Gleðilegt nýtt ár
og takk fyrir þau gömlu.
Ákvað að setja saman einn svona topp ellefu lista. Varð náttúrlega að vera með prímtölufjölda.
Viñas del Vero Blecua, 1998, Spánn. 95
Bodega Catena Zapata Nicolás Catena Zapata, 2003, Argentína. 93
Alenza Gran Reserva, 2001, Spánn. 93
Shaw and Smith Chardonnay M3 Vineyard, 2008, Ástralía. 92
Arnaldo-Caprai Sagrantino di Montefalco 25 Anni, 2003, Ítalía. 92
d’Arenberg Shiraz The Dead Arm, 2006, Ástralía. 92
Castillo Perelada Empordà Finca Malaveïna, 2005, Spánn. 92
Peter Lehmann Shiraz Stonewell, 1999, Ástralía. 92
Bava Barolo Contrabasso di Castiglione Falletto, 2000, Ítalía. 92
Oremus Tokaji Aszú 5 Puttonyos, 1999, Ungverjaland. 92
Benovia, Sonoma County, Zinfandel, 2008, BNA. 92
Rakst á eftirfarandi grein um efnið (2,4,6-trichloroanisole) sem veldur vondu lyktinni og bragðinu í korkuðum vínum. Það sem mér fannst merkilegast í henni er að því er haldið fram að hægt sé að laga vín sem svona er ástatt fyrir með því að láta það komast í snertingu við matarplastfilmu í nokkrar mínútur. Þetta verður prófað næst þegar við rekumst á korkaða flösku.
Fékk jólapakka frá vinnunni núna í vikunni. Eins og undanfarin ár þá samanstóð pakkinn að mestu leyti af matvælum af ýmsu tagi; reyndar fjölbreyttari núna en oft áður. Ég var nátttúrlega á hjólinu, eins og oftast, og hafði því ekkert allt of mikið pláss í skjattanum. Ákvað því að taka heim í fyrstu lotu það sem þurfti á kælingu að halda. Henti því í pokann reyktum og gröfnum laxi, tveimur mismunandi hvítmygluostum, hreindýrakæfu, ítalskri pylsu og stórum pakka af soðinni en óskorinni skinku (held ég sé ekki að gleyma neinu). Hjólaði svo áfallalaust heim og henti öllu inn í ísskápinn. Svo kom Hildigunnur heim, ég mundi að sjálfsögðu ekkert eftir því að segja henni frá því að ég hefði fengið pakka frá vinnunni. Svo opnaði hún ísskápinn og sá hvert matgæðingsstykkið á fætur öðru og í nokkrar millisekúndur giska ég á að hún hafi hugsað: Ekki sleppa Jóni einum út í búð…
bloggafmæli. Átti 5 ára bloggafmæli í gær. Kominn með vel yfir 900 færslur, sem er ekki svo slæmt miðað við að blogga bara á prímtöludagsetningum (nema með örfáum undantekningum, aðallega Fibonacci svindl þá).
Ein fyndnasta frétt, sem ég hef séð í langan tíma birtist á bls. 2 í Fbl. í morgun. Fyrirsögnin var: Tollstjóri í stríði við fljúgandi furðuhlut! Og fjallaði um baráttu tollstjóraembættisins við að koma í veg fyrir að almenningsklósett verði staðsett fyrir utan Tollhúsið. Tollstjóraembættið fann þessu allt til foráttu og var ýmislegt tínt til. Með greininni var svo mynd af sjálfum tollstjóra, uppstríluðum með kaskeiti à la ríkislögreglustjóri. Ég vissi ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta eftir lesturinn.
Fyrir nokkru, ætli það séu ekki komnar næstum tvær vikur síðan, kom sérkennilegur atburður fyrir hérna hjá okkur. Hildigunnur var á æfingu, gott ef Freyja var ekki með henni og Fífa hafði farið eitthvað út með Valda. Semsagt bara við Finnur heima. Það var komið að háttatíma hjá honum. Ég sagði honum að fara niður og klára kvöldverkin og fara að sofa. Fór svo á eftir honum, hvort ég ætlaði að sækja bók. Allavega ég verð var við eitthvað þrusk frammi á gangi. Hélt að Fífa og Valdi væru komin aftur en kíkti samt fram til öryggis. Þá stendur þar einhver maður, sem ég þekkti ekki neitt. Varð náttúrlega afar undrandi en áður en ég næ að koma upp orði þá spyr hann Njálsgata 6, er Sigríður hérna? Ég næ nú að svara því til að í þessu húsi sé engin Sigríður. Áður en ég náði að bæta fleiru við sneri hann sér við og hvarf út í myrkrið. Frekar óþægilegt.