Strč prst skrz krk

2011-02-13

Ertu ekki að grínast?

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 22:16

Hrökk upp úr mér í gærkvöldi þegar pústið á bílnum hrökk í sundur. Við vorum stödd úti á Seltjarnarnesi og skröngluðumst heim við illan leik með pústið skrapandi malbikið. Krossuðum putta fyrir hverja hraðahindrun en þær eru nokkrar á leiðinni. Þetta hefði kannski ekki verið í frásögur færandi nema núna er í uppsiglingu fjórða verkstæðisferðin á tveimur vikum.

Fyrri þrjár heimsóknir á verkstæðið voru pústi þó alls ótengdar heldur var vesen með kælibúnaðinn á honum. Hann lak kælivökva og rétta ástæðan fannst ekki fyrr en í þriðju tilraun. Fengum bílinn til baka loksins í fínu lagi á föstudaginn. Í gærmorgun byrjaði að heyrast pústhljóð (og við: þú hefðir nú getað verið aðeins fyrr á ferðinni með þetta) sem ágerðist yfir daginn og svo endaði það með að rörið fór alveg í sundur um kvöldið.

Ég skreiddist undir bílinn í morgun og náði að binda pústið upp. Síðan var farið með hann að verkstæðinu okkar. Spurning hvort að viðgerðagæjarnir verða ekki glaðir að sjá bílinn enn einu sinni?

Bloggaðu hjá WordPress.com.