Strč prst skrz krk

2008-11-29

Maraþonlaufabrauðssteiking

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 22:10

Föndurdagur Austurbæjarskóla er alltaf haldinn um þetta leyti ársins. Þarna er hægt að gera alls konar hluti. Skreyta piparkökur, gera jólakort, skera út laufabrauð svo fátt eitt sé nefnt. Ég lét plata mig til að taka að mér eina vakt í laufabrauðssteikingu.

Annað skiptið á ævinni, sem ég læt hafa mig út í svona nokkuð. Ætli að fyrra skiptið hafi ekki verið fyrir fjórum árum, þegar Fífa var í sjöunda bekk. Þá var ég alveg grænn og vissi ekki hvað sneri upp né niður á laufabrauði. Var aðeins vissari núna um hvernig ætti að fara að þessu þótt maður væri svolítið smeykur þegar einhverjir komu með virkilega vel útskorin brauð til steikingar.

Steikingin gekk annars bara nokkuð vel. Það var alveg brjálað að gera. Frá því ég mætti á mína vakt þá var biðröð með laufabrauð í steikingu allan tímann nema rétt í lokin. Ég þurfti að taka aukavakt því sá eða sú, sem átti að taka við af mér lét ekki sjá sig. Þessir tveir tímar í laufabrauðssteikingunni flugu samt áfram. Fannst ég rétt að vera að byrja þegar seinni vaktin kláraðist og kominn tími á að fara á mótmælafund.

2008-11-23

Leiðsluflækjur

Filed under: Græjur,Húsið — Jón Lárus @ 23:57

Frá því að við tókum inn net, síma og sjónvarp í gegnum ljósleiðara þá er ég búinn að vera á kafi í að ganga frá leiðslum og snúrum út um alla íbúð. Núna í dag kláraðist síðasti áfangi af þremur.
Fyrsti áfangi var að tengja allt saman. Síðan þurfti að ganga almennilega frá öllum þessum köplum og snúrum. Það var gert í tveimur áföngum. Sá síðari kláraðist í dag. Mjög ánægður með að þetta er búið.

Ái

Filed under: Íslenska,Þríþraut,Formúla 1,Ruglið — Jón Lárus @ 01:07

Mbl.is þarf varla á prófarkalesurum að halda meðan þeir eru með skrifara á borð við þennan, eða hvað?

„Webber slasaðist er hann varð fyrir bíl í fjölþrautarkeppni í Tasmaníu í dag, en sjálfur reið hann torfæruhjóli. Brotnaði bein í hægri löpp og gekkst hann undir aðgerð vegna þess í dag. Komið var stálpinna fyrir í löppinni til að styðja við beinið meðan það gróir saman.“

Það þarf einbeittan brotavilja til að hnoða svona ósköpum saman.

Ósköpin eru ekki búin:

„Hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahús og fyrstu fregnir af slysinu voru á þá lund að hann hefði slasast alvarlega og hlotið beinbrot hér og þar um líkanna.

Síðar kom í ljós, að einungis brotnaði eitt bein í hægri löpp. „Mark er hress og að beinbrotinu frátöldu er hann vel á sig kominn.““

Hvar ætli mbl.is hafi fundið þennan snilling?

2008-11-21

Góð samlíking

Filed under: Ruglið,Stjórnmál — Jón Lárus @ 23:25

Man ekki hvar ég las eða heyrði þessa samlíkingu:

Ástandið núna er eins og við höfum verið farþegar í rútu með fullum bílstjóra. Rútunni var ekið hratt og endaði að lokum úti í móa. Eftir útafaksturinn kemur sjúkrabíll til að flytja þá slösuðu á spítala. Þá vill rútubílstjórinn endilega sjá um þann akstur líka.

Ég veit ekki með ykkur en ég hef ekki áhuga.

W

Filed under: Ýmislegt,Myndir — Jón Lárus @ 07:59

Mig langar ekki til að sjá þá mynd. Er búinn að fylgjast með henni síðastliðin 8 ár og fannst hún hreint ekki skemmtileg.

2008-11-19

Farsumagrurugl

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:57

Fyrir rétt rúmu ári skrifaði ég færslu um farsumagru (sikileyskan kjötrétt), sem við höfðum haft í matarboði. Síðan þá koma jafnaðarlega svona ein til fjórar flettingar í mánuði á farsumagrufærsluna. Þangað til í fyrradag. Þá komu allt í einu 12 eða 13 flettingar sama daginn. Magnað.

2008-11-17

Karl

Filed under: Afmæli — Jón Lárus @ 22:31

faðir minn á afmæli á morgun. Ekkert smá afmæli heldur 80 ára. Til hamingju með það!

2008-11-13

Næturbrölt

Filed under: Fjölskyldan,Ruglið — Jón Lárus @ 22:19

Rumskaði í morgun áður en klukkan hringdi. Heyrði að Finnur var kominn upp og greinilega að leika sér í tölvunni. Ég hugsaði fyrst að hann hefði bara vaknað snemma og væri kominn upp með Fífu. Ákvað samt að teygja mig yfir Hildigunni og athuga hvað klukkan væri. 5:10! Drengurinn var sóttur snimmhendis og drifinn aftur í bólið. Var svo að sjálfsögðu alveg eins og draugur þegar við vöknuðum aftur á réttum tíma.

2008-11-11

Gamlir hundar

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:16

Heyrði svo í 10 fréttum sjónvarpsins að neðan. Þar er í alvörunni ennþá verið að þylja upp gengi úrvalsvísitölunnar og hvaða fyrirtæki hækkuðu og lækkuðu í dag. Ég hélt nú að væri búið að slá svona hallærislegar fréttir (ef fréttir skyldi kalla) af.

Var bara að spá

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:13

Hvernig ætli það sé með stofurnar í Versló, sem hétu eftir Landsbankanum, Glitni, Kaupþingi, FL group svo fáein séu nefnd. Ætli þeim hafi bara verið lokað eftir atburði síðustu vikna?

2008-11-8

Testurtun

Filed under: Stjórnmál — Jón Lárus @ 12:17

Hildigunnur er að skipuleggja mótmæli við meðferð Breta á íslensku þjóðinni. Allir að mæta niður á höfn með tepoka og sturta úr honum í sjóinn kl. 14:40 á eftir.

Síðan er hægt að fara á Austurvöll og mótmæla aumingjaskap og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda.

Vi har styr på det hele

Filed under: Ruglið,Stjórnmál — Jón Lárus @ 11:36

Í gær tók nú steininn úr þegar blessaðir ráðherrarnir okkar höfðu ekki hugmynd um að Pólverjalánið væri komið til sögunnar. Örugg og traust stjórn? Einmitt.

Helgarbrauðið

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 11:09

að þessu sinni er rúgbrauð. Ekki kannski ódýrasta brauð, sem maður bakar en hrikalega gott. Sérstaklega rjúkandi heitt út úr ofninum.

Við notum eftirfarandi uppskrift, sem gefur 6 brauð ef bökuð í mjólkurfernum.

600 g heilhveiti
500 g rúgmjöl
300 g hveiti
2 msk salt
2 msk matarsódi
1-1,2 l súrmjólk eða ab-mjólk
5 dl síróp

Þurrefnunum blandað saman. Súrmjólkinni og sírópinu bætt út í og hrært vel saman. Ég nota handþeytara með deigkrókum, virkar mjög vel. Deiginu síðan skipt sem jafnast í bökunarílátið/in (mjólkurfernur í okkar tilviki) og bakað í 11-12 tíma við 100-110°C.

Hver myndi ekki vilja

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 11:01

byrja morguninn með ristuðu brauði með yin og yang merki? Eða þá Electrolux merkinu?
getur draumurinn ræst með þessu byltingarkennda tæki.

2008-11-5

Sorpu

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 22:43

tékk II.

Nú eru komnar niðurstöður í sorpvigtunarkönnuninni okkar. Vigtuðum allt það sorp sem fór í tunnu frá okkur í tvo mánuði. Niðurstaðan er að við framleiðum rétt innan við 1 kíló af sorpi á dag (nákvæmlega 880 g). Ég er ekki ósáttur við þetta þó að við gætum gert betur með því að jarðgera lífræna úrganginn. Þegar við tökum það skref þá fellur talan niður í 4-500 g á dag.

666!

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:23

Síðasta færsla var númer 666 frá upphafi! Vona að það hafi ekki slæm áhrif.

Hringvegurinn

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 21:55

Náði í dag að hjóla samanlagt á árinu, sem samsvarar lengd hringvegarins á leið til og frá vinnu (1339 km skv. upplýsingum Vegagerðarinnar). Hef ekki náð þessu áður síðan ég byrjaði að hjóla. Gegt ánægður með þetta.

2008-11-3

Potaði

Filed under: blóm — Jón Lárus @ 23:36

niður jólastjörnugræðlingi núna um helgina. Græðlingurinn varð til í vor en svo hefur farist fyrir að koma honum í mold þangað til núna. Svona lítur greyið litla út:

Jólastjörnugræðlingur

Ósköp smávaxinn miðað við móðurplöntuna, sem er örugglega orðin sex eða sjö ára gömul.

2008-11-2

Filed under: Formúla 1 — Jón Lárus @ 23:56

Þvílík spenna í síðasta 2008 formúlu 1 kappakstrinum í dag. Staðan var þannig að minn maður, Lewis Hamilton þurfti að enda í 5. sæti eða hærra til að tryggja sér titilinn. Sá eini, sem átti möguleika á titlinumu fyrir utan hann, Massa var fremstur á ráslínu. Rétt áður en átti að ræsa keppnina skall á hellidemba þannig að þurfti að skipta um dekk á öllum bílunum. Þegar loksins var hægt að hefja kappaksturinn þá gekk allt (eða næstum því allt) að óskum. Rigningin stóð stutt og þegar brautin tók að þorna var Hamilton 4.-5. sæti. Svo þegar svona 5 hringir voru eftir þá byrjaði að rigna aftur. Allir keppendur flykktust inn á viðgerðasvæði til að skipta um dekk nema Glock, annar Toyota ökumaðurinn. Þetta þýddi að Hamilton var orðinn 5. og svo skömmu síðar þegar hann missti Vettel fram úr sér 6. sem hefði þýtt að Massa hefði orðið meistari. Sem betur fer náði Hamilton að skreiðast fram úr Glock í næstsíðustu beygju. Niðurstaðan: Hamilton meistari, einu stigi á undan Massa. Þetta var ekki glæsilegt en verðskuldað samt. Veit ekki til þess að Það hafi staðið svona glöggt nokkurn tímann áður í næstum 60 ára sögu F1.

Ósamkvæmni

Filed under: Stjórnmál — Jón Lárus @ 00:16

Tvær fréttir á textavarpi.is núna, sem fjalla um mótmælin á Austurvelli í gær.  Í fyrri er talað um allt að 1000 manns. Hljóðar þannig:

Um þúsund mótmælendur á Austurvelli
Hátt í eittþúsund manns mótmæltu á
Austurvelli í dag. Þess er krafist
meðal annars að skipt verði um stjórn í
Seðlabanka Íslands; að ríkisstjórnin
fari frá og að boðað verði til
kosninga. Fólkið safnaðist saman á
Hlemmi og gekk þaðan fylktu liði niður
Laugaveg.

Á Austurvelli voru flutt ávörp, ljóð og
hvatningarorð. Flutningabílstjórar
lögðu bílum sínum fyrir framan
Alþingishúsið og flautuðu. Allt fór
friðsamlega fram.

en í þeirri síðari er talað um að þarna hafi verið 1000-1500 manns. Hljóðar svona:

Rúmlega 1000 mótmæltu á Austurvelli
Á milli 1000-1500 manns mótmæltu á
Austurvelli í dag. Mótmælendur
kröfðust meðal annars að skipt verði um
stjórn í Seðlabanka Íslands en einnig
að ríkisstjórnin víki og efnt verði til
kosninga. Fólkið safnaðist saman á
Hlemmi og gekk svo fylktu liði niður
Laugaveg. Á Austurvelli voru flutt
ávörp, ljóð og hvatningarorð.

Það var hiti í mönnum á Austurvelli í
dag. Fólk úr ýmsum áttum hefur staðið
fyrir mótmælum nú þrjár helgar í röð.
Sífellt fleiri bætast í hópinn og nú
voru hátt í þúsund manns sem mættu.

Sú frétt er síðan ósamkvæm sjálfri sér því þar er síðast talað um allt að 1000 manns.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.