Strč prst skrz krk

2013-12-31

2239

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 13:20

km á hjóli úr og í vinnu á árinu. Næstmest sem ég hef náð á einu ári. Alls ekki sem verst.

2012-09-5

Vegalengd

Filed under: Hjólreiðar,Vinnan — Jón Lárus @ 23:07

sem samsvarar lengd hringvegarins (1.332 km skv. Vegagerðinni) var lögð að baki í gærmorgun.  Þetta gerðist á svipuðum tíma ársins og undanfarin ár.  Til dæmis náði ég þessu 3.  sept. árið 2009 (þá var hringvegurinn hins vegar talinn 1.339 km). Helsta undantekningin var í fyrra þegar ég náði að klára þessa vegalengd í ágúst.

2012-05-17

5000 km

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:21

Nú er ég búinn að skrá allar hjólaferðir á JogTracker með símanum mínum í rétt tæplega ár.  Í morgun náði ég að rjúfa 5000 km múrinn á rétt innan við ári.  Sæmilega sáttur við það.  Rétt innan við helmingur (um 2300 km eru ferðir úr og í vinnu), restin er hjólað mér til skemmtunar.

2012-01-5

Hjólauppgjör 2011

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:10

Endaði árið á að hafa hjólað samtals 41,8 vikur úr og í vinnu. Hef aldrei náð því að hjóla svo mikið áður. Alls voru þetta 2299 km. Ekki verra að enda þetta á flottri tölu líka.

Frá því að ég byrjaði aftur að hjóla árið 2006 hefur verið stöðugur stígandi í þessu brölti mínu. Hjólaði 12 vikur það ár (byrjaði reyndar ekki fyrr en í maí það ár). 2007 náði ég svo 21,2 vikum. Tók svo 29 vikur 2008 og náði 36 vikum 2009. Bætti svo enn við og hjólaði 38 vikur árið 2010.

Þrjú síðustu árin hef ég hjólað allan veturinn en fram að því gerði ég hlé að vetrarlagi. Er ekki viss um að ég nái að bæta þennan árangur. Það verður að minnsta kosti mjög erfitt.

2011-11-19

2000

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 14:04

km á hjólinu úr og í vinnu það sem af er árinu. Þetta gerðist síðasta þriðjudag (14. nóvember). Ég hef aldrei áður náð þessum áfanga fyrr en í desember. Núna lítur út fyrir að ég nái 40 vikum á hjóli úr og í vinnu, sem hefur aldrei gerst áður hjá mér.

2011-06-11

Nýr hringur

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 20:32

Ákvað núna í morgun að víkka hjólahringinn minn aðeins út. Gamli hringurinn var um 25 km langur umhverfis Seltjarnarnes og Reykjavík innan Elliðaár. Í staðinn fyrir að hjóla Fossvogsdalinn þá hjólaði ég fyrir Kársnesið og svo upp í Mjódd. Lengdi hringinn um ca. 7 km.

Hér sést leiðin sem ég hjólaði. Leiðin er logguð með forriti (JogTracker) í símanum mínum. það er reyndar ekki alveg nákvæmt, vanmetur lengdina á leiðinni um rúmlega eitt prósent. Gæti trúað að á þessum hring myndi muna um 500 m.

2011-05-23

MI km

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:41

hjólaðir úr og í vinnu á árinu. Náði þeim áfanga í dag. Síðan ég byrjaði að hjóla aftur fyrir fimm árum þá hef ég aldrei áður verið svona fljótur að fylla upp í þúsundið. Aðstæður til hjólaiðkunar hafa hins vegar oft verið betri en í dag. Ég ákvað að hjóla með lambhúshettu út af svifryki og ösku. Ekki annað þorandi þegar magnið er allt að 20 falt yfir mörkum.

