Strč prst skrz krk

2009-07-31

Hótunarbréf

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:55

Í fríinu okkar fyrir vestan á ættaróðalinu þá fann Fífa alveg magnað bréf þegar hún var að róta í einhverjum kössum niðri í kjallara.

Bréfið leit svona út:

Hótunarbréfið

Innihaldið í bréfinu er eftirfarandi:

Þú ert vondur maður Jón að setja mirkur yfir okkur þegar við sitjum hér í sakleysi. Þú skalt fá að kenna á því að þetta er skrifað í mirkrinu. Eilíf hefnd skal yfir þig koma fyrir þetta athæfi. Ef þú ferð nú ekki að koma með ljósið verður þú settur á gálgann á morgun. Ég hefði nú gjarnan viljað skrifa þér betra bréf en þú átt það ekki skilið.

Þinn Selur

Til útskýringar þá var það afi minn (og nafni) sem fékk þetta bréf. Afi sá um rekstur rafveitunnar á Núpi í Dýrafirði í mörg ár. Þarna lítur út fyrir að hafi orðið rafmagnslaust og ekki allir verið alveg sáttir við það…

2009-07-23

Ég lofa

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:50

svo því að hætta að tala um garðhliðið (í nokkrar færslur) eftir þessa færslu.

Meðan ég var að mála hliðið og handriðið þá þvældist fullt af fólki fram hjá. Meðal annars var ein kona sem stoppaði. Horfði á mig smá stund og sagði svo (áhyggjufull): Þú veist að það þarf að hreinsa ryðið burt áður en þú málar!

Ég fullvissaði hana um að ég vissi alveg hvað ég væri að gera. Það væri óhætt að mála beint á ryð með þessari málningu.

Litablanda

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:19

Eins og fram kom í síðustu færslu þá málaði ég garðhliðið og handriðið um síðustu helgi. Kannski ekki annálaefni en þetta var samt smávesen. Ég nota nefnilega Hammerite málningu, algjör snilldarmálning því það má mála beint á ryðgaða fleti. Þarf ekkert að pússa (nema losa laust ryð og málningu) eða grunna.

Til að byrja með þegar við fluttum í húsið þá málaði ég hliðið og handriðið hvítt enda ekki um aðra passandi liti að ræða frá Hammerite. Síðan gerðist það fyrir nokkrum árum að það var farið að framleiða þessa málningu í rjómagulum lit, sem var mjög líkur litnum á húsinu okkar. Ég var mjög ánægður með það, skipti umsvifalaust yfir í nýja litinn enda passaði það miklu betur við húsið.

Svo var náttúrlega hætt að framleiða þennan lit. Þegar ég komst að því þá keypti ég síðustu þrjár eða fjórar dósirnar sem til voru á landinu. Sú síðasta kláraðist í fyrra.

Nú voru góð ráð dýr. Mig langaði ekkert til að skipta yfir í hvítan aftur og vildi helst ekki hætta að nota Hammerite. Mér datt því í hug að fara með litakóðann að vegglitnum á húsinu í málningarverslun og athuga hvort hægt væri að fá uppgefin hlutföllin á milli grunnlitanna. Það var nú ekki hægt að fá þau uppgefin nákvæmlega en ég fékk þó að vita að í blönduna færu hvítur gulur og ambra (sem er mjög dökkbrúnn litur).

Ég fór því á stúfana og gat útvegað mér hvítan lit og gulan. Ambran var hins vegar ófáanleg í Hammerite. Ég keypti svartan lit í staðinn.

Svo var farið að sulla. Mjög óvísindalegt allt saman en á endanum fékk ég fram lit sem er nokkuð líkur húslitnum, aðeins kaldari samt.

Þegar kemur næst að því að endurnýja málninguna þá er ég nokkuð viss um að ég nái ekki alveg nákvæmlega sama litatóninum, skiptir nú ekki öllu máli. Er þá jafnvel að spá í að prófa að bæta við rauðum lit næst til að fá smá roða í blönduna (hefði gert það ef búðir hefðu verið opnar þegar ég var að sulla litunum saman).

2009-07-21

Hræddi túrista

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:18

um síðustu helgi. Alveg óvart samt.

Var að mála hliðið og handriðið hjá stiganum upp að aðalinnganginum. Þar sem hliðið var ekki orðið þurrt þegar ég kláraði lét ég það standa opið. Síðar um kvöldið ákvað ég að skella mér út og loka því. Snaraðist út, bakdyramegin. Þá voru einmitt á þeirri stundu tvær stelpur að taka mynd af húsinu. Þær hrukku í kút, hafa líklega haldið að ég ætlaði að fara að skammast eitthvað í þeim. Svo sagði önnur þeirra að þær væru bara að taka mynd af húsinu og hvort að það væri ekki allt í lagi. Bættu svo við að þeim þætti það mjög fallegt. Ég hélt nú það, þakkaði fyrir hrósið, lokaði hliðinu og fór inn aftur. Fattaði ekki fyrr en þá að ég hefði nú átt að segja við þær að það hefði nú ekki verið meiningin að láta þær hrökkva svona í kút.

Kokkarnir í vinnunni

Filed under: Vinnan — Jón Lárus @ 00:34

voru greinilega að leika sér með samheitaorðabókina þegar þeir gerðu matseðill vikunnar.

