Strč prst skrz krk

2010-05-29

Ástralía #7 (vínin sem við rákumst á #1)

Filed under: Ferðalög,Vín — Jón Lárus @ 00:37

Annan daginn okkar í Sydney þá röltum við í átt að höfninni. Þetta var algerlega markmiðslaust rölt en samt sem áður tókst okkur að rekast á eina af flottustu vínbúðum bæjarins (Australian Wine Centre), sem ég var búinn að lesa um og var algjörlega á listanum yfir það sem þyrfti að skoða. Við inn. Búð sem sérhæfir sig í áströlskum vínum og er ekki með neitt af fjöldaframleiðsludóti (Lindemans, Penfolds, Brown brothers o.fl). Þarna voru vínflöskur upp um alla veggi, og maður þekkti fæst af því sem var á boðstólum. Við vorum ekki búin að vera lengi inni þegar afgreiðslumaður kom og spurði hvort hann gæti aðstoðað okkur (eitt af því sem ég kunni mjög vel við þarna úti var hvað afgreiðslufólk var vel með á nótunum. Alltaf mætt strax á staðinn til að spyrja hvort það gæti aðstoðað og ef maður sagði að maður væri bara að skoða þá var maður látinn í friði. Ef beðið var um aðstoð þá fékk maður yfirleitt fína þjónustu). Ég spurði hverju hann gæti mælt með undir 20 AUD (ca. 2400 kall) og hann benti okkur á vín sem var í tilboðsrekka hjá þeim á 15 AUD:

Secret label

Við keyptum eina flösku og smökkuðum um kvöldið. Vægast sagt magnað vín. Svo fór ég að skoða miðann betur og gat ekki fundið út hver framleiðandinn væri. Næst þegar við rákumst inn í AWC þá sagði ég við afgreiðslumanninn að þetta væri æðislegt vín en ég hefði ekki áttað mig á því hver framleiðandinn væri. Þá kom í ljós að einhver Barossa framleiðandi hafði ekki viljað setja þrúgurnar af ákveðnum skika í vínið sem hann gerði venjulega vegna þess að það hafði komið hitabylgja þannig að hann treysti ekki þrúgunum í vínið sitt. Í staðinn fyrir að henda berjunum var þá gerður þessi ómerkti mjöður. Við reyndum að pressa meiri upplýsingar út úr AWC mönnunum en þeir sátu fastir við sinn keip. Eina sem við fengum upp úr þeim í viðbót var að vínið sem væri venjulega gert úr berjunum kostaði 70-80 AUD (allt að 9000 kall).

Eftir að vera kominn á bragðið á svona góðu víni þá sá ég voðalega lítið annað. Smakkaði þó Penfolds bin 138, sem var allt í lagi. Peter Lehmann Layers líka (sem var að detta inn í vínbúðirnar hér núna) Alveg hægt að sleppa því, mjög mikil flatneskja. Ekkert ódýrt samt. Síðast en ekki síst þá smökkuðum við Stump jump 2008, sem stendur alltaf fyrir sínu. Er ekki viss um að 2008 árgangurinn sé kominn hingað til lands.

Síðan smökkuðum við hin og þessi hvítvín á veitingastöðum. Flest alveg þolanleg en ekkert þeirra það gott að ég leggði nafnið á minnið.

Áður en við fórum út þá var ég búinn að finna einn hvítvínsframleiðanda, Shaw and Smith, sem leit út fyrir að vera spennandi. Þurfti ekki að leita lengi í AWC að þessu víni. Meðal annars sem ég hafði heyrt um vínin frá S&S var að chardonnay hvítvínið minnti á Chassagne-Montrachet eða Puligny-Montrachet frá Búrgúndarhéraðinu í Frakklandi. Ég þurfti ekki að heyra meira, endaði á því að kaupa tvær flöskur og dröslaði þeim yfir hálfan hnöttinn.

