Strč prst skrz krk

2010-08-29

Vona

Filed under: Bjór — Jón Lárus @ 22:51

að takist að halda áfram framleiðslu á bjórunum frá Ölvisholti þótt brugghúsið hafi farið á hausinn. Langferskasta og besta brugghús landsins að mínu mati. Móri alveg klárlega uppáhalds íslenski bjórinn minn. Yrði sjónarsviptir ef hann hyrfi af sjónarsviðinu ásamt Freyju, Skjálfta og Lava.

2008-04-5

Namm

Filed under: Bjór — Jón Lárus @ 23:08

Var að drekka hollenskan trappistabjór, alveg þvílíkt góðan. La Trappe, quadrupel. Hnetubragð, perubrjóstsykursilmur (veit, þetta hljómar fáránlega). Verður pottþétt keyptur aftur.

2007-07-3

Hvað á það svo

Filed under: Bjór,Hneykslun — Jón Lárus @ 19:10

að þýða að vera ekki með bjór/vínkæli í Austurríki? Þýddi að maður neyddist til að hjóla upp í Kringlu til að fá kaldan bjór.

2007-06-5

Andechs, framhald.

Filed under: Bjór — Jón Lárus @ 12:23

Fengum tvær flöskur af uppáhaldsbjórnum okkar um daginn. Nú erum við búin að smakka hann á móti tveimur afbragðs bjórum, sem fást hér nú um stundir.  Annars vegar Holsten festbock og hins vegar Chimay brune.

Gerðum þetta mjög vísindalega.  Smökkuðum fyrst saman Andechs og Holsten.  Og síðan Andechs og Chimay.  Í stuttu máli sagt.  Andechs er ennþá uppáhaldsbjórinn okkar.   Það er bara svo einfalt.  Ekki verið að kasta neinni rýrð á hina bjórana samt.  Andechs er bara svo hrikalega góður.

Við erum búin að ákveða að það líða ekki 9 ár þangað til við smökkum hann næst.  Pílagrímsferð til Münchenar á stefnuskránni.  Kannski í október.

2007-05-13

Andechs

Filed under: Bjór,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 22:32

Finnbogi, kór og hljómsveitarfélagi Hildigunnar kom færandi hendi fyrir nokkrum dögum. Hann hafði verið á ferðalagi í suður Þýskalandi. Hann hafði pata af því að uppáhaldsbjór okkar beggja, Andechs doppelbock dunkel, væri frá þessu svæði og varð sér úti um tvær flöskur fyrir okkur.

Við höfum ekki smakkað þennan bjór í næstum 10 ár. Þannig að við gott tækifæri einhvern tímann á næstunni verður bragðað á Andechs. Það verður nú eiginlega að nota tækifærið og smakka hann í samhengi við aðra toppbjóra, sem við höfum kynnst nýverið. Orval eða Chimay til dæmis.

Gleymi því seint þegar við smökkuðum þennan bjór í fyrsta skipti. Við vorum í heimsókn hjá Mörtu, frænku Hildigunnar, sem þá var við nám í München. Við komum þangað frá París og ég hafði tekið með nokkra Pelforth brune, sem er fínn bjór. Við gáfum henni að smakka á Pelforth og hún sagði eitthvað á þá leið: Já, þetta er fínn bjór en þið verðið að smakka Andechs. Daginn eftir fórum við á drykkjarmarkað og keyptum þennan bjór. Maður féll svo næstum því í trans þegar bragðað var á honum. Alltaf jafn gaman þegar maður rekst á eitthvað nýtt, sem er svona gott.

2006-12-11

Já bjórsmakkið

Filed under: Bjór — Jón Lárus @ 21:57

Hildigunnur var nánast búin að lofa að ég myndi tjá mig eitthvað um bjórsmakkið, sem við fórum í hjá Kalla sl. föstudag. Þannig að nú er best að láta verða af því.

Þetta er í fyrsta sinn sem við förum í bjórsmakk. Þannig að maður vissi ekki alveg við hverju mætti búast. Smökkunin hófst á Hoegaarden hveitibjór og Franziskaner sem er líka hveitibjór. Við Hildigunnur höfðum ekki smakkað hveitibjór í áreiðanlega 15 ár og þótti hvorugu góður þá. Á þessum 15 árum hefur smekkurinn greinilega breyst. Ég segi nú ekki að maður fari að hlaupa út í ríki eftir honum en það mátti vel skola honum niður.