2011-04-29

Keyrður niður

Filed under: Bílar,Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:40

Já það gerðist í fyrsta skipti í dag að ég var bókstaflega ekinn niður á hjólinu. Þetta gerðist þannig að ég var á leiðinni í vinnuna. Var kominn að Holtagörðum og hjólaði eftir gangstéttinni meðfram Holtavegi, norðan megin, fram hjá nýju bílastæðunum. Þar var einn bíll á leið út af stæðinu. Hann stoppaði og ég lét gabbast og hélt áfram. En þá var bara gefið í og ég varð fyrir drekanum. Sem betur fer var ég á lítilli ferð og bíllinn tók af stað úr kyrrstöðu. Ég flaug samt á hausinn og hjólið lenti að hluta til undir bílnum. Ég slapp nú sem betur fer með skrámur en hjólið slapp ekki eins vel úr þessum allt of nánu kynnum við bíl. Afturgjörðin á hjólinu er snarbeygluð, hægt að nota hjólið en gjörðin er svo skökk að það verður að skipta henni út.

Bílstjórinn, kona með tvö lítil börn var alveg miður sín yfir þessu. Sagðist hafa ruglast á bremsum og bensíngjöf (ég tók eftir því). Þetta hefði samt allt getað farið verr og ég hef dottið miklu verr á hjóli án þess að bíll kæmi nokkuð þar við sögu.

2010-11-3

Nagladekk

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 21:08

Keypti mér nagladekk á hjólið um síðustu helgi. Skellti svo nýju dekkjunum strax undir. Var því tilbúinn undir vetrarfærð á mánudaginn. Sá ekki eftir því þegar ég kom út í dag. Snjóaði og allt orðið alhvítt. Það var nú ekkert mjög hált þ.a. ég veit nú ekki hversu miklu munar. Kemur í ljós þegar verður meiri hálka.

2010-08-19

Var ekki

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:36

búinn að henda inn mynd af nýja hjólinu mínu, sem ég náði að kaupa áður en það gamla kom í leitirnar eftir stuldinn.

En semsagt svona lítur nýi gripurinn út:

Nýja hjólið

Eðalhjól, létt og meðfærilegt.

2010-08-5

Grrr frh.

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:54

Eftir að hjólinu mínu var stolið um daginn þá fékk ég hjólið hennar Freyju lánað til að hjóla í vinnuna í tvær eða þrjár vikur. Það var náttúrlega ekki hægt að níðast á henni endalaust þ.a. þegar hjólaútsölur byrjuðu þá fór ég á stúfana og fann ágætis götuhjól í Útilífi fyrir 60.000 kall (kostaði upphaflega 80.000). Þurfti svo að kaupa aukahluti, bretti, lás, bjöllu og endaði í næstum 80.000 kalli. Ekki slæmt samt. bjóst alveg við að þurfa að fara eitthvað yfir 100 kallinn til að fá þokkalegt hjól.

Við ákváðum svo á þriðjudaginn var að kíkja á óskilamuni lögreglunnar áður en við færum að reyna að kreista einhverja aura út úr tryggingafyrirtækinu. Eftir smá leit þar rak ég augun í hjólið mitt. Þurfti reyndar smá rekistefnu til að fá það afhent af því ég átti hvorki reikning (keypti það á uppboði lögreglunnar) né var með stellnúmer (hafði aldrei komið því í verk að skrifa það niður). Gekk nú samt upp að lokum.

Þannig að í staðinn fyrir ekkert hjól fyrir nokkrum dögum þá er ég núna með tvö hjól.

2010-07-3

Grrr

Filed under: Hjólreiðar,Uncategorized — Jón Lárus @ 23:58

Ég er ekkert smá brjálaður núna. Við fjölskyldan skruppum í bústað í afmælisveislu hjá Guðrúnu systur í gær. Snilldar veisla. Komum svo heim upp úr hádeginu í dag. Einhvern tímann síðdegis varð mér svo litið út um glugga í átt að hjólastatífinu. Þá var hjólið mitt horfið! Ekkert smá glatað.

2010-01-13

Slitin keðja

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:06

Hjólið mitt hefur smátt og smátt verið að breytast í druslu, enda mikið notað. Núna eftir áramótin var kominn tími á að taka ákvörðun hvort ég ætti að kaupa nýtt eða ráðast í dýra viðgerð á því gamla því keðjan og tannhjólin bæði að framan og aftan voru orðin svo slitin. Framdemparinn var líka orðinn ansi slappur sem og skiptingin að framan.

Ég ákvað að fara út í viðgerð (ef hún væri ekki allt of dýr), stellið á hjólinu vandað og með því að láta skipta um drifrás og framdempara væri hægt að fá hjólið ansi fínt.