Ástralía #6 (Evidence #1)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 00:05

Var víst búinn að lofa þessu æsispennandi myndbandi. Engir spoilerar hérna en takið sérstaklega eftir lausninni í lokin…

2010-05-28

Ástralía #V (MDCCCLXXXVIII)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 23:07

Fyrst maður er byrjaður þá er best að halda áfram. Á göngu okkar um glæpahverfi Campbelltown þá rákumst við á lengsta rómverska ártal, sem ég hef séð. Get raunar ekki ímyndað mér lengra ártal, á okkar tímum að minnsta kosti.

Langt ártal

Ástralía #4 (Glæpabælið Campbelltown)

Filed under: Ferðalög — Jón Lárus @ 22:55

Geri hérna smá undantekningu á prímtölu/Fibonacchi pakkanum. Var ekki annars eitthvað með að 28 er fullkomin tala?

Á laugardeginum, næstsíðasta degi hátíðarinnar, voru tónleikar í Campbelltown, sem er um klukkutíma akstur fyrir sunnan Sydney. Við fengum að fljóta með þangað í rútu frá hótelinu okkar. Þegar við komum til Campbelltown skildum við við sendifulltrúana, sem voru að fara á fund. Við ákváðum að rölta um bæinn og skoða okkur aðeins um. Komum að gatnamótum og á leiðinni yfir götuna þá mætum við tveimur unglingsstrákum svona 14-15 ára gömlum. Hildigunnur var á undan mér og ég veitti guttunum svosem enga sérstaka athygli. Þangað til að ég mætti þeim þá skyndilega varð ég fyrir jafnvægisröskun og steinlá á bakinu í götunni. Greinilega brandarakarl, sem var að stríða óviðbúnum ferðamönnum. Ég ákvað að kyngja stoltinu og hlaupa ekki á eftir þrjótunum (lexía sem ég lærði í París; maður veit aldrei hvort svona gaurar ganga með hníf á sér). Staulaðist á fætur og dustaði af mér rykið. Við vorum rétt komin yfir götuna þegar við gengum fram á þrjá aðra unglingspilta sem litu mun skuggalegar út heldur en þessir tveir sem hentu mér um koll. Einn var með dredda, annar í hauskúpubol með beinagrindagriplur og sá þriðji leit líka frekar skuggalega út. Við Hildigunnur hugsuðum, hvers lags bær er þetta nú? Héldum samt áfram. Þá voru þetta mestu meinleysisgrey voru fullir samúðar og sögðu okkur að þessir sömu delar hefðu hent einum þeirra um koll rétt áður en þeir tóku mig fyrir. Enn ein áminningin um að dæma ekki eftir útliti.

2010-05-23

Ástralía #3 (vont vatn)

Filed under: Ferðalög — Jón Lárus @ 23:58

Vatnið í Sydney er ógeðslegt. Klórblandaður viðbjóður. Það var svona með herkjum að maður gæti burstað tennurnar úr kranavatninu.

Við fórum svo í dagsferð í Bláfjöll (Blue mountains) sem eru um 100 km fyrir vestan Sydney. Það var búið að fullvissa okkur um að vatnið þarna uppi í fjöllum væri hreint og gott. En annað kom nú á daginn. Fengum kranavatn á karöflu á veitingastað þarna uppfrá. Ég tók einn sopa og gat ekki komið öðrum niður. Maður býr greinilega við mikil forréttindi hvað vatnið varðar hérna á klakanum.

Ástralía #2 (grasagarðurinn)

Filed under: blóm,Ferðalög — Jón Lárus @ 23:46

Eftir að hafa dvalið nokkra daga í Sydney þá hafði ég varla séð neina plöntu sem ég kannaðist við. Einu trén sem ég þekkti voru platan tré og svo furur. Sama mátti segja um blómin. Einu blómin sem ég hafði séð áður voru blóm sem maður sér sem stofublóm heima.

