Strč prst skrz krk

2008-07-23

Kjötborðsraunir

Filed under: Matur,Ruglið — Jón Lárus @ 21:12

Lenti alveg í þvílíkri bið við kjötborðið í Hagkaupum í Holtagörðum áðan. Hildigunnur kom heim frá Danmörku í dag. Við ákváðum að hafa þokkalegan mat í kvöld, spaghetti bolognese. Það vantaði ýmislegt í það m.a. nautagúllas þannig að ég ákvað að skjótast í Holtagarða á leiðinni heim.

Ég fór fyrst í Bónus og svo í Hagkaup til að kaupa það, sem fékkst ekki í Bónus. Yfirleitt rýkur maður í gegnum búðina því það er næstum aldrei neinn þarna (draumabúð fyrir kaupandann en örugglega martröð fyrir keðjuna). Nema hvað á undan mér við kjötborðið voru tvær konur. Ég get svo svarið það að þær ætluðu bara að kaupa upp allt sem var í borðinu. Þegar ég kom að kjötborðinu þá var verið að handleika risastórt nautainnralærisstykki. þær létu skera það í tvennt. „Geturðu ekki pakkað því inn í lofttæmdar umbúðir?“ Jú, jú ekkert mál. Þegar afgreiðslumaðurinn (bara einn að afgreiða) kom til baka með stykkin í einum lofttæmdum poka þá: „Æi, ég vildi fá þetta í sitt hvorum pokanum!“ Afgreiðslumaðurinn, sem var nota bene mjög þolinmóður bjargaði því við (á meðan litu þær heilt parmaskinkulæri girndaraugum). Síðan ráku þær augun í nautafile, það var keypt líka og eitthvað annað nautastykki líka. Fjögur laxaflök fuku líka í kerruna.

Ég var farinn að hugsa um að ég hefði átt að fara frekar í Nóatún, þá loksins voru þær búnar að ljúka sér af í kjötborðinu. Þá var ég næstur og bað um 150 g af nautagúllasi. Það var ekki til! Ég fór næstum því að gráta. En kjötmeistarinn reddaði þessu í snatri. Tók eina nautastykkið, sem þær skildu eftir (höfðu örugglega ekki séð það), sneiddi smá flís af og saxaði niður í gúllas.

Núna erum við nýbúin að gæða okkur á bólunesu Ekki slæmt, frekar en endranær.

Auglýsingar

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.