Strč prst skrz krk

2008-12-31

Undirbúningur

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 17:31

undir stærsta matarboð ársins gengur vel. Lítur svei mér þá út fyrir að þetta hafist. Við vorum líka forsjál og gengum frá forrétti og eftirrétti í gær, svona að mestu leyti.

Matseðillinn lítur annars svona út:

Kavíar á eggjabeði með blinis.

Kalkúni með fyllingunni, sem getur ekki klikkað. Meðlæti: Parmakartöflustappa, heimagert rauðkál, waldorfsalat og maískorn.

Kaffi crème brûlée.

Gengur vonandi allt upp.

2008-12-29

Finnur nákvæmi

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 18:15

Finnur fékk að gista hjá ömmu sinni og afa eftir boðið á jóladag. Finnur og amma hans voru búin að plana að fara í sund morguninn eftir og guttinn hlakkaði ógurlega til. Svo gerðist það um nóttina að afi hans veiktist og þurfti að fara upp á spítala (ekkert alvarlegt, sem betur fer). Morguninn eftir sagði amma Finns við hann: „Þú verður líklega að fá Bjössa (bróður minn) til að fara með þér í sund því afi þinn er uppi á spítala.“ Finnur: „Ekkert mál amma, ég tala bara við Bjössa.“ Síðan fór hann inn til Bjössa og sagði: „Góðan daginn Bjössi, nú er klukkan 9:42 og kominn dagur. Geturðu komið með mér í sund?“ Bjössi, alveg grútmyglaður: „Er ekki í lagi að ég sofi klukkutíma í viðbót?“ Finnur, jú, jú ekkert mál.

Nákvæmlega klukkutíma síðar var Bjössi vakinn aftur. Maður getur alveg ímyndað sér hvernig það hefur hljómað.

Topp 9 vínin 2008

Filed under: Vín — Jón Lárus @ 16:11

Fyrsti listinn sem ég tek saman yfir bestu vín smökkuð á árinu. Þessar upplýsingar er orðið auðvelt að nálgast eftir að ég tengdist CellarTracker.

Louis Roederer Champagne Cristal Brut, 1996, Frakkland. 95
Lucien Le Moine Pernand-Vergelesses 1er Cru Sous Frétille, 2004, Frakkland. 94
Kay Brothers Shiraz Hillside Amery Vineyards, 2002, Ástralía. 93
Perrier-Jouët Champagne Belle Epoque, 1995, Frakkland. 93
Château Margaux, 1997, Frakkland. 93
Château Lascombes, 2003, Frakkland. 93
d’Arenberg Shiraz the Dead Arm, 2004, Ástralía. 93
Brown Brothers Cabernet Sauvignon Patricia, 2002, Ástralía. 92
Veuve Clicquot Champagne Brut Rosé Vintage, 2002, Frakkland. 91

Alls sex Frakkar og þrír Ástralir.

2008-12-23

Tek hérna smá forskot á sæluna

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:59

Gleðileg jól

Kæru lesendur.

Jibbí

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 00:15

ég fæ að fara á bílnum í vinnuna á morgun…

2008-12-21

Við erum búin

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:42

að vera þvílíkt dugleg um helgina. Sérstaklega þó í dag þar sem náðist að rúlla upp hverju verkefninu á fætur öðru. Hildigunnur listar þetta allt saman samviskusamlega upp hérna.

Skaut mig samt pínulítið í fótinn í einu verkefninu. Það var farið að marra í hjörunum á einni hurðinni hérna. Loksins pirraði það mig nógu mikið til að ég fann til maskínuolíu og smurði kvikindið. Virkaði fínt. Hætti alveg að marra. Hins vegar fellur hún alltaf að stöfum í staðinn. Ekki viss um að mér finnist það minna pirrandi.

Kann einhver húsráð við slíkum vandræðum?

Það er ekki smá

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:38

sem er orðið auðveldara að hjóla á veturna hér í bæ. Stígarnir eru ruddir núna og sandbornir um leið og kemur snjókorn úr lofti. Einu vandræðin eru þegar maður þarf að fara út af stígnum og hjóla út á götu eða á gangstéttum. Þá getur maður lent í erfiðum aðstæðum. Hef haldið það út fram að þessu að hjóla í vinnuna. Strækaði samt á það á föstudaginn, því þá hafði bæst við mikill snjór og ég sá fram á að færið gæti orðið slæmt.

2008-12-17

Stelpurnar

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 21:29

fengu niðurstöður úr prófunum sínum í dag. Fífa í MH og Freyja úr samræmdu prófunum. Þær stóðu sig báðar ljómandi vel, eins og þeirra er von og vísa.

Freyja fékk 8,5 bæði í íslensku og stærðfræði. Bætti sig verulega í stærðfræðinni. Fífu gekk líka mjög vel. Held að meðaleinkunnin hafi verið 9. Ekki illa af sér vikið. Sérstaklega var íslensku einkunnin hennar flott. Fékk 9, þar sem 60% nemenda féllu!

Ekkert smá stoltur af þeim báðum.

2008-12-14

Settum upp

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 21:36

stóru útiseríuna okkar í dag. Keyptum hana á útsölu eftir jólin í fyrra þannig að við höfðum ekki sett hana upp áður. Kemur bara ekki sem verst út:

Nýja jólaserian.