Ég hafði frétt af því að í Sydney væri mjög flottur grasagarður og Þegar ISCM hátíðin var búin þá ákváðum við að kíkja aðeins á hann. Endaði nú á því að vera aðeins meira en kíkj. Tókum tvo langa göngutúra um garðinn og náðum að skoða talsvert stóran hluta af honum. Er ekki frá því að þetta sé flottasti grasagarður sem ég hef komið í ef ekki þá að minnsta kosti sá frjálslegasti . Þarna er fólk hvatt til að ganga á grasinu.

Alveg magnaðar sumar lífverurnar sem þrífast þarna fyrir sunnan. Flöskutré, fílafótartré og svo furðulegustu tré sem ég hef séð, frá Nýju Kaledóníu (myndir koma síðar).

2010-05-19

Ástralía #1 (nörd á suðurhveli jarðar)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 23:31

Best að henda inn nokkrum punktum um Ástralíuferðina sem við Hildigunnur (ásamt Kjartani Ólafssyni hluta af tímanum) fórum í núna í maí. Þetta verður nú ekki nein ferðasaga í þeim skilningi; Hildigunnur sér um þá hlið mála.

Það voru nokkur atriði sem ég var spenntur fyrir að sjá og skoða á suðurhveli jarðar. Meðal atriða á tikklistanum voru að kíkja á stjörnuhimininn þar sem nánast öll stjörnumerkin (m.a. suðurkrossinn) eru framandi. Ganga úr skugga um að hringiður snúist rangsælis og sjá sólina í hápunkti í norðri.

Fyrsta daginn okkar í Sydney þá flaskaði ég á þessu síðasttalda atriði (þótt ég hefði átt að vita betur). Við ætluðum að fá okkur göngutúr að óperuhúsinu (sem var í norðurátt frá hótelinu okkar). Komum út og mér fannst að sólin væri í suðri. Gengum þess vegna undan sól. Við áttuðum okkur á mistökunum þegar við komum að aðaljárnbrautarstöðinni, sem við vissum að væri í suðurátt frá hótelinu okkar. Magnað að geta klúðrað þessu.

Til þess að kanna atriði númer tvö þá lét ég renna í baðkarið á hótelinu. Hleypti svo úr því og viti menn: Þetta stemmdi, hringiðan sem myndaðist snerist rangsælis. Þetta var að sjálfsögðu dokumenterað rækilega. Eins víst að æsispennandi myndband þessu til sönnunar verði hent hér inn síðar.

2008-08-11

3 afmæli og jarðarför

Filed under: Afmæli,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 21:24

Þeystumst landið nánast enda á milli um helgina til að vera við þrefalt afmæli. Fertugsafmæli Helgu svilkonu, sjötugsafmæli mömmu hennar og tíu ára afmæli Brynhildar, dóttur Helgu og Þorbjarnar. Hildigunnur lýsir ferðalaginu í þaula hér í skemmtilegri færslu.

Þurftum síðan að vera komin heim í gær því í dag var Bjössi frændi, sem lést fyrir nokkrum dögum, jarðsettur. Falleg athöfn í góðu veðri. Hljómeyki söng, fólk almennt mjög ánægt með þeirra framlag. Hallveig með sóló. Skilaði því glæsilega eins og við var að búast.

Þessi þeytingur allur hefur hins vegar gert það að verkum að ég er alveg búinn að vera núna. Verður farið snemma í bólið.

2008-06-29

Komin heim

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 18:03

eftir alveg snilldarferð til Tékklands, Danmerkur og Svíþjóðar. Tékkneskur kammerhópur hafði pantað verk af Hildigunni og ætlaði að frumflytja í vikunni (hún á svo eftir að rekja ferðasöguna nánar, ef ég þekki hana rétt). Ætlunin var að fylgjast með æfingum og svo hlusta á frumflutning.

Flugum 21. til Danmerkur og svo strax áfram til Prag. Á flugvellinum þar vorum við sótt af útsendurum kammerhópsins. Brunað beint til Plzeň og í íbúð, sem hópurinn hafði útvegað okkur. Ótrúlegir þessir Tékkar. Ekki nóg með að okkur væri útveguð íbúð; fín íbúð, samt spartönsk, heldur höfðu þeir fyllt ísskápinn líka af mat og bjór!

