Við gáfum Fífu í jólagjöf lítið box, sem lagar til merki frá plötuspilara þannig að hægt sé að tengja við annan inngang en phono á magnara (enginn slíkur inngangur á magnaranum okkar). Hún var búin að nauða um þetta lengi til að geta spilað vínilplötur, þetta var ekki bara af því að við séum vondir foreldrar.
Á jóladagsmorgun þá fórum við í það verkefni að tengja boxið. Það gekk vel en þegar við settum plötu á fóninn og ætluðum að setja hann af stað þá snerist diskurinn ekki. Við rifum plötuspilarann út úr skápnum og skoðuðum hann. Í ljós kom að reimin sem átti að snúa diskinum var slitin. Nú voru góð ráð dýr. Mjög ólíklegt að finna þennan varahlut hér á landi, plötuspilarinn orðinn 23ja eða 24ra ára gamall og umboðið farið á hausinn.
Við prófuðum þess vegna að gúggla plötuspilara og varahluti. Fundum tiltölulega fljótlega síðuna turntableneedles.com. Þar fundum við svo rétta reim eftir stutta leit. Á innan við hálftíma frá því við fundum út hvað var að þá vorum við búin að ganga frá pöntun á nýrri reim. Hún kostaði ca. 28 dollara, varahlutur ásamt sendingarkostnaði. Ekki kannski alveg ódýrt en tæplega hægt að vonast til að sleppa ódýrar frá þessu.
Netið er snilld
Færðu inn athugasemd