Strč prst skrz krk

2010-05-31

Fífa verður

Filed under: Afmæli — Jón Lárus @ 23:35

18 ára á morgun. Ekki smá hvað þessi tími flýgur áfram. Innilega til hamingju með afmælið Fífa mín.

Japanskir frasar

Filed under: Ýmislegt,Stríðni — Jón Lárus @ 22:02

Ég, Finnur og Fífa vorum eitthvað að tala um japönsku um daginn. Man ekki alveg hvernig það kom upp en Fífa spurði okkur Finn hvort við vissum hvað kamikaze þýddi.

Já, sjálfsmorðsflugmaður svaraði ég. Fífa: Nei, úr hvaða orðum er kamikaze samsett og hvað þýða þau? Ég, það er mikill vindur eða eitthvað í þá áttina. Fífa: Kami er guð og kaze er vindur, þú varst ekki langt frá því. Ég, en Fífa veistu hvað karaoke þýðir? Fífa, nei ég er ekki alveg viss. Ég: Kara = ömurleg og oke = tónlist. Fífa: Já er það? Ég, tíhíhí.

2010-05-29

Ástralía #7 (vínin sem við rákumst á #1)

Filed under: Ferðalög,Vín — Jón Lárus @ 00:37

Annan daginn okkar í Sydney þá röltum við í átt að höfninni. Þetta var algerlega markmiðslaust rölt en samt sem áður tókst okkur að rekast á eina af flottustu vínbúðum bæjarins (Australian Wine Centre), sem ég var búinn að lesa um og var algjörlega á listanum yfir það sem þyrfti að skoða. Við inn. Búð sem sérhæfir sig í áströlskum vínum og er ekki með neitt af fjöldaframleiðsludóti (Lindemans, Penfolds, Brown brothers o.fl). Þarna voru vínflöskur upp um alla veggi, og maður þekkti fæst af því sem var á boðstólum. Við vorum ekki búin að vera lengi inni þegar afgreiðslumaður kom og spurði hvort hann gæti aðstoðað okkur (eitt af því sem ég kunni mjög vel við þarna úti var hvað afgreiðslufólk var vel með á nótunum. Alltaf mætt strax á staðinn til að spyrja hvort það gæti aðstoðað og ef maður sagði að maður væri bara að skoða þá var maður látinn í friði. Ef beðið var um aðstoð þá fékk maður yfirleitt fína þjónustu). Ég spurði hverju hann gæti mælt með undir 20 AUD (ca. 2400 kall) og hann benti okkur á vín sem var í tilboðsrekka hjá þeim á 15 AUD:

Secret label

Við keyptum eina flösku og smökkuðum um kvöldið. Vægast sagt magnað vín. Svo fór ég að skoða miðann betur og gat ekki fundið út hver framleiðandinn væri. Næst þegar við rákumst inn í AWC þá sagði ég við afgreiðslumanninn að þetta væri æðislegt vín en ég hefði ekki áttað mig á því hver framleiðandinn væri. Þá kom í ljós að einhver Barossa framleiðandi hafði ekki viljað setja þrúgurnar af ákveðnum skika í vínið sem hann gerði venjulega vegna þess að það hafði komið hitabylgja þannig að hann treysti ekki þrúgunum í vínið sitt. Í staðinn fyrir að henda berjunum var þá gerður þessi ómerkti mjöður. Við reyndum að pressa meiri upplýsingar út úr AWC mönnunum en þeir sátu fastir við sinn keip. Eina sem við fengum upp úr þeim í viðbót var að vínið sem væri venjulega gert úr berjunum kostaði 70-80 AUD (allt að 9000 kall).

Eftir að vera kominn á bragðið á svona góðu víni þá sá ég voðalega lítið annað. Smakkaði þó Penfolds bin 138, sem var allt í lagi. Peter Lehmann Layers líka (sem var að detta inn í vínbúðirnar hér núna) Alveg hægt að sleppa því, mjög mikil flatneskja. Ekkert ódýrt samt. Síðast en ekki síst þá smökkuðum við Stump jump 2008, sem stendur alltaf fyrir sínu. Er ekki viss um að 2008 árgangurinn sé kominn hingað til lands.

Síðan smökkuðum við hin og þessi hvítvín á veitingastöðum. Flest alveg þolanleg en ekkert þeirra það gott að ég leggði nafnið á minnið.

Áður en við fórum út þá var ég búinn að finna einn hvítvínsframleiðanda, Shaw and Smith, sem leit út fyrir að vera spennandi. Þurfti ekki að leita lengi í AWC að þessu víni. Meðal annars sem ég hafði heyrt um vínin frá S&S var að chardonnay hvítvínið minnti á Chassagne-Montrachet eða Puligny-Montrachet frá Búrgúndarhéraðinu í Frakklandi. Ég þurfti ekki að heyra meira, endaði á því að kaupa tvær flöskur og dröslaði þeim yfir hálfan hnöttinn.

Ástralía #6 (Evidence #1)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 00:05

Var víst búinn að lofa þessu æsispennandi myndbandi. Engir spoilerar hérna en takið sérstaklega eftir lausninni í lokin…

2010-05-28

Ástralía #V (MDCCCLXXXVIII)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 23:07

Fyrst maður er byrjaður þá er best að halda áfram. Á göngu okkar um glæpahverfi Campbelltown þá rákumst við á lengsta rómverska ártal, sem ég hef séð. Get raunar ekki ímyndað mér lengra ártal, á okkar tímum að minnsta kosti.

