Bíltækið okkar er farið að haga sér mjög undarlega upp á síðkastið. Ef maður spilar diska þá tekur það upp á því, fyrirvaralaust, að skipta yfir á útvarpsstöð. Ekki bara hvaða útvarpsstöð sem er heldur alltaf á Bylgjuna! Bylgjuna! Ég veit ekki hvað við höfum gert af okkur til að verðskulda þetta.
2009-05-29
2009-05-23
Sóleyjar (eða ekki)
Skelli hérna inn myndum úr garðinum.
Skógarsóleyjarnar (sem eru náttúrlega engar sóleyjar) skarta sínu fegursta núna. Held svei mér þá að þær séu uppáhaldsblómin mín, sem vaxa í garðinum hjá okkur. Ofboðslega fallegar.
Svo erum við líka með vænan brúsk af ofkrýndri hófsóley. Hún er nú ekkert slor heldur.
Sniglets
Rakst á þetta á vafri á netinu fyrir nokkrum dögum. Hafði ekki séð þetta síðan í menntaskóla. Fullt af skemmtilegum orðum. Er samt greinilega alltaf að bætast við listann því ég kannaðist ekki við nema brot af orðunum. Bevemeter, cabnicreep, flurr, frust, elbonics og Hozone voru nokkur sem ég mundi eftir frá því í gamla daga. Algjör snilld margt af þessu.
2009-05-21
Vaxtalækkunarferlið
er komið á fullan skrið hjá viðskiptabönkunum þótt það gangi kannski hægar hjá Seðlabankanum. Eftir síðustu stýrivaxtalækkun (var hún ekki 2,5%?) þá lækkuðu innlánsvextirnir strax um 3-4% og svo bættust við önnur 2% núna fyrir tveimur eða þremur dögum. Sex prósent á hálfum mánuði. Vextirnir núna á bók þar sem maður á að geyma peningana sína (ef maður á einhverja þ.e.a.s.) eru núna 5-6% og verðbólgan kannski 11%! Er nokkuð viss um að útlánsvextirnir hafa ekki hrapað svona þótt þeir hafi reyndar lækkað líka. Ég er nokkuð viss um að þarna er að myndast vel útilátinn vaxtamunur.
2009-05-19
Í öllu lendir maður nú
Áðan, rétt þegar ég var kominn heim og búinn að ganga frá hjólinu, þá þustur fjórir eða fimm menn inn í garðinn. Ég varð eitt spurningamerki, vissi ekki hvað væri í gangi. Hélt fyrst að þetta væru einhverjir, sem eru að gera við húsið á móti. En nei, þá var þetta tökulið fyrir einhverja auglýsingu og vildu fá leyfi til að taka upp auglýsingu í garðinum hjá okkur. Þeir höfðu víst ætlað að taka upp í garðinum á móti en svo kom í ljós að hann var of dimmur. Á meðan þetta er skrifað eru tökur í fullum gangi úti í garði. Þannig að næst þegar kemur lambagrillauglýsing með Gunnari Hanssyni leikara þá er vel líklegt að hún hafi verið tekin upp hér.
2009-05-17
Stríðinn starri
Í gær var ég úti í garði í góða veðrinu. Var að slípa upp pallinn. Sest þá ekki einn starri í birkitréð okkar. Loppa var beint fyrir neðan og var greinilega áhugasöm. Starrinn var bara nýsestur þegar hann fór að gefa frá sér hljóð, sem líktust mjálmi. Loppa svaraði honum með mjálmi og þannig skiptust þau á hljóðum í smástund. Loppa missti síðan þolinmæðina og klifraði upp í tréð. Starrinn var þá að sjálfsögðu ekki seinn á sér að láta sig hverfa. Magnað hvað starrar geta verið flinkar eftirhermur.
2009-05-13
Ljótur hálfviti
Einhvern tímann um daginn þurfti ég að skjótast í vinnuna um helgi. Man ekki alveg hvað ég var að vesenast en Freyja kom með mér. Sinnti mínum erindum, tók svona 10-15 mínútur. Á leiðinni út langaði Freyju voðalega til að kíkja inn í æfingasalinn okkar. Ég lét það eftir henni. Þar var þá einn af meðlimum Ljótu hálfvitanna að lyfta, skeggprúður mjög. Á leiðinni niður stigann spurði hún hver þetta hefði verið með þetta mikla skegg. Ég sagði að þetta væri ljótur hálfviti. Hún varð svolítið hvumsa við og spurði eitthvað frekar um þetta. Ég mjólkaði þetta aðeins betur og kjálkinn á Freyju seig sífellt lengra niður, ekki vön að pabbi hennar talaði svona illa um fólk. Þegar ég sagði henni svo hvernig í málinu lægi fannst henni þetta bara pínulítið fyndið.