Réttur dagsins (í gær): Sperðlar með uppstúf, kartöflum og grænum baunum (var raunar skrifað Sperlar…). Ungu strákarnir á deildinni skildu ekkert í þessu. Við heyrðum meðal annars: Vignir segir að þetta séu bjúgu. Heldurðu að það sé rétt?

Hvað ætli þeir hefðu sagt ef það hefði staðið grjúpán?

2009-07-19

Framsóknarbíllinn

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:24

Sá hann í kvöld í Kömbunum á leið heim frá Skálholti. Einhver svakalega kubbslegur bíll. Svipaður að stærð en kassalagaðri en Chrysler PT Cruiser og er þá mikið sagt. Hef semsagt ekki hugmynd um af hvaða tegund þessi bíll var. Sá samt að aftan á bílnum stóð XB.

2009-07-17

Lykilorð og password

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:57

Við þurfum að vita bæði lykilorð og password, missti einn vinnufélagi minn út úr sér í dag. Síðan kom skrítinn svipur á hann og svo kom: Ég held að það sé eitthvað ekki alveg rétt hér…

2009-07-13

Rakst svo á þetta

Filed under: Brandarar — Jón Lárus @ 23:46

einhvers staðar á vafrinu:

A bloke walks into a Glasgow library and says to the prim librarian,
‘Excuse me Miss, dey ye hiv ony books on suicide?’
To which she stops doing her tasks, looks at him over the top of her glasses and says,
‘Fook off, ye’ll no bring it back!’

Íslandsbeikon

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:52

hét það beikonið, sem ég slysaðist til að kaupa í Bónus áðan. Leit bara ansi vel út í pakkanum. Tók reyndar ekki eftir að sneiðarnar voru frekar þunnar. Þegar ég steikti það, þá skrapp það hins vegar saman, fór allt í tætlur og hvarf næstum því. Spurning hvort þetta tengist eitthvað nafninu?

2009-07-12

Ég kom inn í

Filed under: Fjölskyldan,Formúla 1 — Jón Lárus @ 11:45

borðstofuna áðan. Var að hugsa um formúluna og sagði við Fífu: „Ég vona að það verði rigning á eftir“, án frekari skýringa. Fífa varð náttúrlega eitt spurningamerki í framan. Þá áttaði ég mig á að það vantaði kannski aðeins meiri útskýringar við þessa ósk. Og bætti við já þú veist úti í Þýskalandi þarna á eftir.

2009-07-7

55000 kall

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:25

fyrir lok á stuðara er jú dálítill peningur. En fólk verður bara að átta sig á því að það er eins með Mözdur og Rolls Royce. Ef þú þarft að spyrja hvað hlutirnir (eða varahlutirnir) kosta þá hefurðu ekki efni á að kaupa hann…

2009-07-5

Mettilraun

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:40

Ég er búinn að plotta það að fá lánað hjól hjá bróður mínum um næstu helgi (ef það verður almennilegt veður) til að sjá hvað munar miklu á 25km hring á alvöru hjóli og skriflinu mínu. Stebbi bróðir er algjör hjólafíkill og á geðveikt flott hjól (koltrefjar, magnesíum og kryptonít eru helstu efnin í því held ég). Vegur eitthvað um 11kg og kostaði 750k fyrir tveimur árum. Þurfum að breyta því aðeins þannig að ég geti hjólað á því. Núna eru á því keppnispedalar en þar sem ég á ekki þannig hjólaskó þá ætlum við að skipta yfir á venjulega pedala. Verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út.

2009-07-3

Góð smáauglýsing

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 12:21

í Fréttablaðinu í dag:

Óska eftir að kaupa myndina af drengnum með tárið (þessi væmna, sem var næstum alls staðar fyrir svona 25-30 árum). Vantar margar. Og svo gefið upp símanr.

Er þetta nokkuð hrekkur eða verið að steggja?

2009-07-2

Viðbrenndur ljósbúnaður

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:25

Eitthvert kvöldið fyrir nokkrum dögum tókum við eftir lykt, fnyk öllu heldur, í eldhúsinu. Við áttum svolítið erfitt með að staðsetja hann. Ruslafatan var fljótlega útilokuð og þá voru bara ísskápurinn (ekki inni í honum) og flúrlampinn yfir eldhúsvaskinum eftir sem hugsanlegar lyktaruppsprettur. Við prófuðum að slökkva á flúrlampanum til að athuga hvort lyktin myndi dofna eitthvað. Það gekk mjög hægt og morguninn eftir var enn talsverð stybba í eldhúsinu. Þá um kvöldið ákvað ég að taka ljósbúnaðinn niður og athuga hvort ég sæi eitthvað athugavert. Þetta voru niðurstöðurnar, eitthvað inni í lampanum hafði gefið sig og brætt ytra byrðið:

Úrbræddur flúrlampi.

Meira af lampanum.

Það sem meira var við að taka lampann niður þá blossaði fýlan upp aftur. Enn nokkrum dögum síðar er stybban ekki alveg horfin. Við vorum samt mjög fegin að það var ekki ísskápurinn, sem var að bræða úr sér.

Stærðfræðingar

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 22:23

þurfa víst ekki að stunda ljósabekki (eða sleikja sólina ef út í það er farið). Ástæðan: Þeir deila bara sin með cos og fá út tan.

Bloggaðu hjá WordPress.com.