Strč prst skrz krk

2010-11-23

Nóvemberkaktusinn

Filed under: blóm — Jón Lárus @ 23:12

okkar blómstrar nú eins og enginn sé morgundagurinn. Hann er núna loksins að ná sér á strik aftur eftir að Loppa ýtti honum út á gólf fyrir fjórum til fimm árum. Fyrir þann tíma blómstraði hann eins og vitleysingur, nánast blóm á hverri grein. Við það að detta í gólfið þá brotnaði hann og hætti að blómstra að mestu leyti. Í hitteðfyrra komu nokkur blóm og í fyrra aðeins fleiri. Og nú blómstrar hann eins og hann eigi lífið að leysa. Smá sýnishorn hérna, myndir sem Freyja tók í dag:

Nóvemberkaktusinn okkar.

Og meira.

Og enn meira af nóvemberkaktusnum.

2010-11-17

Meira landafræðinám

Filed under: Nám,Ruglið — Jón Lárus @ 22:32

Núna var drengurinn að læra um Vestfirði í landafræðinni. Hann átti að gera krossgátu með ýmsum staðaheitum og örnefnum. Meðal annars var spurt um vestasta odda Íslands og Evrópu. Ég sagði við Finn að það væru Bjargtangar. Skömmu síðar sagði Finnur að það passaði ekki inn í krossgátuna. Ég varð alveg hlessa og fór að skoða þetta með honum. Þá kom í ljós að í námsefninu var vestasti oddinn sagður vera Látrabjarg! Sem er náttúrlega alger þvæla.

2010-11-11

Landafræðinám

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 12:10

Finnur var að vinna heimaverkefni í landafræði í gærkvöldi. Efnið var landafræði vesturlands. Gekk nú frekar rólega hjá honum þannig að ég settist niður með honum svona til að halda honum við efnið. Eitt af verkefnunum var að nefna tvo jökla. Hann varð frekar fúll þegar ég sagði að hann yrði að finna annan jökul en Snæfellsjökul þar eð hann hefði nefnt hann sem eitt af fjöllum landshlutans. Ég benti honum á að finna landabréfabókina og athuga hvort hann sæi ekki einhverja jökla í henni. Hann fékkst nú til þess. Ég vissi síðan ekki hvert hann ætlaði þegar hann sá jökulinn Ok. Fannst þetta alveg gríðarlega fyndið. Síðan ruddi hann út úr sér nokkrum ok bröndurum. Tók langan tíma að koma honum á beinu brautina aftur.

2010-11-7

Teppalagður bíll

Filed under: Bílar,Ruglið — Jón Lárus @ 23:13

Það tók mig smá tíma að átta mig á því hvað væri óvenjulegt við þennan bíl. Þetta kallar maður nú að ganga alla leið…

2010-11-3

Nagladekk

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 21:08

Keypti mér nagladekk á hjólið um síðustu helgi. Skellti svo nýju dekkjunum strax undir. Var því tilbúinn undir vetrarfærð á mánudaginn. Sá ekki eftir því þegar ég kom út í dag. Snjóaði og allt orðið alhvítt. Það var nú ekkert mjög hált þ.a. ég veit nú ekki hversu miklu munar. Kemur í ljós þegar verður meiri hálka.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.