Strč prst skrz krk

2009-01-31

Nördasamtal

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 20:54

Við Hildigunnur vorum í útréttingum í dag. Vorum að keyra milli staða. Mér varð litið á bílklukkuna og sá að hún var 3:14. Hei, Hildigunnur klukkan er pí. Sagði ég. Þá svaraði Hildigunnur: „Hversu nördalegt væri það að mæla sér mót kl. pí stundvíslega?“

Alveg nördalegt…

2009-01-29

Ég var merktur

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 00:00

á flettismettinu í gær eða fyrradag. Einhver, sem ég hef ekki hugmynd um hver er, búinn að taka sig til og setja fjöldann allan af bekkjarmyndum úr Helluskóla inn á snoppuskinnuna. Meðal annars þessa hér.

Class of ’65 geigvænlega flottur á smettiskruddunni eða hvað?

2009-01-23

Það voru svo ekki bara stelpurnar

Filed under: Afmæli,Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 22:48

sem áttu þátt í matargerðinni í dag. Með eftirréttinum (heimagerðum vanilluís) var hnausþykk, dökk súkkulaðisósa, sem Finnur gerði – næstum því hjálparlaust – upp úr nýju súkkulaðibókinni, sem kom út fyrir jólin.

Hann er búinn að stúdera bókina út í ystu æsar og gera tvær uppskriftir úr henni nú þegar. Fleiri, sem hann vill ólmur og uppvægur gera sem fyrst.

En aftur að ísnum og súkkulaðisósunni. Ísinn, snilld eins og endranær, súkkulaðisósan var svo bara til að kóróna réttinn. Ofboðslega góð.

Stelpurnar

Filed under: Afmæli,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 19:59

dekruðu ekkert smá við mig í morgun á bónda og afmælisdaginn minn. Vöktu mig klukkan hálf átta í kanadískar pönnukökur. Ekki slæmt að vera vakinn og fá rjúkandi heita klatta með hlynsírópi í morgunmat.

Deigið í pönnukökurnar hafði verið útbúið með mikilli leynd meðan ég og Freyja skruppum á mótmælin í gærkvöldi (komu sér víst vel þessar auka fimm mínútur sem við ákváðum að vera lengur niðurfrá). Síðan vöknuðu þær eldsnemma til að steikja. Sendu svo Finn niður til að vekja okkur Hildigunni þegar allt var tilbúið. Ég var algerlega grunlaus og áttaði mig fyrst á leið upp stigann þegar ég fann pönnukökuilminn.

Ekkert smá ánægður með þessa krakka, sem við eigum.

2009-01-21

Viðskiptahugmynd!

Filed under: Mótmæli — Jón Lárus @ 22:44

Var að koma heim frá mótmælunum. Fékk þessa fínu viðskiptahugmynd á meðan á þeim stóð. Nú er náttúrlega rétti tíminn til að flytja inn pjáturdollur og dósir af öllum stærðum og gerðum…

Í fyrsta skipti í langan

Filed under: Mótmæli — Jón Lárus @ 00:18

tíma er ég bara nokkuð stoltur af því að vera Íslendingur. Mótmælin í dag voru alvöru. Fór klukkan níu og var fram að miðnætti og það er ennþá allt á fullu. Loksins líka sem ráðamenn verða fyrir einhverjum óþægindum vegna mótmæla. Að þurfa að skríða eftir einhverjum leynigöngum og flýja eins og rottur. Það er lítil reisn yfir því.

Annars var nú heldur ekki mikil reisn yfir starfseminni þar innandyra. Að eitt af þingmálum, sem var lagt fram hafi verið hvort eigi að leyfa sölu á bjór og víni í almennum búðum það er alveg fáránlegt. Eins og ástandið er í dag og eftir rúmlega mánaðar jólafrí.

Þetta var nákvæmlega það sem þurfti. Fyrr en ríkisstjórnin-alþingismenn verða fyrir óþægindum vegna mótmæla þá er lítil von til að nokkuð gerist. Þau þurfa og eiga að vera hrædd við okkur.

2009-01-17

Á mótmælunum

Filed under: Fjölskyldan,Mótmæli — Jón Lárus @ 22:42

í dag þá var Freyja með mér. Hún skildi ekkert í einu mótmælaspjaldinu þar sem stóð xD og svo rauður jaðar og strik þvert yfir. „Pabbi, af hverju er verið að banna þennan broskarl?“ spurði hún. Mér fannst þetta nokkuð gott.

Sjálfstýringin

Filed under: Fjölskyldan,Ruglið — Jón Lárus @ 17:15

getur stundum komið manni í bobba. Eins og í morgun, þegar ég var að sækja Fífu á æfingu í Háteigskirkju. Ég keyrði samviskusamlega í Tónó í Skipholti. Áttaði mig á mistökunum, þegar ég var að koma þar að. Sem betur fer er ekki langt þaðan í Háteigskirkju þannig að Fífa þurfti ekki að bíða lengi.

