Það er nú tæplega hægt að halda því fram að Freyja sé það. Tók fyrsta ökutímann sinn áðan á föstudeginum 13. Að sjálfsögðu gekk allt vel og engin óhöpp urðu.
2012-04-13
2011-05-11
Shortcut
Finnur fékk sumarklippinguna sína í gær. Hann var tekinn og snoðaður. 4 mm broddar. Getur núna þvegið hárið með þvottapoka. Spurning um að fá Freyju til að taka mynd af honum og skella inn.
2011-04-17
Við Freyja
vorum að leggja lokahönd á fyrra páskaeggið sem verður handgert hér á bæ í ár. Við Freyja búum okkur til egg en hin kaupa sér. Að þessu sinni er um algjör lúxusegg að ræða. Súkkulaðið er 70% frá Amedei, ítölskum framleiðenda. Innvolsið handtínt í Krambúðinni. Framleiðsluferillinn var myndaður rækilega af Freyju. Afraksturinn sést hér að neðan:
2011-03-13
Finnur nörd
Ég fékk bók um dulkóðun í afmælisgjöf um daginn (The code book eftir Simon Singh). Mjög skemmtileg bók, þannig að ég var fljótur með hana. Sagði síðan Finni eitthvað frá henni. Hann varð strax voða spenntur og byrjaði að lesa. Ég bjóst nú ekki við að hann myndi fara neitt langt í henni. Myndi kannski komast í gegnum fyrstu einn eða tvo kaflana í mesta lagi. Nei, nei það var nú eitthvað annað. Nú er hann meira en hálfnaður með bókina og farinn að demba yfir mig spurningum um Enigma dulmálsvél Þjóðverja. Mér finnst það reyndar ekkert slæmt.
2010-06-13
Ættarmót
Við fórum á ættarmót í gær. Þetta var ætt föðurafa míns og systkyna hans. Alls átti hann 9 systkini, sem öll komust á legg. Öll nema tveir bræður hans eignuðust afkomendur þ.a. ættboginn er orðinn nokkuð stór núna. Líklega eitthvað um 300 manns. Af öllum þessum fjölda var mættur um helmingur á mótið.
Ættarmótið var haldið í Varmalandi í Borgarfirði. Við lögðum af stað um morguninn og vorum mætt um eittleytið, þegar formleg dagskrá átti að hefjast. Síðan tók við dagskrá. Ræður, kynningar, kaffi, erindi, matur, söngur og skemmtiatriði. Hildigunnur hafði sem betur fer áttað sig á að kippa með nokkrum bókum til að krakkarnir myndu ekki drepast úr leiðindum undir ræðuhöldum og kynningum. Síðan hittu þau náttúrlega frændsystkini á svipuðu reki sem þau gátu leikið og spjallað við.
Fyrir mig var þetta mjög skemmtilegt og fróðlegt að fá tækifæri til að átta sig á þessari stóru ætt. Sumt af þessu fólki þekkti ég fyrir, aðra hafði ég heyrt getið um en langflesta þekkti ég ekki neitt fyrir.
2010-06-7
Stutt klipping
Finnur fór í klippingu í dag. Ég fór svo í klippingu á eftir honum og fékk þá að heyra gullkornin, sem hann hafði reytt af sér í þetta skiptið. Hann var greinilega mjög ákveðinn í því hvernig klippingu hann ætlaði að fá sér því hann var varla kominn inn á klippistofuna að hann sagðist ætla fá shortcut. Bætti svo við: „Ég vil fá stysta shortcut sem þú átt“. Hann fékk það og er núna með ca. 1 mm sítt hár. Gríðarlega flottur.
2010-04-5
Afmæli
Ekki nóg með að Freyja hafi fermst í dag, heldur á hún líka afmæli á morgun. Allt að gerast!
Innilega til hamingju með afmælið á morgun Freyja mín.
Ferming
Í dag fermdist Freyja. Þegar við gengum til kirkju var ekkert skemmtilegt veður. Leiðindagjóla og skítakuldi. Að athöfn lokinni þá hafði lægt og komið hið besta veður. Fermingin gekk vel fyrir sig, hátíðleg athöfn. Eitt fermingarbarnið (sonur Kolbeins flautuleikara og Guðrúnar semballeikara) lék á saxófón í fermingunni og leysti það vel af hendi. Messan var líka ekki langloka eins og oft vill verða með fermingarmessur, kann vel við presta sem hafa vit á því að hafa stuttar ræður við svona tækifæri.
Fermingarhópurinn.
Freyja, fremst fyrir miðju.
Að messu lokinni héldum við fermingarveislu í safnaðarheimili Áskirkju saman með Óla og Kristínu en Kristján Óli, skáfrændi Freyju var fermdur líka í morgun.
Freyja við veisluborðið.
Kristján Óli við veisluborðið.
Fjölskyldan hafði sameinast um veitingarnar, allir þjóðnýttir í að leggja eitthvað í púkk.
Önnur af tveimur fermingartertum Freyju.
Held að þetta hafi allt saman gengið alveg þokkalega. Allavega heyrði ég ekki annað en fólk væri ánægt með veisluna.
Núna er maður eins og sprungin blaðra. Það tekur á að standa í svona löguðu.
2010-01-31
Nýr titill
Gunna systir eignaðist sitt fyrsta barn á fimmtudaginn. Fékk stelpu sem var 12 merkur og 48 cm að lengd. Innilega til hamingju með þetta litla systir.
Þetta þýðir það að nú er ég orðinn móðurbróðir.
2010-01-19
Fengum loksins í gær
plötuspilarareimina, sem ég pantaði um jólin. Ég bloggaði um þetta á sínum tíma.
Reimin kostaði komin til landsins 5000 kall, þar af kostaði reimin sjálf ekki nema þriðjunginn. Restin flutningskostnaður, tollar og gjöld.
Einhentum okkur í að koma spilaranum í gang í gær. Það gekk ágætlega fyrir utan að við vorum smá stund að losna við hræðilegt jarðhljóð. Gekk að lokum með því að jarðtengja bæði plötuspilarann og formagnarann sem merkið frá spilaranum er tekið í gegnum.
Fífa er alsæl með þetta. Og gömlu Queen plöturnar komnar á fullan snúning eftir langa hvíld.
2010-01-7
Fyrsta skóladaginn,
á þriðjudaginn, þá fannst úlpan hans Finns hvergi. Það var leitað í dyrum og dyngjum. Endaði á að drengurinn fór í snjógallanum í skólann. Seinna um daginn þá var svipast frekar um eftir henni en engin fannst úlpan. Við vorum frekar pirruð yfir þessu en skildum þetta samt ekki alveg því við vissum ekki til að hann hefði farið neitt í úlpunni um jólin, hvað þá að hann hefði komið úlpulaus til baka.
Í gær kom svo Tómas frændi Finns í heimsókn. Stefanía mamma hans kom síðan að sækja hann. Á meðan guttinn var að tína saman pjönkur sínar (og klára staðinn í leiknum) spjölluðum við Stefanía aðeins saman. Meðal annars barst í tal að úlpan hans Finns hefði týnst á einn eða annan hátt. Þegar ég er rétt búinn að sleppa síðasta orðinu í þeirri lýsingu verður mér litið upp á fatahengi. Blasir þá ekki úlpan við mér. Frekar fyndið.
Manni dettur náttúrlega ekki í hug að leita svona hátt uppi. Yfirleitt liggja svona hlutir á gólfinu…
2009-12-29
Turntableneedlesdotcom
Við gáfum Fífu í jólagjöf lítið box, sem lagar til merki frá plötuspilara þannig að hægt sé að tengja við annan inngang en phono á magnara (enginn slíkur inngangur á magnaranum okkar). Hún var búin að nauða um þetta lengi til að geta spilað vínilplötur, þetta var ekki bara af því að við séum vondir foreldrar.
Á jóladagsmorgun þá fórum við í það verkefni að tengja boxið. Það gekk vel en þegar við settum plötu á fóninn og ætluðum að setja hann af stað þá snerist diskurinn ekki. Við rifum plötuspilarann út úr skápnum og skoðuðum hann. Í ljós kom að reimin sem átti að snúa diskinum var slitin. Nú voru góð ráð dýr. Mjög ólíklegt að finna þennan varahlut hér á landi, plötuspilarinn orðinn 23ja eða 24ra ára gamall og umboðið farið á hausinn.