Dagarnir liðu síðan við að rölta um borgina, slaka á með bjórkrús og svo fylgjast með æfingum á verkunum hennar Hildigunnar. Hildigunnur var líka fengin til að flytja fyrirlestur um tónlistina sína í tónlistarháskólanum í Plzeň. Hún náttúrlega kláraði það með sóma eins og hennar er vísa. Stoltur af minni.

Þrennt náði ég svo að smakka í ferðinni, sem ég hafði aldrei bragðað áður. Fyrst að telja var villigöltur. Við reyndum að fá slíkan rétt í Prag fyrir tveimur árum en tókst ekki. Hildigunnur rakst svo á villigölt á matseðli á veitingahúsinu Svejk og það var náttúrlega ekki hægt annað en smakka. Skil Steinrík betur núna þó þessi hafi ekki verið grillaður.

Síðan náði ég að smakka tvo bjóra, sem lengi hafa verið á listanum. Annars vegar ósíaður Pilsner Urquell og hins vega dökkan Budweiser Budwar (Tmavý ležák), sem Hildigunnur smakkaði fyrir tveimur árum og hafði hrósað í hástert. Við höfðum reynt að finna þennan bjór síðan en ekki tekist fyrr en nú. Í stuttu máli sagt þá er þessi bjór frábær. Meira að segja úr flösku. Ætli hann sé ekki svo himneskur af krana? Hef ekki smakkað úr krana enn en hlakka til.

Það var síðan eitt sem við höfðum ákveðið að reyna að útvega úti í Tékklandi. Þannig er að garðhliðið okkar, úr smíðajárni er bilað. Fjöðrin til að loka því er brotin. Við fórum í fyrra í járnsmiðju og ætluðum að fá þetta lagað. Járnsmiðurinn þar tók vel í þetta en svo kom í ljós að flatjárn, sem þarf í þetta virtist ekki fást hér á landi. Ég hugsaði með mér að í landi þar sem er fullt af gömlum húsum með ótrúlega flottu smíðajárnsverki hlyti að vara hægt að útvega svona flatjárn. Við nefndum þetta við flautuleikarann okkar og hann fór í málið. Hann talaði við iðnaðarmanninn sinn og það kom í ljós að þetta ætti að vera hægt. Tveir staðir í Plzeň. Síðasta morguninn þá fórum við ásamt flautuleikaranum í leiðangur. Á fyrri staðnum sem við fórum á þá fékkst þetta ekki en í seinni járnsmiðjunni þá fékkst flatjárnið, sem okkur vantaði í í lange baner. Við vorum þokkalega ánægð með þetta.

Járnsmiðjan

Á morgun förum við að hitta járnsmiðinn okkar. Hendum í hann flatjárninu: „Þetta þurftum við að sækja til Tékklands.“ Lagaðu nú hliðið okkar!

Held ég staldri við nú. Meira á næsta bloggdegi.

2007-09-7

Stutt

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 16:58

að þessu sinni. Erum á leiðinni í sumarbústað uppi í Borgarfirði. Vorum heppin. Bjössi bróðir verður í húsinu á meðan. Sér um Loppu og blómin.

2007-08-17

Selatangar

Filed under: Ferðalög,Frí — Jón Lárus @ 21:18

Fórum, öll fjölskyldan, í sunnudagsbíltúr í dag. Ókum sem leið lá fram hjá Kleifarvatni. Stoppuðum þar smá stund til að tína ber. Héldum síðan áfram til Selatanga. Horfðum á öldur og brim dágóða stund. Öldur eru eins og eldur. Hægt að horfa endalaust á þær.

Öldur við Selatanga

Þegar við gátum slitið okkur frá Selatanga lá leiðin til Selfoss eftir Suðurstrandarvegi til að kaupa málningu, sem fékkst hvergi annars staðar á landinu. Og ís. Eftir ísinn var síðan ekið í bæinn. Snilldar bíltúr.