2009-01-13

Dapurleg könnun

Filed under: Stjórnmál — Jón Lárus @ 23:25

í Fréttablaðinu í dag. Ekki nema 29,5% landsmanna, sem hafa tekið þátt í mótmælum af einhverju tagi vegna ástandsins. Hvar í ósköpunum eru þá hin 70,5 prósentin? Sátt við frammistöðu stjórnvalda kannski? Ég skil þetta ekki.

Fyrsti,

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:10

nei annar inniboltinn (ég gat ekki mætt í fyrsta tímann) eftir áramót var í kvöld. Fínn bolti. En ég er algerlega búinn. Kemur í ljós hvort ég get gengið í fyrramálið. Ekkert víst, sko.

Rakst á óvenjulegan

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:06

fisk, sólkola, í fiskbúðinni við Freyjugötu í gær.

Við höfðum einu sinni eða tvisvar rekist á og keypt þetta kvikindi áður. Sólkoli er afar góður fiskur, líkist rauðsprettu en er jafnvel enn fíngerðari. Það góður að ef ég sé hann þá kaupi ég hann. Ég stóðst náttúrlega ekki freistinguna og hætti við að kaupa karfann, sem ég ætlaði að kaupa og fékk sólkola í staðinn.

Var svo algjört lostæti, steiktur ca. mínútu á hlið með grjónum og salvíusmjöri.

2009-01-11

Okur dauðans

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 11:34

Við Hildigunnur skelltum okkur í Húsasmiðjuna í gær. Ætluðum að athuga með jólaseríur á niðursettu verði og svo króka til að geta hengt hjólin okkar upp í loft niðri í þvottahúsi.

Við fundum jólaseríu á allt í lagi verði og fundum svo krókal, sem mér leist ágætlega á. Gáði samt ekki að því hvað þeir kostuðu. Þegar við vorum búin að gera kaupin fannst mér þetta undarlega dýrt. Skoðaði miðann. Þá kostuðu skrambans krókarnir næstum 900 kr. stykkið! Tveir bognir járnbútar með tveimur götum! Ég hefði búist við svona 100-200 kr. í mesta lagi.

Klárt að þessu verður skilað.

2009-01-7

Sá einn matseðil

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:27

í dag, sem var morandi í stafsetningarvillum. Bæði íslenska og enska útgáfan. Svo sem ekkert einsdæmi. Algengara en ekki að erlenda útgáfan sé vaðandi í stafsetningarvillum. Kannski sjaldgæfara að sú íslenska sé það líka.

Allavega, fór að hugsa um það hvort það væri kannski skilyrði í umsóknarferlinu við að opna veitingastað að vera slappur í stafsetningu.

2009-01-5

Livvagterne

Filed under: Þættir — Jón Lárus @ 19:50

er ný dönsk sería sýnd á DR1. Við Hildigunnur ákváðum að prófa að fylgjast með henni, þar sem DR1 fylgdi með í pakkanum, sem við fengum í kaupbæti, þegar við skiptum öllu yfir á ljósleiðara um daginn. Serían byrjar ágætlega. Annar þáttur sýndur í gær. Líka fínt að þetta eru míníseríur. Tveir og tveir þættir saman. Þá gerir minna til ef maður missir úr þátt.

Maður er nú orðinn pínu ryðgaður í dönskunni en þetta sleppur samt til, nema með einn af þremur aðalleikurunum. Við skiljum ekki nema brot af því, sem hann segir. Hef hann grunaðan um að vera Jóta.

Gæti endað á því að maður svindlaði og notaði textann á textavarpinu.

Sjallaballarnir

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 00:04

eru orðnir hræddir núna. Innstu koppar í búri farnir að tala um nauðsyn á hvítliðahreyfingu. Yrði ekki hissa þótt BB tæki undir þessa skoðun.

2009-01-3

Jólafríið

Filed under: Hlaup — Jón Lárus @ 23:56

var ekki bara sukk og svínarí. Ég tók mig til og var hrikalega duglegur (að mínu áliti a.m.k). að skokka. Held ég hafi tekið samtals 45 km síðan á aðfangadag. Tempó meira að segja ótrúlega gott miðað við árstíma. Tvisvar sinnum 10 km á undir 44 mín. (43:38 og 43:52). Oft sem maður er á 45-47 mín. á þessum árstíma. Veðrið er líka búið að vera mjög hagstætt til útiveru. Vorveður nánast alla daga jólafrísins.

Hversu sorgleg

Filed under: Málið,Ruglið — Jón Lárus @ 00:22

er fyrirsögnin í þessari frétt? Svo er haldið áfram og spínatið flatt út í örþunna filmu. Þetta er það versta, sem ég hef séð lengi.

2009-01-2

Nokkrar myndir

Filed under: Hátíð,Myndir — Jón Lárus @ 21:45

frá Hallgrímstorgi um áramótin.

Flugeldar I

Flugeldar II

Flugeldar III

Þetta var bara nokkuð flott þarna uppfrá. Held nú samt að skothríðin hafi byrjað heldur seinna heldur en oftast áður. Dró líka fyrr úr henni. En um miðnættið þá voru ekkert færri rakettur á lofti heldur en verið hefur undanfarin ár.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.