Strč prst skrz krk

2010-06-23

Bilaður bíll

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 22:21

Bílinn okkar bilaði núna um helgina. Þetta byrjaði á sunnudaginn að ég tók eftir því að það lak eitthvað undan vélinni þegar Hildigunnur stoppaði til að hleypa mér út og færði bílinn svo í betra stæði. Ég fór og kannaði málið og sá að það var komið stærðar gat á efri vatnskassahosuna. Slæmt mál en við þurftum að nota bílinn þannig að ég bætti vatni á kassann og fyllti síðan 2l gosflösku af vatni til að hafa í bílnum. Stuttu seinna þá þurfti ég að erindast eitthvað og þá var gangurinn í bílnum orðinn mjög skrítinn. Gekk bara á þremur og minnti þetta mjög á þegar vélin í gamla bílnum okkar gaf upp öndina. Við vorum frekar svekkt yfir þessu. Hristumst samt á bíldruslunni á tónleika um kvöldið. Síðan eftir tónleikana þá hagaði bíllinn sér óaðfinnanlega. Ekkert að ganginum í honum.

Pantaði svo tíma á verkstæði á mánudaginn og fékk tíma í dag fyrir bílinn. Við bjuggumst alveg eins við að yrði gefið út dánarvottorð á hann. Það reyndist þó ekki svo slæmt. Það kom í ljós að vatn sem sprautaðist út um gatið á vatnskassahosunni lenti á kveikjuþráðunum og olli þessum gangtruflunum. Eftir að hafa skipt um hosu og þurrkað þræðina þá virkaði bíllinn fullkomlega. Þvílíkur léttir. Ekki alveg á dagskránni að kaupa nýjan bíl núna.

2010-06-17

Sá áðan fyrirsagnir

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:01

á netmiðlunum:

Neyðarfundir hjá eignaleigufyrirtækjum o.s.frv.

Hvernig ætli það sé með þessi fyrirtæki, ætli þau hafi ekkert verið búin að búa sig undir það að tapa máli í hæstarétti? Miðað við þessar fréttir þá lítur út fyrir að svo hafi ekki verið.

2010-06-13

Ættarmót

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 22:13

Við fórum á ættarmót í gær. Þetta var ætt föðurafa míns og systkyna hans. Alls átti hann 9 systkini, sem öll komust á legg. Öll nema tveir bræður hans eignuðust afkomendur þ.a. ættboginn er orðinn nokkuð stór núna. Líklega eitthvað um 300 manns. Af öllum þessum fjölda var mættur um helmingur á mótið.

Ættarmótið var haldið í Varmalandi í Borgarfirði. Við lögðum af stað um morguninn og vorum mætt um eittleytið, þegar formleg dagskrá átti að hefjast. Síðan tók við dagskrá. Ræður, kynningar, kaffi, erindi, matur, söngur og skemmtiatriði. Hildigunnur hafði sem betur fer áttað sig á að kippa með nokkrum bókum til að krakkarnir myndu ekki drepast úr leiðindum undir ræðuhöldum og kynningum. Síðan hittu þau náttúrlega frændsystkini á svipuðu reki sem þau gátu leikið og spjallað við.

Fyrir mig var þetta mjög skemmtilegt og fróðlegt að fá tækifæri til að átta sig á þessari stóru ætt. Sumt af þessu fólki þekkti ég fyrir, aðra hafði ég heyrt getið um en langflesta þekkti ég ekki neitt fyrir.

2010-06-7

Stutt klipping

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 22:03

Finnur fór í klippingu í dag. Ég fór svo í klippingu á eftir honum og fékk þá að heyra gullkornin, sem hann hafði reytt af sér í þetta skiptið. Hann var greinilega mjög ákveðinn í því hvernig klippingu hann ætlaði að fá sér því hann var varla kominn inn á klippistofuna að hann sagðist ætla fá shortcut. Bætti svo við: „Ég vil fá stysta shortcut sem þú átt“. Hann fékk það og er núna með ca. 1 mm sítt hár. Gríðarlega flottur.

2010-06-5

Bilað vökvastýri

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 21:49

Á leið heim úr innkaupaferð á fimmtudaginn þá heyrðist skyndilega smellur og svo varð stýrið níðþungt. Eins og að keyra traktor næstum því. Það var náttúrlega ekkert hægt að búa við þetta þannig að morguninn eftir þá hringdi ég í viðgerðarmanninn okkar. Hann átti að sjálfsögðu ekki lausan tíma fyrr en á mánudaginn. Við sáum því fram á að vera bíllaus nánast alla helgina. Gátum fengið bíl lánaðan hjá Hallveigu. Reddaði okkur í morgun. Eftir hádegið þá fór ég að bóna bílinn. Ákvað þá að kíkja aðeins ofan í húddið og athuga hvort ég sæi eitthvað sem æpti á mig í sambandi við vökvastýrið. Það kom í ljós að reim hafði farið út af trissuhjóli sem tengdist dælunni fyrir vökvastýrið. Ég ákvað að prófa að smokra reiminni upp á hjólið aftur en það náðist ekki alveg. Þá datt mér í hug að prófa að starta bílnum smávegis. Það reyndist nóg til að reimin hrökk upp á hjólið aftur. Þetta reyndist svo nóg til að laga bilunina. Spurning hvort að maður stofni ekki bara verkstæði í framhaldinu.

2010-06-2

Ástralía #8 (meira úr grasagarðinum í Sydney)

Filed under: blóm — Jón Lárus @ 23:53

Ég lofaði víst hér að setja inn einhverjar myndir af allra undarlegustu trjánum, sem við rákumst á í grasagarðinum í Sydney. Best að efna það loforð.

Fyrst er hér mynd af tré, sem kallað er flöskutré (eða bottle tree). Af þeim eru víst til fjölmargar tegundir og ekki allar eins og flaska eða karafla í laginu. Þetta tré leit út eins og flaska, sem er við það að velta um koll. Enda voru greinilega aðgerðir í gangi til að reyna rétta tréð við. Búið var að strengja línu (sem sést kannski ef myndin prentast vel eða hét það ekki það í gamla daga) í annað, mun stærra, rétt hjá.

Flöskutré

Annað stórundarlegt tré er hið svokallaða fílafótartré

Fílafótartré.

Banksíur (heita eftir grasafræðingnum sem var með Cook þegar hann rakst á Ástralíu) eru svo enn eitt furðuverkið. Blómin líta út svipað eins og könglar úr fjarlægð en eru það alls ekki.

Banksía

Eina sem ég er svekktur yfir er að hafa ekki áttað mig á því fyrr en síðar að wollemi pine (trjátegund sem fannst árið 1994, hafði fram að því aðeins verið þekkt sem steingervingur) vex villt rétt hjá Sydney. Það hlýtur að vera til eintak af þeirri plöntu í grasagarðinum þarna í Sydney. Fyrir áhugasama er hægt að lesa meira um þennan lifandi steingerving hér

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.