2007-08-8

Le Marche II

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Frí,Matur — Jón Lárus @ 22:09

Ég veit, ég veit. Það er ekki prímtöludagsetning í dag. Ætla samt að svindla aðeins og taka Fibonacchi á þetta.

Vikan leið semsagt hjá okkur í því sem næst algerri leti. Sólin sleikt, lesið og slappað almennt af. Síðan úðaði maður í sig mat og drykk. Dæmigerður morgunmatur leit þannig út: Espressó, greipsafi, jógúrt og brauð með skinku og bel paese osti. Namm!

Dæmigerður morgunmatur

Við Hildigunnur, Fífa, Anna Sigga og Alexsandra skutumst til San Marínó einn daginn. Vorum um 5 tíma að keyra fram og til baka. Keyptum slatta af líkjörum og svo piadinupönnu.

Þótt við værum þarna úti í þvílíkri sveit þá þurfti maður ekki að fara langt til að finna fínustu veitingastaði. Fyrsta kvöldið okkar fórum við á pizzustað í S. Vittoria in Matenano, smábæ svona 10 km frá húsinu okkar. Pizzurnar þar voru í einu orði sagt hrikalega góðar, með þeim betri sem maður hefur smakkað.

Beðið eftir pizzum

Annað veitingahús sem við fórum á var í pínulitlu þorpi rétt hjá Comunanza, sem var stærsti bærinn í nágrenninu. Veit ekkert hvað þorpið hét en veitingastaðurinn hét Re Artù. Ég fékk mér tagliatelle með jarðkeppum. Í annað skipti á ævinni sem ég smakkaði slíkt hnossgæti. Þar sem við vorum ekki á jarðkeppatíma þá voru bara notaðir þurrkaðir sveppir. Ég get nú ekki sagt að það hafi verið mikið bragð af réttinum. Maður verður bara einhvern tímann að fara til Ítalíu á bilinu nóvember til mars til að prófa ferska jarðkeppi. Þá skilur maður kannski af hverju þeir eru lofsungnir svona.

Síðasta kvöldið sem við vorum í Le Marche fórum við svo á mjög fínan stað í mjög litlu þorpi sem var u.þ.b. 5 kílómetra frá húsinu okkar. Staðurinn heitir Le Logge. Þar fengum við blandaða forrétti (4 mismunandi réttir) hver öðrum ljúffengari. Síðan var blandað grill, sem var ekkert smá gott. Eins og venjulega var grillaði kálfurinn bestur. Eigum eftir að prófa það sjálf hér heima. Í lokin fengu þeir, sem höfðu verið svo forsjálir að geyma pláss í lakanum, sér eftirrétt. Útsýnið frá þessum stað var glæsilegt. Þorpið stóð efst upp á kletti og á veitingastaðnum voru tvennar svalir með útsýni yfir nærliggjandi dali. Punkturinn yfir iið var síðan víngeymsla veitingahússins sem gestir staðarins gátu skoðað.

Vngeymslan

Ég var ekki alveg búinn að gefast upp á skokkinu þótt við erfiðar aðstæður væri að etja. Næstsíðasta daginn þá rakst ég á dauðan snák. Hann var a.m.k. metri á lengd. Seinna um kvöldið, á leiðinni á Le Logge þá stoppuðum við og tókum mynd af hræinu. Fréttum síðar að þessi tegund væri sauðmeinlaus.

Snákurinn

Síðasta morguninn þá skokkaði ég til Smerillo eftir bílnum. Höfðum skilið hann eftir hjá veitingastaðnum. Á leiðinni sá ég mjög stóran ránfugl hnita hringi rétt hjá þar sem ég hafði fundið snákinn daginn áður. Þetta var örugglega örn eða gammur. Hugsanlega hafði hann hirt snákshræið, því það var horfið. Eftir að hafa skoðað fuglabókina þá tókst mér með útilokunaraðferð að finna út að þarna hafi að öllum líkindum verið um gullörn að ræða.

