Best að henda inn nokkrum punktum um Ástralíuferðina sem við Hildigunnur (ásamt Kjartani Ólafssyni hluta af tímanum) fórum í núna í maí. Þetta verður nú ekki nein ferðasaga í þeim skilningi; Hildigunnur sér um þá hlið mála.
Það voru nokkur atriði sem ég var spenntur fyrir að sjá og skoða á suðurhveli jarðar. Meðal atriða á tikklistanum voru að kíkja á stjörnuhimininn þar sem nánast öll stjörnumerkin (m.a. suðurkrossinn) eru framandi. Ganga úr skugga um að hringiður snúist rangsælis og sjá sólina í hápunkti í norðri.
Fyrsta daginn okkar í Sydney þá flaskaði ég á þessu síðasttalda atriði (þótt ég hefði átt að vita betur). Við ætluðum að fá okkur göngutúr að óperuhúsinu (sem var í norðurátt frá hótelinu okkar). Komum út og mér fannst að sólin væri í suðri. Gengum þess vegna undan sól. Við áttuðum okkur á mistökunum þegar við komum að aðaljárnbrautarstöðinni, sem við vissum að væri í suðurátt frá hótelinu okkar. Magnað að geta klúðrað þessu.
Til þess að kanna atriði númer tvö þá lét ég renna í baðkarið á hótelinu. Hleypti svo úr því og viti menn: Þetta stemmdi, hringiðan sem myndaðist snerist rangsælis. Þetta var að sjálfsögðu dokumenterað rækilega. Eins víst að æsispennandi myndband þessu til sönnunar verði hent hér inn síðar.
Ég hef heyrt þetta með hringiðuna, og líka að það væri bara „kellingabók“. Gott að fá botn í málið:)
Athugasemd af baun — 2010-05-20 @ 16:56 |
Baun, bíddu bara þangað til þú sérð myndina…
Athugasemd af Jón Lárus — 2010-05-20 @ 23:55 |