Tilraunabrauð

Filed under: Boltinn,Matur — Jón Lárus @ 16:04

Gerðum núna um helgina tilraunabrauð. Rákumst á mjög spennandi uppskrift að brauði fyrir nokkru, sem við ákváðum að prófa. Brauðið þarf ekki að hnoða en í staðinn er það látið gerjast í allt að sólarhring. Síðan brotið saman einu sinni til tvisvar, látið hefast í 2 tíma og svo bakað í leir eða járnpotti.

Þetta tókst hreint ágætlega. Brauðið er létt í sér og með stökka skorpu (nokkuð, sem mér finnst yfirleitt vanta í heimabökuð hveitibrauð). Gæti samt hafa hjálpað að við notuðum Pillsbury’s hveiti. Hins vegar klárt að við notum þessa aðferð aftur.

2008-12-13

Við erum alltaf að

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:11

gera ýmiss konar kannanir. Undanfarin tvö ár þá höfum við tekið saman öll matarinnkaup á tveggja til þriggja mánaða fresti. Ekkert flókið. Tökum bara alla strimla í matvörubúðum og hendum svo inn í excel. Við byrjuðum á þessu u.þ.b. hálfu ári áður en matarskatturinn var lækkaður. Við vildum reyna að sjá hvort lækkunin á honum hefði einhver áhrif. Svo höfum við haldið þessu áfram. Allavega hér kemur listinn:

okt. ’06 92.139
jan. ’07 83.906
mars ’07 77.295
maí ’07 94.508
ág. ’07 88.440
okt. ’07 100.244
jan. ’08 81.112
apr. ’08 99.909
ág. ’08 119.305
nóv. ’08 92.560

Þetta segir kannski ekki voða mikið en þangað til í byrjun bankakreppu þá leyfðum við okkur bara ýmislegt í mat. Síðasta mælingin (nóv. ’08) er hins vegar niðurstaða eftir mjög mikinn niðurskurð á matarútgjöldum. Hef svo heldur ekki hugmynd um hvort þetta er mikið eða lítið miðað við matarútgjöld almennt. Væri gaman að fá komment á það.

2008-12-11

Bankabasl

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:30

Ég þurfti að fara í banka í gær. Hafði fengið greitt með ávísun og þurfti að skipta henni. Skrapp í hádeginu. Þegar ég kom í bankann var verið að afgreiða nr. 104, ég fékk nr. 121. Sá að ég hefði örugglega tíma til að skjótast í Bónus við hliðina. Gerði það. Var meira að segja ekkert allt of fljótur og var svolítið smeykur um að ég væri búinn að missa af mínu númeri. Aldeilis ekki. Þegar ég kom aftur inn í bankann var verið að afgreiða nr. 111. Ég sá þá að ég gæti örugglega skotist út í hraðbanka til að taka út smápening á meðan ég biði eftir afgreiðslunni. Gerði það og þegar ég kom til baka þá var verið að afgreiða nr. 115. Þurfti svo enn að bíða góða stund þar til röðin kom að mér. Eins gott að þurfa ekki að standa í svona löguðu á hverjum degi.

Átti svo

Filed under: Afmæli — Jón Lárus @ 21:26

þriggja ára bloggafmæli í gær. Ótrúlegt hvað tíminn þýtur áfram.

Hvað er svo málið

Filed under: Ruglið,Stjórnmál — Jón Lárus @ 12:29

með allar þessar fréttir á mbl.is þar sem Göran Persson lætur gamminn geysa um ástandið á klakanum. Þetta er þriðji dagurinn í röð þar sem hann lætur hafa eftir sér að þetta verði erfitt fyrir Íslendinga og byrðarnar eigi eftir að dreifast á alla o.s.frv. o.s.frv. Nýjasta fréttin í seríunni er hér.
Hvernig er það eru Geir og Ingibjörg og Davíð hætt að þora að segja okkur þetta í eigin persónu og láta einhvern Svía um þetta?

2008-12-7

Mahler tónleikar

Filed under: Tónlist — Jón Lárus @ 21:53

Var á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Á efnisskránni Eldur eftir Jórunni Viðar í tilefni af 90 ára afmæli hennar og svo 1. sinfónía Mahlers. Mjög skemmtilegir tónleikar. Svo spillti ekki fyrir að bæði Fífa og Hildigunnur voru að spila með hljómsveitinni. Stóðu sig að sjálfsögðu vel eins og endranær. Takk fyrir mig.

2008-12-5

Það verður ekki

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 19:02

af Mótettukórnum skafið að hann er þungavigtarkór.

2008-12-3

Snigilhraði

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:57

á mér í vinnuna í morgun. Held ég hafi aldrei áður verið eins lengi í vinnuna á hjólinu eins og í morgun (var einhvern tímann í sumar samt álíka lengi í grenjandi slagveðri). Rúmlega hálftíma. Enda stíf austanátt á móti, kalt og myrkur. Fékk síðan næstum fría ferð heim. Ennþá stíf austanátt þ.a. ég fauk mestan hluta leiðarinnar.

Echelon

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 18:38

dagurinn er í dag. Ætti að mælast einhver smá aukin virkni, hvar sem það kerfi er nú statt í heiminum.

2008-12-2

Fífa er að fara

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:04

í stærðfræðipróf í STÆ203 á morgun. Hún bað mig að aðstoða sig við eitt eða tvö atriði, sem hún áttaði sig ekki á. Þá kom í ljós að þarna var um að ræða atriði, sem ég man ekkert eftir að hafa lært á sínum tíma. Reglur um hvernig maður getur fundið mögulegar lausnir á margliðum. Við fundum nú samt út úr þessu saman að lokum.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.