Strč prst skrz krk

2008-08-19

Namm

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:09

sveppapastað, sem er fastur liður þegar við förum fyrst í sveppamó (nema núna þetta er annað skiptið, sem við förum) er ekkert smá gott. Þetta er einn af þessum árstíðabundnu réttum, sem við gerum. Rétt eins og rifskjúklingurinn, lifur stroganoff, grænkálsrísotto (vorum með það í fyrradag) og sólberjabaka frá Elsass.

Ég er svo að hugsa um að prófa nýja uppskrift með sólberjunum að þessu sinni, fundin í dönsku kerlingarblaði (alveg róleg ég geri Elsassbökuna líka).

Ef einhver hefur áhuga þá er uppskriftin á þessa leið:

Sólberjasúkkulaðikaka

Dótið:
150 g dökkt súkkulaði
150 g smjör (mjúkt)
200 g sykur
2 egg
4 dl hveiti
2 tsk. lyftiduft!
1/2 l rjómi
250 g sólber
4 eggjahvítur
170 g sykur í viðbót
7 matarlímsblöð

Aðferðin:
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði eða í örranum (ég nota alltaf örrann núorðið). Þeytið saman smjör og sykur þangað til ljóst, bætið eggjunum saman við og þeytið áfram. Blandið saman hveiti og lyftidufti og hrærið saman við ásamt bráðnu súkkulaði. Skellið deiginu í 22 cm spennukökuform (ekkert annað dugir) og bakið við 200° í 20 mínútur. Leyfið henni svo að kólna í rólegheitunum undir röku stykki. Á meðan má þeyta rjómann og mauka sólberin og blanda síðan saman. Nú er komið að því að leggja matarlímsblöðin í bleyti og síðan bræða þau (nota venjulega vatnsbaðið hér). Þegar bráðin eru þau þeytt saman við sólberjarjómann. Þessu næst eru eggjahvíturnar stífþeyttar ásamt afgangssykrinum og hrært varlega saman við sólberjarjómann. Kakan er skorin í tvennt, rjóminn settur á milli. Kælt í a.m.k. tvo tíma. Þeir sem eru með skreytidellu geta svo brætt hvítt súkkulaði og gert eitthvað fallegt (eða ljótt) mynstur ofan á kökuna. Það gerir hins vegar örugglega ekkert fyrir bragðið.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.