Strč prst skrz krk

2010-09-29

Hrísgrjónaverð

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:31

Verð á hrísgrjónum hér í búðum hefur valdið mér talsverðum heilabrotum upp á síðkastið. Við höfum keypt Tilda basmati grjón, sem fást í mismunandi pakkningum. Stærsti pokinn, fjögurra kílóa þungur, sem maður hefði fyrirfram áætlað að væri með lægsta kílóverðið kostar u.þ.b. 3500 kall í lágvörubúðum (eða ca. 875 kall á kílóið). Kílóspakkning kostar svo eitthvað um 800 kall en ef maður kaupir 500 gramma pakkningu, sem inniheldur 5 hundrað gramma suðupoka þá kemst maður af með 670 krónur á kílóið. Stærsta einingin semsagt langdýrust. Ég skil þetta ekki alveg.

Við rákumst svo fyrir nokkrum dögum inn í Kost og fundum þar níu kg poka af basmati hrísgrjónum á mjög svipuðu verði og fjögurra kg pokinn af Tilda grjónunum kostar. Þóttumst himinn höndum hafa tekið. Erum búin að prófa grjónin. Kannski ekki alveg jafngóð og Tilda en fín samt.

2010-09-11

Gullkorn

Filed under: Afmæli — Jón Lárus @ 22:02

hjá Finni enn einu sinni. Mamma átti afmæli í dag. Varð 67 ára. Í tilefni af því bauð hún okkur í mat. Þegar við mættum til þeirra þá rauk Finnur upp stigann til ömmu sinnar og sagði: „Jæja amma nú ert þú orðinn eldri borgari!“. Við ranghvolfdum alveg augunum yfir þessu, ekki endilega víst að þetta sé eitthvað sem maður vill vera minntur á. Amma hans hins vegar hló nú bara að þessu.

2010-09-7

Fyrsti

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:59

fótboltatíminn á haustmisserinu var í kvöld. Algjör snilld að vera aftur farinn að sparka í tuðru. Smá ryðgaður til að byrja með en þegar maður var búinn að átta sig á hvað sneri fram og hvað aftur á boltanum þá smátt og smátt skánaði spilið. Eins og vera ber í fyrsta tíma þá sáust nokkrar skrautlegar brennslur en inn á milli sáust líka einstaka tilþrif. Þá var sprettþolið ekki upp á marga fiska. Má búast við harðsperrum á morgun.

2010-09-5

Hlemmur

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:33

Mér finnst, þar sem á nú að leggja Hlemm af sem strætómiðstöð, að eigi að nota tækifærið til að gera eitthvað uppbyggilegt þarna. Staðurinn í dag er alveg hryllilegur og hefur lengi verið. Það væri til að mynda hægt að rífa skrambans hjallinn, sem er með þeim ljótari í þessari borg og er þó af nógu að taka. Í staðinn mætti gera lítið torg eða garð. Þar mætti gjarnan vera gosbrunnur en af þeim ert all of lítið í þessari borg.

Bloggaðu hjá WordPress.com.