Strč prst skrz krk

2008-06-29

Komin heim

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 18:03

eftir alveg snilldarferð til Tékklands, Danmerkur og Svíþjóðar. Tékkneskur kammerhópur hafði pantað verk af Hildigunni og ætlaði að frumflytja í vikunni (hún á svo eftir að rekja ferðasöguna nánar, ef ég þekki hana rétt). Ætlunin var að fylgjast með æfingum og svo hlusta á frumflutning.

Flugum 21. til Danmerkur og svo strax áfram til Prag. Á flugvellinum þar vorum við sótt af útsendurum kammerhópsins. Brunað beint til Plzeň og í íbúð, sem hópurinn hafði útvegað okkur. Ótrúlegir þessir Tékkar. Ekki nóg með að okkur væri útveguð íbúð; fín íbúð, samt spartönsk, heldur höfðu þeir fyllt ísskápinn líka af mat og bjór!

Dagarnir liðu síðan við að rölta um borgina, slaka á með bjórkrús og svo fylgjast með æfingum á verkunum hennar Hildigunnar. Hildigunnur var líka fengin til að flytja fyrirlestur um tónlistina sína í tónlistarháskólanum í Plzeň. Hún náttúrlega kláraði það með sóma eins og hennar er vísa. Stoltur af minni.

Þrennt náði ég svo að smakka í ferðinni, sem ég hafði aldrei bragðað áður. Fyrst að telja var villigöltur. Við reyndum að fá slíkan rétt í Prag fyrir tveimur árum en tókst ekki. Hildigunnur rakst svo á villigölt á matseðli á veitingahúsinu Svejk og það var náttúrlega ekki hægt annað en smakka. Skil Steinrík betur núna þó þessi hafi ekki verið grillaður.

Síðan náði ég að smakka tvo bjóra, sem lengi hafa verið á listanum. Annars vegar ósíaður Pilsner Urquell og hins vega dökkan Budweiser Budwar (Tmavý ležák), sem Hildigunnur smakkaði fyrir tveimur árum og hafði hrósað í hástert. Við höfðum reynt að finna þennan bjór síðan en ekki tekist fyrr en nú. Í stuttu máli sagt þá er þessi bjór frábær. Meira að segja úr flösku. Ætli hann sé ekki svo himneskur af krana? Hef ekki smakkað úr krana enn en hlakka til.

Það var síðan eitt sem við höfðum ákveðið að reyna að útvega úti í Tékklandi. Þannig er að garðhliðið okkar, úr smíðajárni er bilað. Fjöðrin til að loka því er brotin. Við fórum í fyrra í járnsmiðju og ætluðum að fá þetta lagað. Járnsmiðurinn þar tók vel í þetta en svo kom í ljós að flatjárn, sem þarf í þetta virtist ekki fást hér á landi. Ég hugsaði með mér að í landi þar sem er fullt af gömlum húsum með ótrúlega flottu smíðajárnsverki hlyti að vara hægt að útvega svona flatjárn. Við nefndum þetta við flautuleikarann okkar og hann fór í málið. Hann talaði við iðnaðarmanninn sinn og það kom í ljós að þetta ætti að vera hægt. Tveir staðir í Plzeň. Síðasta morguninn þá fórum við ásamt flautuleikaranum í leiðangur. Á fyrri staðnum sem við fórum á þá fékkst þetta ekki en í seinni járnsmiðjunni þá fékkst flatjárnið, sem okkur vantaði í í lange baner. Við vorum þokkalega ánægð með þetta.

Járnsmiðjan

Á morgun förum við að hitta járnsmiðinn okkar. Hendum í hann flatjárninu: „Þetta þurftum við að sækja til Tékklands.“ Lagaðu nú hliðið okkar!

Held ég staldri við nú. Meira á næsta bloggdegi.

2 athugasemdir »

  1. Jámm, ferðasagan kemur, mögulega reyndar á ensku síðunni.

    Fylltu skápana, ójá og svo þessi fína rauðvínsflaska úr kjallaranum hans Jaromírs með, manstu?

    Svo var nýi bjórinn sem við vissum ekki af, Master, sem ég held að sé svar Prazdroj við dökka Buddanum. Hreint ekki slæmur!

    Athugasemd af hildigunnur — 2008-06-29 @ 23:18 | Svara

  2. Nei, Master var hreint ekki slæmur. Af krana reyndar þannig að samanburður ekki alveg sanngjarn.

    Athugasemd af Jón Lárus — 2008-06-29 @ 23:26 | Svara


RSS feed for comments on this post. TrackBack URI

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.

%d bloggurum líkar þetta: