Við tókum upp þann sið að elda hafragraut í morgunmat til skiptis við jógúrt og morgunkorn núna í byrjun vikunnar. Þetta er nú kostur, sem ég ólst upp við. Hafragrautur hvern einasta morgun alla virka daga. Ég hélt nú satt að segja að ég væri búinn með hafragrautskvótann. Svo kom í ljós að hafragrauturinn er bara fínn. Ekkert vandamál með krakkana, þeim finnst þetta fínt. Finnur bað meira að segja í morgun um hafragraut frekar en kornfleks. Svo spillir ekki fyrir að hver skammtur kostar innan við 15 krónur.
2008-10-31
Höfuðlaus her
Við í deildinni vorum alveg á tauginni í dag. Síðasti dagur mánaðar, efnahagsástandið og svo vorum við boðaðir á tvo fundi síðdegis. Fyrst með deildarstjóranum og svo með fjármálastjóra fyrirtækisins. Mættum á fyrri fundinn með deildarstjóranum með smá hnút í maganum. Þá kom í ljós að honum hafði verið sagt upp. Frekar óvænt. Seinni fundurinn var síðan bara til að róa okkur. Taugatrekkjandi.
2008-10-29
Dósatónlist
Var neyddur til að hlusta á ca. hálftíma af dósatónlist áðan. Við vorum að fá okkur síma, net og sjónvarp í gegnum ljósleiðara. Besta mál, nema sjónvarpið kom ekki af sjálfu sér. Þannig að ég hringdi í 1414 til að fá aðstoð. Beið og beið og beið og beið. Enginn þjónustufulltrúi laus. Á meðan var dembt yfir mig dósatónlist í stríðum straumum. Elvis venjulega er alveg nógu slæmur en niðursoðinn! Fékk svo eftir langa mæðu samband við þjónustufulltrúa, sem breytti eitthvað stillingum á uppsetningunni þ.a. sjónvarpið datt inn. Sit svo hér og er að reyna að jafna mig eftir þessa lífsreynslu.
2008-10-23
Búðaráp
Skaust út í Bónus í gær eftir vinnu. Vantaði eitthvað smálegt, meðal annars ab-mjólk, smjör og mjólk. Ég var dálítið seinn fyrir þ.a. þegar ég kom í Bónus þá var bara ekkert til. Ab-mjólkin búin. Smjörið búið. Var að hugsa um að kaupa egg, gerði það samt ekki því ég hafði ekki athugað hvernig eggjastaðan væri. Rölti svo heim, henti innkaupapokunum inn og skaust út í Krambúð og keypti Ab-mjólk.
Kom svo heim og byrjaði á kartöflubökunni, sem átti að vera í matinn. Náði í hveitið, opnaði ísskápinn til að taka út smjörið. Þá var bara pínulítil smjörklípa til, ekki nándar nærri nóg fyrir deiggerð. Ég missti út úr mér eitt bölv og svo smá ragn. Skaust síðan út í Krambúð aftur til að kaupa smjör. Kom heim aftur og ætlaði að halda áfram með deigið. Blandaði saman hveiti, salti og smjöri. Síðan kom smá skvetta af ediki og eitt egg. Ég opnaði ísskápinn til að sækja egg. Öll búin. Ég þurfti því að hlaupa út í Krambúð í þriðja skipti til að geta klárað matargerðina.
Pottþétt að ég les uppskriftina áður en ég hendist af stað út í búð næst.
Snæfríður?
Ekki smá flott snjókona (maður getur varla kallað hana snjókerlingu) á litla róló hérna á bak við hjá okkur, sem ég rakst á í kvöld. Hljóp inn, sótti myndavélina og smellti af nokkrum myndum.
Kæmi mér ekki á óvart þótt höfundurinn væri listakonan í bakhúsinu, sem gerði Hrímfaxa sl. vetur.
2008-10-21
Hvernig er það annars
með þessa handónýtu fjölmiðla hérna. Hvenær ætli þeir fari nú að koma með kröfu um að topparnir í SÍ, FME og svo auðvitað ríkisstjórnin taki ábyrgð á ástandinu hérna. Náttúrlega allt of seint en að verðlauna þau fyrir 2Mkr. reikning á hvert mannsbarn í landinu með áframhaldandi setu er fráleitt!
Ég hef nú ekki skoðað lagabálkinn um landráð nema lauslega en ég held að það mætti alveg taka hann í notkun við þessar aðstæður. Veit ekki hvort þetta lið nennti ekki að vinna vinnuna sína eða var of heimskt til þess. Mér er í rauninni sama. Það er náttúrlega engin afsökun að vera vanhæfur.
Byrjum semsagt á lið c) í aðgerðaáætluninni (reka Davíð og hina tvo vitleysingana í SÍ). Þó þeir séu kannski ekki eins vanhæfir þá hafa þeir kóað með honum. FME og stjórnin má svo koma á eftir.
2008-10-19
Aldeilis búið
að vera útstáelsi á okkur nú um helgina. Vorum með matarboð á föstudaginn. Buðum Hallveigu, Jóni, Óla, Kristínu og Kristjáni Óla. Mjög skemmtilegt kvöld.
Fórum svo á mótmælafundinn á Austurvelli í gær. Ágætis ræður en hræðileg músíkatriði á milli. Verður líklega refsing fyrir Dabba þegar hann hættir. Mogginn dró síðan eins og hann gat úr fjöldanum, sem mætti. Um kvöldið var deildin mín með míní árshátíð í stað þeirrar, sem var frestað. Við mætt þar. Grillað lamb í matinn. Góður matur og fín stemmning í partíinu. Við entumst nú samt ekki nema rétt til miðnættis.
Fórum svo í kvöld í óperuna á Cavalleria rusticana og I pagliacci. Hildigunnur skrifar meira um hana hér. Fín sýning, sérstaklega eftir hlé (I pagliacci).
Maður er bara dauðþreyttur eftir þessa annasömu helgi.
2008-10-17
Tölfræði
í WordPress er óxla flott. Miklu flottari en í blogspot, þar sem ég var með síðu áður. Fyrir nokkrum dögum uppgötvaði ég svo atriði, sem ég hafði ekki haft hugmynd um áður.
Ég hafði séð á aðaltölfræðisíðunni upplýsingar um þrjár færslur, sem höfðu verið mest skoðaðar frá upphafi. Mig langaði að vita meira. Auðvitað kom svo í ljós að maður gat ferðast frá þeirri síðu og séð upplýsingar um nánast allar færslur frá upphafi.
Svaaaaalt! Ég tölfræðinörd? Varla.
Basil tré
Ég er ekki viss um að við höfum nokkurn tímann áður átt aðra eins basilplöntu eins og þessa:
Keyptum hana í ágúst minnir mig og svo hefur hún bara vaxið og vaxið. Höfum engan veginn undan að nota framleiðsluna.
2008-10-13
MH sollurinn
Fífa var nú ekki búin að vera lengi í MH þegar hún var farin að drekka kaffi. Tók svona hálfan mánuð eða þrjár vikur.
Ég var búinn að taka eftir tómum kaffimálum einu sinni eða tvisvar heima en var ekkert búinn að tengja þau við Fífu. Hélt bara að Hallveig eða einhver annar kaffidrykkjumaður hefði komið í heimsókn. Svo var það einhvern tímann um daginn að hún þurfti að skrifa ritgerð eða vinna eitthvað verkefni og var að talsvert frameftir. Þá kom hún og spurði hvort ég væri til í að útbúa kaffi fyrir hana. Það var náttúrlega alveg sjálfsagt.
