Strč prst skrz krk

2010-04-13

Verkfæratap

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:56

Fyrir nokkrum árum áskotnaðist mér ævisaga manns, Páls Kristjánssonar að nafni, sem bjó hér að Njálsgötu 6 í hátt í 40 ár. Páll var smiður og var um tíma með verkstæði í húsinu. Bókin er árituð af höfundi. Ég þrælaðist nú í gegnum hana á sínum tíma en óhætt er að segja að hún er talsvert torf.
Páll þessi hafði skráð ævisöguna sjálfur og gefið hana líka út sjálfur sýnist mér. Hefði ekki veitt af að hafa ritstjóra að verkinu en hvað um það.
Í henni er að finna skemmtilega vísu, sem er ort um gleyminn smið í Arnarfirði (Páll var þaðan). Ef eitthvað er að marka vísuna þá skildi hann eftir sig verkfæraslóð út um allan hreppinn. Í henni koma fyrir öll býli í Auðkúluhreppi í réttri röð eins og þau voru á fyrstu árum tuttugustu aldar. Vísan er eignuð Óskari Bjarnasyni frá Stapadal og fer hún hér á eftir:

Verkfæratap

Hefil í Hokinsdal,
ljá á Laugabóli,
hamar á Horni,
skóflu í Skógum,
öxi í Ósi,
kúbein á Kirkjubóli,
boltaklippur á Borg,
dixil á Dynjanda,
rissmát á Rauðsstöðum,
hallamál á Hjallkárseyri,
gatasög á Gljúfurá,
kíttisskröpu á Karlsstöðum,
rasp á Rafnseyri,
hófjárn á Húsum,
meitil í Mýrarhúsum,
klaufhamar á Kúlu (Auðkúlu),
flettisög á Fögrubrekku,
axarhaus í Árbæ,
lóðhamar á Lónseyri,
torfljá í Tungu,
tréblýant á Tjaldanesi,
svæisög á Svalbarða,
bjúghníf á Baulhúsum,
hlaðstokk í Hlaðsbót,
beygistöng á Brekku,
alinmál á Álftamýri,
steinbrýni í Stapadal,
hálfan hníf heima í Bænum,
hefilstönn á Hrafnabjörgum,
nafar á Neðri Björgum,
langhefil í Lokinhömrum,
gluggahefil á Garðsstöðum,
al á Aðalbóli.

Bloggaðu hjá WordPress.com.