Langt ártal

Ástralía #4 (Glæpabælið Campbelltown)

Filed under: Ferðalög — Jón Lárus @ 22:55

Geri hérna smá undantekningu á prímtölu/Fibonacchi pakkanum. Var ekki annars eitthvað með að 28 er fullkomin tala?

Á laugardeginum, næstsíðasta degi hátíðarinnar, voru tónleikar í Campbelltown, sem er um klukkutíma akstur fyrir sunnan Sydney. Við fengum að fljóta með þangað í rútu frá hótelinu okkar. Þegar við komum til Campbelltown skildum við við sendifulltrúana, sem voru að fara á fund. Við ákváðum að rölta um bæinn og skoða okkur aðeins um. Komum að gatnamótum og á leiðinni yfir götuna þá mætum við tveimur unglingsstrákum svona 14-15 ára gömlum. Hildigunnur var á undan mér og ég veitti guttunum svosem enga sérstaka athygli. Þangað til að ég mætti þeim þá skyndilega varð ég fyrir jafnvægisröskun og steinlá á bakinu í götunni. Greinilega brandarakarl, sem var að stríða óviðbúnum ferðamönnum. Ég ákvað að kyngja stoltinu og hlaupa ekki á eftir þrjótunum (lexía sem ég lærði í París; maður veit aldrei hvort svona gaurar ganga með hníf á sér). Staulaðist á fætur og dustaði af mér rykið. Við vorum rétt komin yfir götuna þegar við gengum fram á þrjá aðra unglingspilta sem litu mun skuggalegar út heldur en þessir tveir sem hentu mér um koll. Einn var með dredda, annar í hauskúpubol með beinagrindagriplur og sá þriðji leit líka frekar skuggalega út. Við Hildigunnur hugsuðum, hvers lags bær er þetta nú? Héldum samt áfram. Þá voru þetta mestu meinleysisgrey voru fullir samúðar og sögðu okkur að þessir sömu delar hefðu hent einum þeirra um koll rétt áður en þeir tóku mig fyrir. Enn ein áminningin um að dæma ekki eftir útliti.

2010-05-23

Ástralía #3 (vont vatn)

Filed under: Ferðalög — Jón Lárus @ 23:58

Vatnið í Sydney er ógeðslegt. Klórblandaður viðbjóður. Það var svona með herkjum að maður gæti burstað tennurnar úr kranavatninu.

Við fórum svo í dagsferð í Bláfjöll (Blue mountains) sem eru um 100 km fyrir vestan Sydney. Það var búið að fullvissa okkur um að vatnið þarna uppi í fjöllum væri hreint og gott. En annað kom nú á daginn. Fengum kranavatn á karöflu á veitingastað þarna uppfrá. Ég tók einn sopa og gat ekki komið öðrum niður. Maður býr greinilega við mikil forréttindi hvað vatnið varðar hérna á klakanum.

Ástralía #2 (grasagarðurinn)

Filed under: blóm,Ferðalög — Jón Lárus @ 23:46

Eftir að hafa dvalið nokkra daga í Sydney þá hafði ég varla séð neina plöntu sem ég kannaðist við. Einu trén sem ég þekkti voru platan tré og svo furur. Sama mátti segja um blómin. Einu blómin sem ég hafði séð áður voru blóm sem maður sér sem stofublóm heima.

Ég hafði frétt af því að í Sydney væri mjög flottur grasagarður og Þegar ISCM hátíðin var búin þá ákváðum við að kíkja aðeins á hann. Endaði nú á því að vera aðeins meira en kíkj. Tókum tvo langa göngutúra um garðinn og náðum að skoða talsvert stóran hluta af honum. Er ekki frá því að þetta sé flottasti grasagarður sem ég hef komið í ef ekki þá að minnsta kosti sá frjálslegasti . Þarna er fólk hvatt til að ganga á grasinu.

Alveg magnaðar sumar lífverurnar sem þrífast þarna fyrir sunnan. Flöskutré, fílafótartré og svo furðulegustu tré sem ég hef séð, frá Nýju Kaledóníu (myndir koma síðar).

2010-05-19

Ástralía #1 (nörd á suðurhveli jarðar)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 23:31

Best að henda inn nokkrum punktum um Ástralíuferðina sem við Hildigunnur (ásamt Kjartani Ólafssyni hluta af tímanum) fórum í núna í maí. Þetta verður nú ekki nein ferðasaga í þeim skilningi; Hildigunnur sér um þá hlið mála.

Það voru nokkur atriði sem ég var spenntur fyrir að sjá og skoða á suðurhveli jarðar. Meðal atriða á tikklistanum voru að kíkja á stjörnuhimininn þar sem nánast öll stjörnumerkin (m.a. suðurkrossinn) eru framandi. Ganga úr skugga um að hringiður snúist rangsælis og sjá sólina í hápunkti í norðri.

Fyrsta daginn okkar í Sydney þá flaskaði ég á þessu síðasttalda atriði (þótt ég hefði átt að vita betur). Við ætluðum að fá okkur göngutúr að óperuhúsinu (sem var í norðurátt frá hótelinu okkar). Komum út og mér fannst að sólin væri í suðri. Gengum þess vegna undan sól. Við áttuðum okkur á mistökunum þegar við komum að aðaljárnbrautarstöðinni, sem við vissum að væri í suðurátt frá hótelinu okkar. Magnað að geta klúðrað þessu.

Til þess að kanna atriði númer tvö þá lét ég renna í baðkarið á hótelinu. Hleypti svo úr því og viti menn: Þetta stemmdi, hringiðan sem myndaðist snerist rangsælis. Þetta var að sjálfsögðu dokumenterað rækilega. Eins víst að æsispennandi myndband þessu til sönnunar verði hent hér inn síðar.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.