Við prófuðum þess vegna að gúggla plötuspilara og varahluti. Fundum tiltölulega fljótlega síðuna turntableneedles.com. Þar fundum við svo rétta reim eftir stutta leit. Á innan við hálftíma frá því við fundum út hvað var að þá vorum við búin að ganga frá pöntun á nýrri reim. Hún kostaði ca. 28 dollara, varahlutur ásamt sendingarkostnaði. Ekki kannski alveg ódýrt en tæplega hægt að vonast til að sleppa ódýrar frá þessu.
Netið er snilld
2009-12-7
Í messunni
í gær þar sem steindi glugginn eftir Rúnar var helgaður var Jóna Hrönn Bolladóttir sem messaði. Stelpurnar spurðu hvað presturinn héti og ég sagði þeim það. Það var hváð og ég endurtók hægt og skýrt (en mjög lágt). Eftir messuna sagði Fífa svo að henni hefði heyrst ég segja Jóna Hraunbolladóttir. Skildi ekkert í þessu furðulega nafni.
2009-10-21
Slappt ástand
á heimilinu þessa dagana. Finnur var veikur fyrir helgi og svo tókum við Hildigunnur við á sunnudaginn. Erum svona aðeins að skríða saman núna. Á meðan þá er algjört lúxuslíf á Fífu. Fær bílinn í skólann og á æfingar. Er viss um að á morgun kemur: Eruð þið ekki ennþá slöpp og er nokkuð jarðarför hjá þér mamma?
2009-10-13
Stelpurnar voru góðar
við mig áðan. Ég kom nær dauða en lífi úr boltanum og þá voru þær búnar að henda öllu uppvaskinu í uppþvottavélina og keyra hana. Ekki slæmt að verða fyrir svona.
2009-10-7
Mig langar
í svona borgara. Hildigunnur, er ekki frjáls dagskrá á matseðlinum á föstudaginn?
2009-10-3
Sláturgerð
Dagurinn í dag fór að mestu leyti í sláturgerð. Tókum 5imm slátur með mömmu og hjálpuðumst að við lifrarpylsu og blóðmörsgerð í dag. Vorum frá eitthvað um hálf 2vö til að verða 6ex að vesenast. Ekki kannski það skemmtilegasta sem maður gerir (svona svipað eins og að hreinsa sveppi) en vel þess virði. Að minnsta kosti er maður alltaf feginn þegar þetta er búið. Klikkt svo út með sviðaveislu í kvöldmat. Ekki slæmt.
2009-09-7
Núna
lítur út fyrir að við þurfum að fjárfesta í 13/17 víólu fyrir Finn. Gamla víólan (sem er ekki nein víóla, heldur 1/2 fiðla með víxluðum strengjum) er orðin of lítil fyrir hann. Til að byrja með látum við samt 3/4 fiðlu með víxluðum strengjum duga.
2009-08-7
Grillaðir bjórkjúklingar
Þá uppskrift hefur mig lengi langað til að gera. Það hefur strandað fram að þessu á því að ekki er hægt að loka grillinu okkar en það er nauðsynlegt til að hægt sé að elda þennan rétt. Í fríinu fyrir vestan um daginn þá gafst tækifæri til þess því þar er grill með loki. Gæsin var því gripin og grillaðir tveir kjúklingar sitjandi á bjórdollum.
Tóku sig ekki sem verst út, eða hvað? Uppskriftin var nú ekki flókin. Kjúklingarnir kryddaðir með kjúklingakryddi frá Pottagöldrum. Lítil bjórdós opnuð, drukkinn ca. 1/3 af henni og síðan kjúklingurinn látinn setjast virðulega á hana (má alveg örugglega nota pilsner í staðinn). Grillað í ca. klukkutíma. Niðurstaðan var merkilega góð. Bringurnar aðeins komnar yfir toppinn en með frekari æfingu ætti það að geta lagast. Mæli með þessari aðferð.
2009-07-12
Ég kom inn í
borðstofuna áðan. Var að hugsa um formúluna og sagði við Fífu: „Ég vona að það verði rigning á eftir“, án frekari skýringa. Fífa varð náttúrlega eitt spurningamerki í framan. Þá áttaði ég mig á að það vantaði kannski aðeins meiri útskýringar við þessa ósk. Og bætti við já þú veist úti í Þýskalandi þarna á eftir.