Strč prst skrz krk

2008-08-13

Rákum augun í

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:59

mann með myndavél í fyrradag, sem var að taka myndir húsi ská móti hjá okkur í gríð og erg. Við vorum að flýta okkur (á leið í kistulagningu) þannig að við spáðum nú ekki mikið í þetta. Okkur fannst samt sem áður undarlegt að einhver væri að taka myndir af því húsi; ekkert ósnoturt steinhús en mjög venjulegt.

Komum svo til baka svona þremur korterum eða klukkutíma síðar. Þá var sami maður enn á sömu slóðum myndandi eins og lífið lægi við. Nú var forvitni okkar vakin fyrir alvöru, þannig að við gáfum okkur á tal við hann. Þá kom í ljós að hann var á vegum byggingafulltrúa að taka út húseignir við Njálsgötu með það fyrir augum að ýta við fólki að sinna viðhaldi ef því er verulega ábótavant eins og var gert á Laugaveginum og Grettisgötu í vor við mismikla hrifningu húseigenda.

Ég væri til í að sjá athugasemdablaðið hjá úttektarmanninum yfir hjallinn, sem er á bak við hjá okkur. Hús, sem hefur nánast ekkert viðhald hlotið síðan við fluttum hingað fyrir 13 árum og er að grotna niður.

Að sama skapi yrði ég mjög svekktur ef við fengjum einhverjar athugasemdir fyrir okkar hús.

Litagleði í Lóni

Filed under: Fjölskyldan,Myndir — Jón Lárus @ 23:02

Í göngutúr, sem var farinn í Hvannagil í Lóni gat að líta landslag í öllum regnbogans litum. Hildigunnur var nú búin að birta eitthvað af myndum úr göngutúrnum hér. Ég stenst samt ekki mátið að bæta nokkrum við. Þetta landslag þarna er engu líkt.

Lækur endar
Lækur endar

Rauðleitar skriður
Rauðar skriður

Gráar skriður
Gráar skriður

Svartur klettur
Svartur klettur

Lækurinn rétt áður en hann hverfur í skriðuna
Lækurinn

Innarlega í gilinu
Innarlega i gilinu

Rákumst á þetta fyrirbæri

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:40

á Höfn í Hornafirði.

Jesúrútan

Allt gert til að reyna að bjarga einhverjum glötuðum sálum. Þarna var spilað Jesúpopp eins og það gerist verst! Muzakkið maður minn. Því miður (eða kannski sem betur fer) þá var myndbandið, sem við tókum ekki nothæft fyrir vindgnauði.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.