2009-05-11
Hjólað í vinnuna
Það hefur nú ekki gengið sérlega vel hjá þeim, sem standa fyrir átakinu: Hjólað í vinnuna, að þessu sinni. Búið að standa í fjóra daga og af þeim hefur verið mjög leiðinlegt hjólaveður þrisvar sinnum. Stígarnir tómir. Spáir nú reyndar skánandi veðri þannig að vonandi fer að rætast úr þessu.
Tilraun
Gerði tilraun í gær með að búa til jógúrt og nota gríska jógúrt sem startara. Tilraunin tókst nokkuð vel. Jógúrtin varð að vísu ekki eins hnausþykk og sú frá MS en þykk samt. Held líka að maður verði að sía hana til að fá hana svo þykka. Geri kannski tilraun með það síðar.
Væri fróðlegt að vita hvort þetta er sami gerillinn og er notaður við venjulega jógúrtgerð og munurinn sé bara að massinn sé síaður eftir jógúrtgerðina eða hvort þarna er um allt aðra tegund er að ræða.
2009-05-8
Samanburður
á jólastjörnunni eftir að hafa verið klippt niður nánast við rót
og svo núna, tæpum tveimur mánuðum síðar:
.
2009-05-7
Var búinn
að plotta að fara út í garð eitthvert kvöldið og hreinsa upp drasl, sprek og sinu. Jafnvel klippa berjarunnana aðeins til líka. Það hefur hins vegar alltaf verið svo mikil gjóla (fyrir utan kannski á þriðjudagskvöldið þegar ég var á fundi og ekki kominn heim fyrr en rúmlega níu) að mig hefur bara ekkert langað út í garð. Skánar vonandi um helgina.
Shortcut
Finnur fór í snoðklippingu í fyrradag; hann kallar það shortcut. Kemur verulega vel út á honum. Hann var búinn að hlakka til þess í lengri tíma að geta farið í klippingu. Það kom svo í ljós að klippingin var gerð á mjög heppilegum tíma því í gær var tekin bekkjarmynd í skólanum, sem við vissum ekkert um að stæði til.
Hérna er svo mynd af guttanum.
2009-05-5
Maraþonfundur
Aðalfundur hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga í dag. Byrjaði kl. 17:15 og stóð til kl. 20:30. Umræður og kosningar um reglugerðarbreytingar vegna taps, sem sjóðurinn hefur orðið fyrir vegna bankahrunsins. Frekar slæm staða á honum svo ekki sé meira sagt.
Það sem undrar mig þó mest er hversu fáir af ungu kynslóðinni mættu á þennan fund þar sem var verið að ákveða skerðingar bæði á núverandi inneign og líka á þeim réttindum sem maður vinnur sér inn með ákveðinni greiðslu. Eins og venjulega voru gömlu skarfarnir mættir í hrönnum og fóru heim sáttir við sinn hlut.
2009-05-3
Rakst svo
á þennan glæsilega bíl á göngutúr í Þingholtunum í dag.
Gerast ekki öllu flottari en þetta.
Í tilefni af
frumflutningi á verki hjá Hildigunni af Kvennakór Reykjavíkur þá ákváðum við að splæsa einni flottri hvítvínsflösku. Áttum eina Puligny-Montrachet 1er cru ’99 frá Etienne Sauzet. Alveg gríðarlega gott vín, sem passaði fullkomlega með kræklingunum, sem við nösluðum með.
Allavega, ég gaf Fífu að smakka á víninu og spurði hana hvað henni fyndist um það. Hún sagði að það væri betra en síðasta vín, sem ég hefði gefið henni að smakka á. Og hvaða vín var það aftur, spurði ég? Það var eitthvað með perubrjóstsykursbragði, mér fannst það ekki gott. En hvaða bragð myndirðu þá segja að væri af þessu víni? Svona hvítvínsbragð, hljómaði svarið.
2009-05-2
Japanir
myndu víst rita nafnið mitt (skv. einhverju forriti á Flettismettinu) á eftirfarandi hátt:
Borið fram Shi n