Strč prst skrz krk

2008-06-29

Setningar III

Filed under: Setningar — Jón Lárus @ 23:08

Fékk þessa óvænt upp í hendurnar í kvöld.

Finnsk að þessu sinni:

Mun mumoni muni
mun mamoni
mun mamoni muni mun

Þetta mun víst þýða:

Amma mín verpti eggi,
sem var mamma mín.
Mamma mín verpti eggi,
sem var ég.

Þetta minnir pínu á íslensku setninguna:

Barbara Ara. bar Ara araba bara rabarbara, sem er örugglega lengsta íslenska setning þar sem eru bara notaðir 3 stafir (fyrir utan mismunandi uppraðanir af sama toga).

Komin heim

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 18:03

eftir alveg snilldarferð til Tékklands, Danmerkur og Svíþjóðar. Tékkneskur kammerhópur hafði pantað verk af Hildigunni og ætlaði að frumflytja í vikunni (hún á svo eftir að rekja ferðasöguna nánar, ef ég þekki hana rétt). Ætlunin var að fylgjast með æfingum og svo hlusta á frumflutning.

Flugum 21. til Danmerkur og svo strax áfram til Prag. Á flugvellinum þar vorum við sótt af útsendurum kammerhópsins. Brunað beint til Plzeň og í íbúð, sem hópurinn hafði útvegað okkur. Ótrúlegir þessir Tékkar. Ekki nóg með að okkur væri útveguð íbúð; fín íbúð, samt spartönsk, heldur höfðu þeir fyllt ísskápinn líka af mat og bjór!

Dagarnir liðu síðan við að rölta um borgina, slaka á með bjórkrús og svo fylgjast með æfingum á verkunum hennar Hildigunnar. Hildigunnur var líka fengin til að flytja fyrirlestur um tónlistina sína í tónlistarháskólanum í Plzeň. Hún náttúrlega kláraði það með sóma eins og hennar er vísa. Stoltur af minni.

Þrennt náði ég svo að smakka í ferðinni, sem ég hafði aldrei bragðað áður. Fyrst að telja var villigöltur. Við reyndum að fá slíkan rétt í Prag fyrir tveimur árum en tókst ekki. Hildigunnur rakst svo á villigölt á matseðli á veitingahúsinu Svejk og það var náttúrlega ekki hægt annað en smakka. Skil Steinrík betur núna þó þessi hafi ekki verið grillaður.

Síðan náði ég að smakka tvo bjóra, sem lengi hafa verið á listanum. Annars vegar ósíaður Pilsner Urquell og hins vega dökkan Budweiser Budwar (Tmavý ležák), sem Hildigunnur smakkaði fyrir tveimur árum og hafði hrósað í hástert. Við höfðum reynt að finna þennan bjór síðan en ekki tekist fyrr en nú. Í stuttu máli sagt þá er þessi bjór frábær. Meira að segja úr flösku. Ætli hann sé ekki svo himneskur af krana? Hef ekki smakkað úr krana enn en hlakka til.

Það var síðan eitt sem við höfðum ákveðið að reyna að útvega úti í Tékklandi. Þannig er að garðhliðið okkar, úr smíðajárni er bilað. Fjöðrin til að loka því er brotin. Við fórum í fyrra í járnsmiðju og ætluðum að fá þetta lagað. Járnsmiðurinn þar tók vel í þetta en svo kom í ljós að flatjárn, sem þarf í þetta virtist ekki fást hér á landi. Ég hugsaði með mér að í landi þar sem er fullt af gömlum húsum með ótrúlega flottu smíðajárnsverki hlyti að vara hægt að útvega svona flatjárn. Við nefndum þetta við flautuleikarann okkar og hann fór í málið. Hann talaði við iðnaðarmanninn sinn og það kom í ljós að þetta ætti að vera hægt. Tveir staðir í Plzeň. Síðasta morguninn þá fórum við ásamt flautuleikaranum í leiðangur. Á fyrri staðnum sem við fórum á þá fékkst þetta ekki en í seinni járnsmiðjunni þá fékkst flatjárnið, sem okkur vantaði í í lange baner. Við vorum þokkalega ánægð með þetta.

Járnsmiðjan

Á morgun förum við að hitta járnsmiðinn okkar. Hendum í hann flatjárninu: „Þetta þurftum við að sækja til Tékklands.“ Lagaðu nú hliðið okkar!

Held ég staldri við nú. Meira á næsta bloggdegi.

2008-06-19

Kvefaður

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:45

Alveg þvílíkt að drepast úr kvefi, sýg stanslaust upp í nefið og með þungan haus. Dæmigert að þetta gerist rétt fyrir Tékklandsför. Verð bara að hrista þetta af mér á morgun.