Síðar um morguninn lögðum við af stað áleiðis til Rómar. Að þessu sinni var ekið á hraðbrautum eins og kostur var. Ágætt að losna við hlykkina. Leiðin sem við fórum var afskaplega falleg. Ekið rétt hjá hæsta fjalli Appennínafjallgarðsins, Corno Grande, sem er 2914 m hátt. Þar rétt hjá var ekið í gegnum 10 km löng göng gegnum fjallgarðinn. Enduðum síðan á hóteli við flugvöllinn. Þurftum að vakna kl. 4 næsta morgun til að ná flugi til Stansted og síðar um daginn heim til Íslands.

2007-08-7

Le Marche

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Hlaup — Jón Lárus @ 23:52

Eftir 5 daga í Róm var stefnan tekin til Le Marche þar sem sem stórfjölskyldan ætlaði að dvelja í sveitasetri í eina viku. Tekin var ákvörðun um að aka sem allra stystu leið yfir Appennínaskagann. Eftir u.þ.b. 5 tíma ferðalag komumst við loks á áfangastað, rétt hjá þorpinu Montefalcone Appennino.

Þorpið uppi á kletti

Síðustu 40 kílómetrarnir eða svo á afskaplega þröngum og hlykkjóttum vegum. Þar á leiðinni sáum við fyrsta af mörgum skógareldum, sem komu upp reglulega þarna í nágrenninu.

Húsið var síðan ekkert smá flott. 8 stór og glæsileg herbergi og a.m.k. tvö smærri þannig að hópurinn komst auðveldlega fyrir. Sér sundlaug og tennisvöllur.

Sundlaugin

Sundlaugin átti eftir að koma sér vel. Hitinn þarna var síst minni en í Róm þótt rakastigið væri líklega öllu lægra. Krakkarnir nánast bjuggu ofan í lauginni og okkur fullorðna fólkinu þótti heldur alls ekki slæmt að hoppa út í til að kæla okkur.

Eina sem hægt var að setja út á var að engin loftkæling var í húsinu. Við sváfum því við galopna glugga til að reyna að fá einhvern andvara í gegnum herbergin. Það var allt í lagi því þarna voru nánast engar moskítóflugur. Eftir að hafa verið nánast sem nálapúði eftir Róm þá bættust ekki nema 2 eða 3 stungur við í Le Marche.

Við Jón Heiðar ákváðum að reyna að skokka þarna um nágrennið. Það kom nú í ljós að aðstæður voru skokkurum frekar óhagstæðar. Dalbotninn var í ca. 300 m hæð og þorpið fyrir ofan í rétt tæplega 900 m hæð. Og húsið okkar svona u.þ.b. fyrir miðju eða í um 600 m hæð. Við reyndum fyrst að skokka upp eftir. Það var erfitt. 35 stiga hiti og 2 km stanslaust upp í móti. Við kláruðum 5 km og vorum gjörsamlega búnir. Ákváðum síðan eftir að hafa skokkað upp eftir tvisvar að skokka niður í dalinn. Tókum 6 kílómetra. 2,5 kílómetrar stanslaust niður í móti. Mesti halli yfir 20% og 36 gráðu hiti. Held svei mér þá að þetta séu erfiðustu aðstæður sem ég hef skokkað í á æfinni. Hafi maður verið búinn eftir fyrstu tvö skiptin þá var maður algerlega kláraður þarna. Þetta er ekki svæði sem er hentugt fyrir skokkara.

2007-08-5

Fyrramálið

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 10:23

Já það var þetta með fyrramálið…

Það var bara þessi bók þarna. En nú er ég búinn með hana. Góður lokahnykkur á seríunni og engir lausir endar. Smá eftirsjá samt þegar þetta allt saman er búið. Ekki samt eins og gamall skólabróðir minn, sem sagði að honum hefði beinlínis liðið illa eftir að hafa klárað Hringadrottinssögu, þar sem hann vissi að hann ætti aldrei eftir að lesa nokkuð jafngott.