Mér fannst þetta annars svolítið spaugilegt því í gegnum tíðina hef ég nokkrum sinnum boðið henni að smakka á kaffi hjá mér og fram að þessu hafði alltaf verið fussað og sveiað yfir því.
2008-10-11
Við Hildigunnur
skutluðum Freyju í kammerhóp og sellótíma í morgun. Á leiðinni til baka, upp Klapparstíginn, kom bíll á móti okkur frá Laugaveginum. Ökumaðurinn áttaði sig, hafði ætlað að beygja upp. Var svo óratíma að snúa við í staðinn fyrir að fara aðeins áfram eftir Laugaveginum og svo upp Vegamótastíginn.
Við keyrðum áfram og þá brunaði einn af Grettisgötunni, yfir Klapparstíginn og inn á Grettisgötuna hinum meginn á móti einstefnu. Veit ekki hvort hann ætlaði inn á bílastæðin á bak við Skífuna og nennti ekki að taka smá krók. Í morgun skutlaði ég svo Freyju í sellóhóptíma og mætti einu torfærutrölli á öfugum vegarhelmingi á Höfðatúninu.
Bíð svo bara eftir því að Hildigunnur rekist á eitthvað svona tilfelli þegar hún sækir Freyju.
2008-10-7
Finnur og Arkímedes
Finnur spurði mig í gær hvað evreka þýddi. Ég sagðist halda að það þýddi: Ég hef fundið það, eða eitthvað í þá áttina.
Sagði honum svo söguna af því þegar Arkímedes uppgötvaði uppdrifið. Samkvæmt henni þá hafði hann hoppað nakinn upp úr baðinu og út á götu æpandi: Evreka, evreka!
Ég vissi ekki hvert Finnur ætlaði, honum fannst þetta svo fyndið. Hann lagðist á gólfið og veinaði af hlátri.
2008-10-5
Nú verður maður
að henda smokkunum. Benni XVI. segir að þeir séu vondir. Maður verður víst að hlýða því. O tempora…
Úrelt dót
Erum að taka til í bókaskápnum í skrifstofunni. Þar kennir ýmissa grasa. Meðal annars rákumst við á þessa bók.
Gefin út 1992 eða 1993. Þegar ég tók hana út úr skápnum þá fann ég að var eitthvað hart á bakspjaldinu. Opnaði bókina. Þar var þetta:
Við Hildigunnur sprungum bæði úr hlátri. Fífa skildi ekkert hvað væri svona fyndið og kom að tékka á þessu. Henni fannst þetta líka fyndið en sagði svo að henni fyndist hún eldgömul, jafngömul og þetta dót.
2008-10-3
Fann svo tvo
diska með Ninu Hagen í KaDeWe í Berlín. Fyrstu tvær plöturnar með henni (Nina Hagen band og Unbehagen). Átti þetta einu sinni á spólu en hún er búin að vera týnd í mörg ár. Ég er búinn að vera að svipast um eftir þessu lengi en hafði ekki fundið fram að þessu.
2008-10-2
Sýklahræðsla
eða hvað?
Fór í Landsbankann um daginn. Þurfti að leggja inn handvirka peninga. Heyrði þá eftirfarandi orðaskipti úr næsta bás:
Viðskiptavinur: „Þetta er nú annars ljóti sóðaskapurinn með þessa penna!“
Gjaldkeri: „?“
V: „Já, sem maður kvittar með. Það koma allir við þetta!“
G: „Það er nú varla verra heldur en þessir eða hvað?“ Tók upp venjulegan penna og sýndi viðskiptavininum hann.
V: „Maður er náttúrlega með sinn eigin penna!“
G: „?!“
Frekar spes.
Snjór!
Nei hættið nú alveg. Bara farið að snjóa. Og ekkert smá. Allt orðið hvítt. Lítur út fyrir að Einar Sveinbjörns. hafi haft rétt fyrir sér að þetta árið yrði ekkert haust. Sumar út september og svo bara vetur í október.