Hjátrú

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 00:07

Var aðeins að dytta að húsinu á þjóðhátíðardaginn. Tók fram pensil og blettaði aðeins framhliðina á húsinu. Þurfti að klifra upp í stiga. Fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum fólks, sem átti leið hjá. Sumir gengu undir stigann eins og ekkert hefði í skorist. Aðrir leggja lykkju á leið sína. Fékk svo tvær athugasemdir. Annað var nágranni okkar, sem hjólaði undir stigann, hringdi bjöllunni og sagði: „Ekki skvetta á mig!“ Hitt var par með ungt barn. Á sama tíma og þau komu að stiganum var köttur að sniglast á gangstéttinni (reyndar ekki svartur). Þau: „Eigum við ekki bara að snúa við?“

2008-06-17

Jei

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 16:09

Fífa var að fá staðfest að hún kemst inn í MH. Algjör snilld!

Gleðilega þjóðhátíð

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 00:13

Kæru lesendur. Lítur meira að segja út fyrir að verði fínt veður á þjóðhátíðardeginum (þ.e.a.s. ef spár rætast).

2008-06-13

Hollendingar

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:34

eru greinilega með þrusulið í EM að þessu sinni. Það eru engir aukvisar, sem slátra fyrst Ítölum 3:0 og svo Frökkum 4:1. Það verður ekkert lið meistari eftir riðlakeppnina en Hollendingar líta samt geysilega vel út. Langbestir af þeim sem ég hef séð fram að þessu. Sá reyndar ekki Spánverjaleikinn þar sem þeir tóku Rússa í karphúsið en hver tekur þá svo sem alvarlega. Taugarnar eiga eftir að sjá um þá í 8-liða eða mesta lagi 4-liða úrslitum.

2008-06-11

Nördabrandari (gáta)

Filed under: Brandarar,Nördismi — Jón Lárus @ 23:32

Fífa sagði mér þennan brandara/gátu. Flokksstjórinn hennar í unglingavinnunni, sem er víst verkfræðinemi, sagði þeim hann. Here goes…

Einstein, Newton og Pascal voru í feluleik. Einstein var hann og á meðan hann taldi upp að 1729 þá földu hinir sig. Pascal inni í fataskáp en Newton tók fram stól teiknaði ferning, sem var metri á kant, umhverfis stólinn og settist síðan á hann. Þegar Einstein var búinn að telja þá fór hann að leita og kom nánast samstundis auga á Newton. Einstein hrópaði hróðugur: „Newton, ég er búinn að finna þig!“ Newton svaraði að bragði: „Nei, ég er ekki Newton, ég er Pascal!“

Jæja kæru lesendur, hvernig gengur þetta upp hjá honum?

Fyndinn myndatexti

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:03

á einni frétt á mbl.is. Á myndinni eru fjórir menn og nafngreindur einn sem er sá þriðji frá vinstri. Nei, ómögulegt að telja frá hægri, gengur ekki.

2008-06-7

Varð fyrir góðri þjónustu

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 16:22

áðan. Þannig var að í gær þá brotnaði stykki, sem festi frambrettið á hjólinu mínu við gaffalinn. Ég bjóst svosem alveg við því að maður þyrfti að kaupa nýtt bretti, eins og hlutirnir eru orðnir nú til dags. Allavega, við Hildigunnur fórum í smá útréttingar í morgun og meðal annars í Markið, þar sem ég ætlaði að athuga hvort fengist svona festing. Afgreiðslumaðurinn, sem tók á móti okkur sagði fyrst: „Ég er hræddur um að þú verðir að kaupa nýtt bretti.“ Og síðan: „Bíddu aðeins ég ætla að athuga þetta aðeins“. Svo kom hann aftur eftir smá stund: „Heyrðu við áttum svona stykki. Þú mátt bara eiga þetta!“ Get ekki annað sagt en Markið hafi skorað mörg stig hjá mér þarna.

Ruglið

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 01:34

Maður náttúrlega trúir öllu á windoze. Í kvöld þá tók tölvan mín upp á því að pípa, eins og hún væri að hringja. Ég botnaði ekki neitt í neinu, var bara með þrjú forrit í gangi: Calc, Firefox og mIrc. Ekkert þeirra á að láta svona. Svo eru reyndar nokkur forrit í skúffunni neðst en þau létu ekkert vita að væri neitt að gerast. Svo stoppaði hringingin og byrjaði aftur og stoppaði og byrjaði aftur. ´Fyrst prófaði ég að slökkva á hátalaranum í vélinni. Það hafði engin áhrif. Þá prófaði ég að endurræsa vélina bara til að vera viss um að væri ekki neitt rugl í gangi. Tölvan byrjaði að pípa aftur. Nú skildi ég ekki neitt í neinu og ákvað að hætta þessu bara og slökkti á vélinni. Fór að tala við Hildigunni. Eftir smástund: Píp, píp, píp. Píp, píp, píp. Nú var mér nóg boðið, fór inn í stofu og tók vélina upp. Þá kom í ljós bleikur sími á bak við hana, sem Þorbjörn mágur hafði gleymt í dag…

