það heldur á Finnur afmæli á morgun. Verður 10 ára. Til hamingju með afmælið litli gaur.
2010-04-29
Svo var ég líka
að átta mig á því að í gær voru 15 ár frá því við tókum við lyklavöldum hér á Njálsgötunni. Magnað hvað tíminn flýgur.
2010-04-23
Vorum fáliðuð
í vinnunni í dag. Ekki nema þriðjungurinn af deildinni mættur. Öll hin í fríi. Að sjálfsögðu þá komu upp hin og þessi vandræði í nánast öllum kerfum sem ég kem eitthvað nálægt (og líka í kerfum sem ég kem ekkert nálægt en þurfti samt að redda). Takk Murphy…
2010-04-21
Ég var að átta mig á því
að núna í sumar eru 20 ár síðan ég útskrifaðist frá Háskóla Íslands! Hvernig er þetta hægt?
2010-04-17
Er þessa dagana
að lesa tvær ferðabækur eftir Bill Bryson. Nýbúinn að lesa Neither here nor there þar sem hann þræðir Evrópu frá Tromsö til Istanbul. Frábær bók, maðurinn með eindæmum kaldhæðinn. Gerir grín að öllu og hann sjálfur síst undanskilinn. Er svo núna með The lost continent í takinu þar sem hann ferðast um Bandaríkin. Ekki síðri sú.
2010-04-13
Verkfæratap
Fyrir nokkrum árum áskotnaðist mér ævisaga manns, Páls Kristjánssonar að nafni, sem bjó hér að Njálsgötu 6 í hátt í 40 ár. Páll var smiður og var um tíma með verkstæði í húsinu. Bókin er árituð af höfundi. Ég þrælaðist nú í gegnum hana á sínum tíma en óhætt er að segja að hún er talsvert torf.
Páll þessi hafði skráð ævisöguna sjálfur og gefið hana líka út sjálfur sýnist mér. Hefði ekki veitt af að hafa ritstjóra að verkinu en hvað um það.
Í henni er að finna skemmtilega vísu, sem er ort um gleyminn smið í Arnarfirði (Páll var þaðan). Ef eitthvað er að marka vísuna þá skildi hann eftir sig verkfæraslóð út um allan hreppinn. Í henni koma fyrir öll býli í Auðkúluhreppi í réttri röð eins og þau voru á fyrstu árum tuttugustu aldar. Vísan er eignuð Óskari Bjarnasyni frá Stapadal og fer hún hér á eftir:
Verkfæratap
Hefil í Hokinsdal,
ljá á Laugabóli,
hamar á Horni,
skóflu í Skógum,
öxi í Ósi,
kúbein á Kirkjubóli,
boltaklippur á Borg,
dixil á Dynjanda,
rissmát á Rauðsstöðum,
hallamál á Hjallkárseyri,
gatasög á Gljúfurá,
kíttisskröpu á Karlsstöðum,
rasp á Rafnseyri,
hófjárn á Húsum,
meitil í Mýrarhúsum,
klaufhamar á Kúlu (Auðkúlu),
flettisög á Fögrubrekku,
axarhaus í Árbæ,
lóðhamar á Lónseyri,
torfljá í Tungu,
tréblýant á Tjaldanesi,
svæisög á Svalbarða,
bjúghníf á Baulhúsum,
hlaðstokk í Hlaðsbót,
beygistöng á Brekku,
alinmál á Álftamýri,
steinbrýni í Stapadal,
hálfan hníf heima í Bænum,
hefilstönn á Hrafnabjörgum,
nafar á Neðri Björgum,
langhefil í Lokinhömrum,
gluggahefil á Garðsstöðum,
al á Aðalbóli.
2010-04-11
Eftirréttur dauðans
Við áttum enn eftir afgang af þeyttum rjóma frá fermingunni um daginn, sem við vissum ekkert hvað við ættum að gera við, þangað til Fífu datt í hug að gera bananasplitt.
Keyptum banana og smá ís og Fífa sá svo um að gera eftirréttinn. Í stuttu máli þá var þetta syndsamlega gott. Maður er bara afvelta eftir þetta.
2010-04-5
Afmæli
Ekki nóg með að Freyja hafi fermst í dag, heldur á hún líka afmæli á morgun. Allt að gerast!
Innilega til hamingju með afmælið á morgun Freyja mín.
Ferming
Í dag fermdist Freyja. Þegar við gengum til kirkju var ekkert skemmtilegt veður. Leiðindagjóla og skítakuldi. Að athöfn lokinni þá hafði lægt og komið hið besta veður. Fermingin gekk vel fyrir sig, hátíðleg athöfn. Eitt fermingarbarnið (sonur Kolbeins flautuleikara og Guðrúnar semballeikara) lék á saxófón í fermingunni og leysti það vel af hendi. Messan var líka ekki langloka eins og oft vill verða með fermingarmessur, kann vel við presta sem hafa vit á því að hafa stuttar ræður við svona tækifæri.
Fermingarhópurinn.
Freyja, fremst fyrir miðju.
Að messu lokinni héldum við fermingarveislu í safnaðarheimili Áskirkju saman með Óla og Kristínu en Kristján Óli, skáfrændi Freyju var fermdur líka í morgun.
Freyja við veisluborðið.
Kristján Óli við veisluborðið.
Fjölskyldan hafði sameinast um veitingarnar, allir þjóðnýttir í að leggja eitthvað í púkk.
Önnur af tveimur fermingartertum Freyju.
Held að þetta hafi allt saman gengið alveg þokkalega. Allavega heyrði ég ekki annað en fólk væri ánægt með veisluna.
Núna er maður eins og sprungin blaðra. Það tekur á að standa í svona löguðu.
2010-04-2
Vetur aftur
Ég er feginn því núna að hafa ekki drifið mig í að skipta yfir á sumardekk eins og ég var að spá í að gera í dymbilvikunni. Hefði verið glatað að vera á sumartúttum eins og veðrið var í dag. Stundum er gott að vera ekki of framtakssamur.