta í mesta lagi 180.000 (360.000) ef þetta eru magnum flöskur.
Gerði Finn reyndar mjög hissa og sýndi honum fréttina og dró jafnframt upp eina svona Belle Epoque flösku upp (reyndar ekki sami árgangur og ekki blanc de blanc). Svipurinn á guttanum þegar hann sá að þær voru næstum því eins. Vááá, pabbi áttu svona dýrustu flösku?!
Beittir hnífar
Eftir brýningarnámskeiðið, sem við fengum í gær (sjá hér þá tókum við Fífa okkur til í morgun og brýndum allflesta hnífa hér á heimilinu. Skildum reyndar eftir einn fyrir Hildigunni til að spreyta sig á. Við erum nú ekki enn neitt sérstaklega flink en samt var ótrúlegur munur á bitinu þegar prófað var að skera blað í sundur. Fyrir brýningu þá rifu flestir hnífarnir úr blaðinu en eftir þá var skurðurinn bara beinn.
Sólarkaffi
Í gær skein sólin í fyrsta sinn inn um lituðu gluggana á vesturhlið húsins okkar. Alltaf gaman þegar það gerist. Héldum upp á það með því að fá okkur sólarkaffi með ýmsu gúmmulaði.
Styttist í sumarið.
2008-03-13
Eftir nokkrar mínútur
rennur upp afmælisdagur Hildigunnar. Innilega til hamingju með afmælið, ástin mín.
Dagur límósínanna?
Við Hildigunnur mættum eða keyrðum fram á þrjár límúsínur á nokkur hundruð metra kafla á leiðinni heim úr Krónunni í dag. Þá fyrstu rákumst við á, á hringtorginu við Þjóðminjasafnið. Risastór, hvítur hummer. Næstu mættum við á Tjarnarbrúnni, líka risastór, hvítur hummer (þessar tvær gætu nú mögulega hafa tengst).
Okkur fannst nú alveg nóg að rekast svona á tvær sínur með örstuttu millibili en þegar sú þriðja ók fram hjá okkur hjá hótel Holti þá féll okkur nú allur ketill í eld.
Hvernig er annars með þetta ég hélt að það væri að koma kreppa hérna?
2008-03-11
Síbería
í boltanum áðan. Voru bara mættir sjö þannig að við urðum að spila þrír í liði með einn skiptimann. Miklu meiri hlaup, miklu erfiðara. Algjörlega búinn.
Frasinn: „Ég hef aldrei verið svona þreyttur áður“ hljómar trúlegar núna en oftast áður. Mitt lið vann samt eftir mikinn barning þannig að þetta var þess virði.
Tíhíhí
Keypti afmælisgjöfina fyrir Hildigunni fyrir langalöngu, í janúar nánar tiltekið. Er búið að vera erfitt stundum að halda sér saman en mér hefur tekist það þangað til í dag að ég missti það út úr mér. O jæja, það eru nú líka ekki nema 3 dagar í afmælið hennar.
Held að hún sé forvitin núna…
Mikið gott
(nú tala ég eins og Sunnlendingur) að geta hjólað aftur í vinnuna. Byrjaði aftur eftir tveggja mánaða hlé á föstudaginn. Hef svo getað hjólað báða dagana í þessari viku. Þvílíkur munur! Mér fannst ég alveg um það bil að verða að líkamlegu braki eftir tveggja mánaða næstum algjört hreyfingarleysi (bara boltinn einu sinni í viku). Fyrstu skiptin eru líka svolítið erfið en þetta ætti nú allt að fara að koma.
2008-03-7
Lærdómsvika
Er svona hratt og hratt að kúpla mig út úr gömlu forritunum í vinnunni. Í staðinn er komin .net vinna og svo var ákveðið að ég myndi líka fara að læra á WebMethods hugbúnaðinn (samþættingarhugbúnaður). Það bar nú dálítið brátt að og núna í vikunni byrjaði ég að setja mig inn í þann heim.
Nú í lok vikunnar er hausinn alveg að springa af upplýsingum. Líður örugglega ekki á löngu þangað til fara að leka tvíundakerfisbitastraumar út um eyrun ef heldur svona áfram…
2008-03-5
Freyja
kom með eftirfarandi lista og bað mig að lesa:
Jello
Jelly
Jenny
Juliette
January
Jay
Jurtate
Just
Jewelry
Þeir, sem átta sig á tungubrjótnum fá prik. Ég óð beint út í vatnið (var reyndar ekki sérlega skýrt skrifað).
Hildigunnur fattaði þetta hins vegar 😦
Það er greinilegt
að verið er að gera klárt fyrir framkvæmdir við endurnýjun efri hluta Skólavörðustígs. Búið er að planta steypuhlunkum með skiltum, sem enn eru vafin inn í plast víðs vegar hér um nágrennið. Ég sá þetta fyrst í morgun og botnaði ekkert í hvað þetta væri. Hélt jafnvel að þetta tengdist einhverri listasýningu. Áttaði mig svo á hvað þetta hlyti að vera þegar ég sá að svona steypuhlunkur var á hverju götuhorni umhverfis Skólavörðustíginn.
Þetta þýðir að maður neyðist til að fara að finna nýjar leiðir til að komast heim innan skamms. Og vonandi líka að náist að klára þetta á tilsettum tíma, í ágúst held ég.