Eftir að hjólinu mínu var stolið um daginn þá fékk ég hjólið hennar Freyju lánað til að hjóla í vinnuna í tvær eða þrjár vikur. Það var náttúrlega ekki hægt að níðast á henni endalaust þ.a. þegar hjólaútsölur byrjuðu þá fór ég á stúfana og fann ágætis götuhjól í Útilífi fyrir 60.000 kall (kostaði upphaflega 80.000). Þurfti svo að kaupa aukahluti, bretti, lás, bjöllu og endaði í næstum 80.000 kalli. Ekki slæmt samt. bjóst alveg við að þurfa að fara eitthvað yfir 100 kallinn til að fá þokkalegt hjól.
Við ákváðum svo á þriðjudaginn var að kíkja á óskilamuni lögreglunnar áður en við færum að reyna að kreista einhverja aura út úr tryggingafyrirtækinu. Eftir smá leit þar rak ég augun í hjólið mitt. Þurfti reyndar smá rekistefnu til að fá það afhent af því ég átti hvorki reikning (keypti það á uppboði lögreglunnar) né var með stellnúmer (hafði aldrei komið því í verk að skrifa það niður). Gekk nú samt upp að lokum.
Þannig að í staðinn fyrir ekkert hjól fyrir nokkrum dögum þá er ég núna með tvö hjól.
Færðu inn athugasemd