Því næst var prófaður Duvel, belgískur bjór sem er 8,5%! Samt ekki hægt að finna það á bragðinu. Þetta er ljós bjór en samt ekki pilsner týpa. Mjög góður. Þessu næst komu tveir bjórar frá Samuel Adams í Boston. Sá fyrri var lager, fínn frá þessu trausta brugghúsi. Sá síðari var svo winterlager, mun fyllri og betri bjór.

Þá var röðin komin að fallbyssunum. Dreginn var upp Orval, sem er belgískur Trappistabjór. Miklar seremóníur þarf til að hella þessum bjór í glösin því helst ekkert af botnfallinu má fara með. Ég hafði ekki smakkað bjór af þessu tagi í álíka langan tíma og hveitibjóra. Hafði ekki kunnað við bragðið þá en bragðlaukarnir hafa greinilega þroskast. Mér fannst Orval a.m.k. mjög fínn núna. Svo til samanburðar dró Kalli upp Orval sem hann var búinn að geyma í ár. Ótrúlegur munur á „sama“ bjórnum. Þessi var ef eitthvað var enn betri.

Að lokum var dregin fram enn önnur kanóna en það var Chimay 2003 ef ég man rétt. Ég hefði ekki trúað að það væri hægt að búa til bjór með svona slungnu bragði.

Þegar hér var komið sögu voru bjórarnir á smakklistanum búnir. Kalli var hins vegar kominn í ham og kom með bjór sem ég man ekki hvað heitir (gleymdi smakknótunum mínum á sófaborðinu). Svona af svipuðum klassa og Orvalinn og Chimayinn.

Þetta var alveg snilldarkvöld og fyrir mér opnaði þetta alveg nýjar víddir. Sérstaklega hvað varðar belgísku bjórana. Takk kærlega fyrir mig.

2006-10-3

Hildigunnur

Filed under: Bjór,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí,Vín — Jón Lárus @ 23:58

er náttúrlega búin að telja upp nokkur helstu atriði úr Parísarferðinni hér.

Man svo eftir nokkrum atriðum í viðbót.

Mér fannst merkilegt að sjá hvað var lítill hundaskítur í París núna miðað við þegar við vorum þar síðast (fyrir 15 árum). Áður þurfti maður bókstaflega að fylgjast með hvar stigið var niður. Núna sást hundaskítur aðeins stöku sinnum.

Endurnýjaði kynnin við maltbjórinn Pelforth brune. Svakalega góður bjór.

Fann svo flottustu vínbúð, sem ég hef á ævinni komið inn í. Lavinia á Rue de la Madeleine. Slær svei mér þá Berry Bros í London við. Berry Bros eru þó með flottari heimasíðu.

Að síðustu ísinn í Berthillion.

2006-06-5

Síðar

Filed under: Bjór — Jón Lárus @ 21:53

Nú aðeins um Danmörku:
Varð bæði fyrir vonbrigðum og ánægður með ástandið á bjórmálum í Danmörku. Það sem var ánægjulegt var að á síðustu 3-4 árum hafa sprottið upp smábrugghús út um alla Danmörku. Afleiðingin er sú að úrvalið hefur aukist gífurlega. Í staðinn fyrir að bara fengust grøn og hof, einhverjir discount bjórar eins og Harboe og svo gullbjórar frá Carlsberg og Tuborg þá fást núorðið ótal tegundir. Gallinn er bara sá að verð á bjór í Danmörku er fáránlega hátt. Víðast 40-50 Dkk fyrir bjór í miðbænum. Þetta er bara sama verð og hér hjá okkur. Og Danmörk er í Evrópusambandinu!
Bestu bjórarnir, sem ég smakkaði í Danmörku:
Stout frá Bryghuset Svaneke á Borgundarhólmi, porter á Obelix og hof á Gammel kongevej 90. Þar tekur a.m.k. 10 mínútur að láta renna í eitt glas.
Verstu bjórarnir:
Grøn og grøn. Þann fyrri fékk ég á Hvids vinstue og þann síðari eftir að ég gleymdi að tékka á hvaða bjórar voru í boði á veitingastað, sem við borðuðum á. Þau mistök voru ekki gerð aftur. Að nokkur skuli geta drukkið þetta sull. Vont meira að segja úr krana.
Mestu vonbrigðin:
Að missa af dökka Budweisernum, sem Hildigunnur fékk á Charlie’s. Leitaði að þessum bjór dyrum og dyngjum í Prag en fann ekki. Sérstaklega vegna þess að Time out bókin um Prag sagði eitthvað á þá leið að þetta væri snilldarbjór, bara ef maður fyndi hann. Meira að segja bjórsalinn á Jilská átti hann ekki (a.m.k. ekki þegar ég kom til hans). Hann sneri samt öllu við í leit að honum, hélt hann ætti eitthvað af honum.

