Eins og fram kom í síðustu færslu þá málaði ég garðhliðið og handriðið um síðustu helgi. Kannski ekki annálaefni en þetta var samt smávesen. Ég nota nefnilega Hammerite málningu, algjör snilldarmálning því það má mála beint á ryðgaða fleti. Þarf ekkert að pússa (nema losa laust ryð og málningu) eða grunna.
Til að byrja með þegar við fluttum í húsið þá málaði ég hliðið og handriðið hvítt enda ekki um aðra passandi liti að ræða frá Hammerite. Síðan gerðist það fyrir nokkrum árum að það var farið að framleiða þessa málningu í rjómagulum lit, sem var mjög líkur litnum á húsinu okkar. Ég var mjög ánægður með það, skipti umsvifalaust yfir í nýja litinn enda passaði það miklu betur við húsið.
Svo var náttúrlega hætt að framleiða þennan lit. Þegar ég komst að því þá keypti ég síðustu þrjár eða fjórar dósirnar sem til voru á landinu. Sú síðasta kláraðist í fyrra.
Nú voru góð ráð dýr. Mig langaði ekkert til að skipta yfir í hvítan aftur og vildi helst ekki hætta að nota Hammerite. Mér datt því í hug að fara með litakóðann að vegglitnum á húsinu í málningarverslun og athuga hvort hægt væri að fá uppgefin hlutföllin á milli grunnlitanna. Það var nú ekki hægt að fá þau uppgefin nákvæmlega en ég fékk þó að vita að í blönduna færu hvítur gulur og ambra (sem er mjög dökkbrúnn litur).
Ég fór því á stúfana og gat útvegað mér hvítan lit og gulan. Ambran var hins vegar ófáanleg í Hammerite. Ég keypti svartan lit í staðinn.
Svo var farið að sulla. Mjög óvísindalegt allt saman en á endanum fékk ég fram lit sem er nokkuð líkur húslitnum, aðeins kaldari samt.
Þegar kemur næst að því að endurnýja málninguna þá er ég nokkuð viss um að ég nái ekki alveg nákvæmlega sama litatóninum, skiptir nú ekki öllu máli. Er þá jafnvel að spá í að prófa að bæta við rauðum lit næst til að fá smá roða í blönduna (hefði gert það ef búðir hefðu verið opnar þegar ég var að sulla litunum saman).
Færðu inn athugasemd