Strč prst skrz krk

2008-03-21

Ekki hefði ég

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 20:23

viljað vera í írska handboltalandsliðinu (U20 ára), sem tapaði fyrir því íslenska 67:3 í gær í undankeppni heimsmeistaramóts. Hálfleikstölur 34:3 þ.a. þær síðari hálfleiknum 33:0. Martröð.

En að senda svona lið, sem á greinilega ekkert erindi í keppnina, skil ég ekki.

Páskaeggjagerð

Filed under: Dægradvöl,Fjölskyldan,Hátíð — Jón Lárus @ 12:41

Við Fífa ákváðum að gera tvö páskaegg fyrir þessa páska, ekki eitt eins og í fyrra. Við vorum algerlega búin að gleyma hvernig við fórum að þessu. Tók nokkrar tilraunir að ná tökum á þessu aftur. Við komumst meðal annars að því að það þýðir ekki að búa til egg bara úr rjómasúkkulaði (Fífa vildi endilega hafa sitt egg úr slíku súkkulaði), því það er ómögulegt að ná því úr forminu. Þetta vesen kostaði eitt egg, sem við neyddumst til að borða.

Það sem við gerðum til að leysa það mál var að gera fyrst þunna skel úr suðusúkkulaði og hjúpsúkkulaðiblöndu. Síðan gerðum við innri og þykkari skel úr rjómasúkkulaði. Þetta kom vel út og enginn vandi að ná egginu úr forminu með þessari aðferð. Í fyrra áttum við ekki fót og létum eggið liggja. Núna bættum við úr því og fengum okkur form til að gera fót. Fífa vildi endilega hafa gamaldags, massífan fót. Gerðum hann eins og eggið, með þunnri suðusúkkulaðiskel og svo fyllt upp með rjómasúkkulaði.

Ég notaði hins vegar 70% súkkulaði í mitt egg, eins og í fyrra. Aðalmunurinn er að við höfðum 2 lög. Seinna lagið sett aðallega hjá samskeytunum til að fá þykkar brúnir. Í fyrra var það helsta vandamálið, sem við áttum við að stríða. Þá létum við heldur ekki súkkulaðið kólna í ísskápnum eftir að hafa brætt það heldur kældum við það í forminu og veltum fram og aftur (mjög tímafrekt og leiðinlegt). Núna skelltum við súkkulaðinu bara inn í ísskáp í 10-12 mínútur eftir að hafa brætt það. Síðan smurðum við súkkulaðinu í formið og settum það svo á hvolf ofan á bökunarpappír. Þegar eggið var búið að taka sig aðeins hentum við því síðan aðeins inn í frysti. Ég var reyndar pínu óþolinmóður, beið ekki nógu lengi og skemmdi brúnirnar aðeins.

Síðan nokkrar myndir af eggjagerðinni, Fífu egg fyrst:

Helmingarnir

Fóturinn

Allir hlutarnir og fylling

Eggið samsett og skreytt

Síðan mitt egg:

Mitt egg

Útlitið talsvert flottara en í fyrra en samt urðu smá mistök í samsetningunni…

Bloggaðu hjá WordPress.com.