En nú er ég kominn þokkalega út fyrir efnið. Meiningin var að setja inn einhver brot úr Ítalíuferðinni. Hildigunnur er nú reyndar búin að rekja fyrstu dagana nokkuð ítarlega en hér er semsagt fyrsti skammtur:

Fyrsti dagurinn fór að sjálfsögðu í ferðalag. Flugum til Stansted. Þar þurftum við að bíða í 5 eða 6 tíma eftir flugi til Rómar. Við ákváðum því að taka bílaleigubíl og reyna að finna eitthvert þorp í nágrenninu til að eyða tímanum. Ég hef aldrei keyrt áður í Englandi og það hefur örugglega verið sjón að sjá okkur þegar við vorum að reyna að komast út af flugvallarsvæðinu, kortalaus og allslaus. Gerðist örugglega þrisvar sinnum að voru teknir 2 hringir á hringtorgum meðan við reyndum að leið út af flugvallarsvæðinu. Og þurfa alltaf að hugsa: Beygja vitlaust, beygja vitlaust, beygja vitlaust. Allt hafðist þetta nú að lokum og við fundum bæ þar sem var verslað smá og við fengum það sem reyndist vera langversta máltíð ferðalagsins.

Síðan var flogið með Ryanair (er það ekki Reynisflug?) til Rómar. Aldrei aftur með því flugfélagi ef hjá því verður komist. Hildigunnur lýsir því betur í sinni færslu. Komumst nú að lokum á Ciampino flugvöll hjá Róm. Tókum þar við bílnum. Það var smá vesen að fá hann afhentan því að hann var í dýrasta klassa og því heimtuðu Hertz menn að fá tvö kreditkort, sem tryggingu (kom í ljós síðar að þau þurftu að vera frá sama manninum!). Við erum bara óvart með eitt. Eftir smá japl, jaml og fuður tókst okkur samt að fá bílinn. Óxla flottur BMW 320, með díselvél. Ég var með smá efasemdir um díselvélina en þær hurfu strax og bíllinn var tekinn til kostanna. Hann var eins og hugur manns, kraftmikill og rúmgóður.

Jón Lárus og kagginn fyrir utan húsið góða.

Komumst svo loks á hótelið eftir smá basl. Þurftum að spyrja til vegar þrisvar sinnum á leiðinni. Vorum bara með leiðarlýsingu prentaða út úr Google og komið niðamyrkur. Stelpunum fannst við skera okkur úr þar sem við keyrðum mjög hægt að reyna að skima eftir skiltum. Allt hafðist þetta samt að lokum.

Þessir fjórir heilu dagar, sem við höfðum í Róm liðu síðan eins og hendi væri veifað. Við slepptum viljandi öllum söfnum og Vatíkaninu. Ekki hægt að bjóða krökkunum upp á það og þetta var líka svo stuttur tími að það þurfti að velja og hafna. Á hinn bóginn voru helstu torg og gosbrunnar þrædd af mikilli nákvæmni ekki síst vegna þess að það var gífurlega heitt þegar við vorum þarna. 34-38 gráður. Hvert tækifæri var því notað, þegar við rákumst á vatnspósta, til að bleyta í hausum. Skruppum síðan einn dag niður á strönd. Það var mjög skemmtilegt. Algerlega ítölsk strönd, engir túristar þar nema við að því er við best gátum séð.

Barinn á ströndinni

Þetta var eina skiptið, sem bíllinn var hreyfður meðan við vorum í Róm.

Síðan er náttúrlega ekki hægt annað en að minnast á Colosseo, sem við fórum í síðasta daginn, sem við vorum í Róm. Þá voru hinar fjölskyldurnar, sem við ferðuðumst með líka komnar út. Farið var í hópferð snemma um morgun til að skoða þessa stórmerkilegu byggingu. Ég hafði lesið fullt um hana og séð ótal myndir. Það jafnast samt ekkert á við það að koma þarna inn. Stórfenglegt í einu orði.

Colosseo

Það er náttúrlega bara skandall að hafa ekki komið áður til Rómar. En eitt er víst, þetta er ekki í síðasta skipti. Stórskemmtileg borg.

