Lenti í því núna fyrir nokkrum dögum þegar ég var að mála niðri í þvottahúsi að ég gleymdi að skola úr penslum og rúllu, sem ég hafði verið að nota. Áttaði mig ekki á því fyrr en daginn eftir og þá voru bæði penslar og rúlla náttúrlega orðin grjóthörð. Ég mundi þá eftir því að ég hafði lesið grein einhvern tímann í haust um að það væri til penslasápa sem væri hægt að leggja hörð málningaráhöld í og þau yrðu eins og ný. Ég ákvað að reyna þetta. Keypti brúsa af sápu og skellti penslum og rúllu í meðferð. Það kemur síðan í ljós að þetta efni kengvirkar. Penslarnir búnir að liggja í sápunni í tvo daga og orðnir mjúkir og fínir aftur. Spillir svo ekki fyrir að þetta er íslensk framleiðsla.
2009-11-29
6 athugasemdir »
RSS feed for comments on this post. TrackBack URI
Vá, hvaða eitur er þetta? Þó ég skilji nú ekki hvernig er hægt að gleyma því skemmtilegasta við málningarvinnuna 🙂
Athugasemd af Kristín í París — 2009-11-30 @ 06:34 |
Gott að vita það. Frá hverjum er snilldin?
Athugasemd af Harpa J — 2009-11-30 @ 10:32 |
Hahaha Kristín. Hreinsun á málningaráhöldum er eitt af því leiðinlegasta sem ég veit. Þrátt fyrir það þá var þetta bara gleymska í mér sem olli þessu, ekki það að ég nennti ekki að hreinsa úr penslunum. Svo er þetta víst alls ekki neitt eitur ef eitthvað marka upplýsingar á miðanum á flöskunni. Inniheldur bara efni, sem eru niðurbrjótanleg í náttúrunni. Flaggar m.a.s. umhverfismerki svo því sé haldið til haga.
Harpa, þetta er framleitt af fyrirtæki, sem heitir Undri. Varan heitir einfaldlega Penslasápa. Þetta sama fyrirtæki framleiðir líka tjöruhreinsi, sem er tiltölulega lítið skaðlegur af slíkri vöru að vera. Til framleiðslunnar er (eða var að minnsta kosti) m.a. notaður mör sem fellur til við slátrun og þyrfti annars að grafa niður eða eyða með öðrum ráðum.
Athugasemd af Jón Lárus — 2009-11-30 @ 22:30 |
Já, ég spái í það í hvert skipti sem kemur að þvotti, hvort ég eigi ekki bara að henda og kaupa nýja! Subbulegasti og leiðinlegasti hluti málningarvinnunnar. En breytist vitanlega með penslasápunni. Ætli þeir vilji ekki flytja þetta út?
Athugasemd af Kristín í París — 2009-12-1 @ 06:47 |
Penslasápan frá Undra er snilld eins og reyndar ALLT frá því frábæra fyrirtæki!
Athugasemd af vælan — 2009-12-2 @ 21:11 |
Væla, algjörlega sammála. Kristín, það þyrfti þá að endurhanna miðana. Þeir eru það eina sem er ekki í topp klassa hjá Undra.
Athugasemd af Jón Lárus — 2009-12-3 @ 19:35 |