Strč prst skrz krk

2009-04-11

Páskaeggin

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 19:54

í ár hjá okkur Fífu líta svona út:

Bæði eggin saman.
Bæði eggin.

og svo mitt egg.
Og svo mitt egg.

Gerðum eggin í gær og settum þau svo saman í dag. Lentum í smá basli, því við fundum ekki mótið fyrir fótinn. Eftir mikla, árangurslausa leit, ákváðum við að láta þau bara liggja. Mótið á örugglega eftir að dúkka upp síðar.

Eldavélarbasl

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 18:37

Urðum fyrir því óhappi um daginn að það brotnaði einn takkinn af eldavélinni okkar. Eini takkinn, sem er úr bakelíti (til einangrunar, því ofninn er rafmagnsofn). Við fórum í Kokku þar sem við keyptum vélina og pöntuðum nýjan svona rofa. Við vorum á nálum um hvort stykkið myndi koma fyrir páska (spurningin um hvort við næðum að hafa páskalambið í ofninum). Fengum síðan að vita á miðvikudaginn að rofinn væri kominn. Ég skaust í Kokku til að sækja hann. Þurfti ekki einu sinni að borga neitt fyrir. Búðareigandinn, sem sá um þetta fyrir okkur, sagði að hún hefði sagt að þetta væri ábyrgðarmál og hún vildi því ekki taka neitt fyrir stykkið.

Allavega, um kvöldið var svo reynt að skipta um rofa. Til að komast að honum þá lá beinast við að opna vélina að ofan. Þar voru nokkrar skrúfur sem hægt var að losa og síðan leit út fyrir að hægt væri að lyfta loki til að komast að rofanum. Þegar ég var búinn að losa skrúfurnar þá var lokið alveg gróið við vélina. Ég þorði heldur ekki að taka mikið á því til að beygla það ekki. Ég reyndi því að taka framhliðina af vélinni en það reyndist ekki ganga. Tókst að lokum að losa lokið með því að smeygja kíttispaða undir jaðarinn á því og losa það þannig smátt og smátt upp.

Búið að losa lokið

Þegar var búið að opna vélina þá komst ég að því að nýi rofinn var allt öðruvísi en sá gamli.

Gamli rofinn

Og sá nýi.

Við nánari skoðun kom þó í ljós að snerturnar á rofunum voru merktar með tölum og bókstöfum. Ég byrjaði því að færa snúrurnar á milli. Gekk vel þangað til alveg í lokin að þá voru ekki til snertur á nýja stykkinu fyrir tvo stafi.
Við þorðum ekki að halda áfram og ákváðum að setja gamla stykkið í. Þegar það var komið í þá fengum við algjört áfall því þegar við prófuðum neistann á vélinni þá neistaði á milli tveggja víra á háspennukeflinu í staðinn fyrir á brennaranum. Við héldum að við hefðum skemmt eitthvað og vorum alveg í mínus yfir þessu.

Morguninn eftir þá púsluðum við vélinni saman aftur og ætluðum að fara að kveikja á gasinu með eldfærum þá kom neisti þegar ég prófaði að skrúfa frá gasinu. Þvílíkur léttir. Þá höfðum við prófað neistann án þess að vera búin að raða brennaranum saman. Loftbilið var þá bara of mikið til að neistinn næði að hlaupa á milli. Rafmagnsverkfræðingurinn ég hefði nú átt að fatta þetta.

Allavega. Í morgun fórum við í Kokku og fengum að vita hvaða rafmagnsverkstæði sér um þjónustu á þessum vélum. Um leið fullvissaði búðareigandinn okkur um að þetta stykki ætti að virka því þetta sama hefði hent einhvern annan.

Eftir helgi verður því haft samband við verkstæðið til að fá þetta í lag. Við notum ofninn nefnilega svo mikið að þetta er mjög óþægilegt ástand.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.