2007-08-3

Þetta er upphafið að ferðafærslu

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:53

nr. 1.
Bara að taka frá plássið. Framhald í fyrramálið…

2007-05-23

Slóvenía

Filed under: Brandarar,Ferðalög,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 00:23

Fífa er að fara til Slóveníu í júni með kórnum sínum. Í kvöld var fundur um ferðatilhögun og fleira þess háttar. Þarna komu alls konar fyrirspurnir. Meðal annars var einhver sem spurði hvenær sólin kæmi upp í Slóveníu á þessum árstíma. Jónsi kórstjóri svaraði að það væri líklega milli klukkan 5 og 6. Þá heyrðist í einum kórfélaganum: Um morguninn?

2007-05-17

Freyja

Filed under: Dægradvöl,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 14:37

klukkaði mig. Best að svara listanum hennar (þó Hildigunnur sé nú reyndar búin að því líka).

1. Já
2. Við förum öll til Ítalíu, nánar tiltekið til Rómar og Le Marche.
3. Við verðum rétt tæpar tvær vikur.
4. Já, þetta er í fjórða skipti, sem ég kem þangað.

2007-04-3

Sumarbústaður

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 18:45

Vorum í sumarbústað um helgina. Samstarf, starfsmannafélag Samskipa á 5 bústaði rétt hjá Hreðavatni. Mjög flottir bústaðir. Við vorum þarna frá föstudagskvöldi þangað til núna í morgun. Algjör afslöppun (nema þegar við vorum með 5 gesti, smá læti þá stundum). Mikið lesið, lagðir kaplar, gerðar sudokur og allt þetta týpíska, sem maður gerir í sumarbústað.

Fórum svo í gær í göngutúr að fossinum Glanna. Mjög flottur foss, sérstaklega í leysingunum, sem voru þarna. Verður gaman að koma þarna upp eftir einhvern tímann að sumarlagi og sjá hvernig hann lítur út þá.

Hildigunnur var líka með færslu um ferðina. Sjá hér.

2007-03-5

Akureyri

Filed under: Ferðalög — Jón Lárus @ 22:52

Stundum kemur það sér vel að ganga með vasahníf. Íbúðin, sem við vorum með var mjög sparlega búin tækjum og tólum (nema glösum). Það var til dæmis enginn upptakari, lélegur tappatogari og enginn beittur hnífur. Swiss army knife reddaði öllu þessu. Er verið að passa upp á að maður drekki ekki frá sér ráð og rænu eða fari sér að voða? 😉

Já og svo þurfum við að muna að skila lyklinum…

Við hjónakornin skruppum í skotferð norður til Aku…

Filed under: Ferðalög — Jón Lárus @ 22:19

Við hjónakornin skruppum í skotferð norður til Akureyrar eins og sjá má t.d. hér.

Á leiðinni norður þá gerðist það fjórum sinnum að Lexusbílar tóku fram úr okkur. Fyrst nálægt Borgarnesi síðan einhvers staðar á Holtavörðuheiðinni og í þriðja skipti í Vatnsskarðinu. Í sjálfu sér ekki merkilegt nema að í fyrsta og tvö síðastu skiptin var um sama bílinn að ræða. Hann hefur sjálfsagt stoppað einhvers staðar til að næra sig. Við aftur á móti vorum með nesti og stoppuðum mjög stutt.

Í fyrstu tvö skiptin, var Lexusinn horfinn eftir smá stund. Við hugsuðum ekki meira um þetta þangað til við sáum blá blikkandi ljós í Skagafirðinum, rétt áður en var lagt á Öxnadalsheiði. Ég sagði þá við Hildigunni: „Ætli þetta sé ekki Lexusinn, sem er búinn að æða fram úr okkur.“ Og mikið rétt, það var hann. Við gátum ekki gert að því að glotta svolítið að þessu.

Á miðri Öxnadalsheiðinni tók hann svo fram úr okkur í þriðja skipti. En það var samt ekki eins mikið span á honum og í fyrri tvö skipin.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.