2006-06-3

Pragferð

Filed under: Bjór,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 23:59

Til þess að átta sig á því hvað við hjónakornin vorum að vesenast síðustu vikuna er kannski ágætt að kíkja á síðuna hennar Hildigunnar þar sem Danmerkur og Pragferð okkar er rakin í stórum dráttum.

Á meðan Hildigunnur og aðrir kennarar í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar skoðuðu hinar ýmsu tónlistarstofnanir Pragborgar þá þurftum við Jón Heiðar að hafa ofan af fyrir okkur með einhverjum hætti. Það er skemmst frá því að segja að við örkuðum miðbæinn þveran og endilangan. Það náttúrlega segir sig sjálft að mann þyrstir af miklum göngum. Við Jónarnir þurftum því að koma reglulega við á ölstofum til að svala þorsta okkar.
Þeir staðir sem stóðu upp úr voru:
U Fleku: Þar fær maður mjög góðan dökkan bjór, sem er bruggaður á staðnum. Ég las einhvers staðar að þetta væri elsta brugghús þar sem bjórinn er drukkinn á staðnum (microbrewery). Sel það ekki dýrara en ég keypti. Gallinn er hins vegar sá að bjórinn er hrikalega dýr þarna miðað við tékkneskar aðstæður (87,5 Tkr, sem samsvarar um 300 Íkr. Hljómar kannski ekki mikið en víðast annars staðar í miðbænum fást bjórarnir á 50-60 og um leið og er komið aðeins út fyrir mestu ferðamannastaðina fara þeir í 25-30). Þar að auki skilst mér að maður þurfi að fara vel yfir reikninginn því þjónarnir reyni að troða inn á mann Becherovka skotum (sem smakkast eins og fljótandi piparkökur). Talningin á þessum skotum er víst ekki alltaf í sama talnabasa og við eigum að venjast.
Strahov klaustrið: Þar fengum við dökkan bjór úr smábrugghúsi, sem mér fannst vera sá besti í ferðinni. Ólíkt flestum öðrum tékkneskum bjórum þá var þessi sterkur (örugglega vel yfir 5%). Eins og með marga góða bjóra og vín var fyrsti sopinn svolítið hrjúfur en bjórinn batnaði með hverjum sopa.
Á götunni Jilská, sem liggur út frá aðaltorginu fann ég bjórbúð með mjög fínu úrvali. Þar fann ég dökkan bjór, Bernard, sem ég sá ekki á neinni krá. Mjög góður bjór, sem mér fannst komast næst Strahov bjórnum. Þar keypti ég líka Krušovice dökkan, sem ég var fyrir vonbrigðum með. Þriðji dökki bjórinn, sem ég fékk í þeirri búð var Staropramen, ágætis bjór.
Prófaði síðan 3 mismunandi útgáfur af Krušovice (á öldurhúsi rétt hjá aðaltorginu). Venjulegur 10° Krušo var alveg ágætur. Sá dökki olli vonbrigðum. Þriðja týpan, 11°, Muškatýr, var hins vegar langbest. Ég náði ekki að smakka fjórðu týpuna, sem var 12°. Þessi krá var ein af fáum þar sem hægt var að fá meira en 1-2 gerðir af bjór.
Ég skildi ekki alveg hvernig farið er að þessu í Tékkó. Oftar en einu sinni fengum við matseðil í hendurnar þar sem var boðið upp á nokkrar tegundir af bjór. Þegar maður ætlaði svo að panta eitthvað spennandi þá kom í ljós að staðurinn bauð ekkert nema kannski 1 tegund!
Meira síðar…

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.