2008-06-5

Ofurleiðari

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:47

í fréttablaðinu í dag. Ég var fullkomlega sammála honum. Þar var fjallað um þessar nýju hugmyndir um verðlagningu á jarðefnaeldsneyti. Það er að segja að álagning á hvern lítra olíu verði hækkuð þannig að eyðslufrekir drekar verði enn óhagkvæmari í rekstri en nú er. Það er ekki fyrr en notkun á bensínhákum fer að koma við pyngjuna að von sé til að þeim verði skipt út fyrir eyðslugrennri bíla.

Með þessu móti verður vonandi útrýmt þessum risastóru, fáránlegu pallbílum, sem hafa náð fáránlegri útbreiðslu hérna út af glufu í tollareglugerð.

Heimilisbókhaldið

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:01

er búið að vera í tómu tjóni hjá okkur núna síðustu vikurnar. Ég var búinn að skoða þetta og hélt að ég væri búinn að finna lekann (Ölstofa Kormáks og Skjaldar) en svo hélt alltaf áfram að koma mismunur. Var farið að muna nokkrum tugum þúsunda. Ég var ekki alveg sáttur við þetta, henti út öllum plástrunum, sem áttu að laga bókhaldið, tók út lista frá áramótum og fór yfir þetta færslu fyrir færslu. Fann að lokum villurnar. Kom auðvitað í ljós að ég hafði gleymt að skrá inn húsnæðisseðla (skil ekki alveg hvernig ég fór að því) og svo hafði ég skráð inn lífeyrisgreiðslu, sem hafði aldrei verið greidd! Ekki smá, sem svona afstemming tekur á. Hausinn á mér að nálgast bráðnunarhitastig. Plúsinn samt sá að bókhaldið stemmir núna upp á krónu.

2008-06-3

Eftir jarðskjálftann

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 19:30

um daginn fletti ég upp upplýsingum um orkulosun jarðskjálfta af mismunandi styrkleika. Sá þá að við öflugustu jarðskjálftana var orkulosunin mæld í EJ (Exa Joule), sem var eining sem ég þekkti og svo (ZJ), sem ég hafði aldrei séð áður. Ég varð forvitinn og fletti þessu upp á wikipediu þar sem þetta var útskýrt. Z stendur fyrir Zetta (svo er reyndar til Y líka, sem stendur fyrir Yotta).

Það sem vakti samt mesta athygli mína var það að Bandaríkin eru eitt af þremur ríkjum, sem nota ekki SI einingakerfið, sem aðaleiningakerfi. Hin löndin tvö eru Myanmar og Líbería!

Ekki getur

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 19:20

maður nú skilið Freyju og Finn útundan. Stóðu sig bæði mjög vel. Hjá Hildigunni má sjá nánari lýsingu á einkunnunum. Læt ég nú þessum montfærslum lokið í bili.

2008-06-2

Meira mont

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 22:27

Vorum að koma heim úr útskrift úr Austurbæjarskóla. Glæsilegur árgangur. Fífa stóð sig eins og hetja. Fékk tvenn verðlaun, annars vegar fyrir að vera með meðaleinkunn yfir 9 og hins vegar fyrir góðan árangur í dönsku. Það voru held ég 10 nemendur, sem fengu verðlaun þar af 8 stelpur.

Hildigunnur á örugglega eftir að henda inn myndum af útskriftinni. Ég skutla inn tengli þegar það gerist.

Hvað

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 00:03

er sætara en það en að vinna Svía í handbolta í algjörum úrslitaleik um sæti á ólympíuleikum?

Á íþróttasviðinu get ég bara ekki ímyndað mér neitt. Verð að viðurkenna það að ég var nú ekkert mjög bjartsýnn fyrir leikinn, eftir frekar slæmt tap fyrir Pólverjum í gær. En það gerir þennan sigur bara enn sætari. Svíarnir ætluðu víst að kæra úrslitin vegna þess að líklega var eitt mark vantalið hjá þeim. Samkvæmt nýjustu fréttum á mbl.is þá eru þeir hættir við enda held ég að séu engin fordæmi fyrir því að atvik sem upp koma í leik verði þess valdandi að hann sé endurtekinn. Þetta er bara hluti af leiknum. Síðan er ekki eins og hafi bara munað þessu eina marki í leikslok. Við unnum með fjögurra marka mun. Líklega hafa Svíarnir áttað sig á að það væru engar forsendur fyrir kæru þó hefði verið mistalið um eitt mark.

Bloggaðu hjá WordPress.com.