Bílinn okkar bilaði núna um helgina. Þetta byrjaði á sunnudaginn að ég tók eftir því að það lak eitthvað undan vélinni þegar Hildigunnur stoppaði til að hleypa mér út og færði bílinn svo í betra stæði. Ég fór og kannaði málið og sá að það var komið stærðar gat á efri vatnskassahosuna. Slæmt mál en við þurftum að nota bílinn þannig að ég bætti vatni á kassann og fyllti síðan 2l gosflösku af vatni til að hafa í bílnum. Stuttu seinna þá þurfti ég að erindast eitthvað og þá var gangurinn í bílnum orðinn mjög skrítinn. Gekk bara á þremur og minnti þetta mjög á þegar vélin í gamla bílnum okkar gaf upp öndina. Við vorum frekar svekkt yfir þessu. Hristumst samt á bíldruslunni á tónleika um kvöldið. Síðan eftir tónleikana þá hagaði bíllinn sér óaðfinnanlega. Ekkert að ganginum í honum.
Pantaði svo tíma á verkstæði á mánudaginn og fékk tíma í dag fyrir bílinn. Við bjuggumst alveg eins við að yrði gefið út dánarvottorð á hann. Það reyndist þó ekki svo slæmt. Það kom í ljós að vatn sem sprautaðist út um gatið á vatnskassahosunni lenti á kveikjuþráðunum og olli þessum gangtruflunum. Eftir að hafa skipt um hosu og þurrkað þræðina þá virkaði bíllinn fullkomlega. Þvílíkur léttir. Ekki alveg á dagskránni að kaupa nýjan bíl núna.