Eftir vinnu í gær þá var stefnan tekin á Markið svona til að athuga hvað viðgerð af þessari stærðargráðu myndi kosta. Á miðri leiðinni frá vinnunni minni að Markinu þá sleit ég keðjuna. Greinilega kominn tími og vel það á að lappa upp á hjólið.

Teymdi hjólið restina af leiðinni. Á verkstæðinu í hjólabúðinni tók á móti mér mjög almennilegur viðgerðamaður. Hann sagði að líklega myndi kosta um 30 þúsund að skipta um keðju, tannhjólakrans að aftan, sveifar (með tannhjólum að framan), framdempara, gírbarka og víra ásamt bremsubörkum og vírum. Þetta myndi þar að auki ekki taka nema einn dag.

Ég var tiltölulega sáttur við þetta og skildi hjólið eftir. Eftir vinnu í dag rölti ég svo yfir í Markið. Hjólið var tilbúið og kostaði viðgerðin 35 þús. Fyrir utan ofantalið þurfti að skipta um gírskipti að framan og pedala. Talandi um að lítið væri eftir af gamla hjólinu, helst hnakkurinn.

Hjólaði síðan heim og þvílíkur munur. Hjólið eins og nýtt

2009-12-19

2000

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:58

km á hjólinu úr og í vinnu á árinu. Náði þeim áfanga í gær í fyrsta skipti. Mjög ánægður með þetta.
Frá því ég dró fram hjólið aftur árið 2006 þá hefur verið stöðugur stígandi í fjölda ferða á hjóli í vinnuna. Frá 12 vikum fyrsta árið upp í u.þ.b. 37 vikur núna í ár. Það er ljóst að það verður ekki auðvelt að bæta þennan árangur.

2009-09-7

Kryptonít rúlar

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 00:05

Jæja. Kom því loksins í verk í gær að taka stóra hringinn minn á alvöru hjóli. Hann lítur svona út:

Stóri hringurinn

Var búinn að minnast á þetta í færslu um daginn.

Í gær voru aðstæður fullkomnar, hlýtt og nánast enginn vindur. Þannig að ég fékk hjólið lánað hjá bróður mínum og svo var ætt af stað. Í stuttu máli sagt þá gekk allt upp. Ég náði að bæta tímann á 25,5 km um næstum 3 mínútur, úr 56:39 í 53:54. Draumur að hjóla á þessu hjóli. Svo létt. Það sem munaði mestu var að hjóla upp brekkurnar. Þurfti ekki að skipta niður um gír nema í tveimur brekkum. Geðveikt.

Nú þarf ég bara að finna mér alvöru racer og athuga hvað ég tek hringinn á með honum.

2009-09-3

Hringvegurinn II

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 19:57

Skrifaði þessa færslu fyrir tæpu ári síðan. Núna í dag náði ég að klára samsvarandi vegalengd. Rúmlega tveimur mánuðum fyrr heldur en í fyrra. Ekki slæmt.

2009-08-11

Rifin felga

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:56

Ég lenti í því áðan á leið heim úr vinnunni að byrjaði að koma ægilegur titringur í framdekkið á hjólinu. Ég stoppaði til að athuga hvað væri að gerast og gat ekki betur séð en það væri komin rifa í dekkið og það væri farið að ýtast yfir brúnina á gjörðinni. Hélt svo áfram og skrönglaðist löturhægt í heimátt. Þegar ég var kominn að Frakkastíg og átti bara eftir að fara þar upp þá fór ástandið hratt versnandi. Ég steig aftur að baki og skoðaði framdekkið nánar. Þá kom í ljós að það var ekki dekkið sem hafði rifnað heldur gjörðin! Greinilegt að það eru ekki bara bremsupúðarnir sem slitna heldur gjörðin líka.

Við Fífa drifum okkur svo í æfingaakstur í Örninn og þar fékk ég nýja gjörð. Lappaði svo upp á hjólið þ.a. ég ætti að komast á því í vinnuna á morgun.

2009-07-5

Mettilraun

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:40

Ég er búinn að plotta það að fá lánað hjól hjá bróður mínum um næstu helgi (ef það verður almennilegt veður) til að sjá hvað munar miklu á 25km hring á alvöru hjóli og skriflinu mínu. Stebbi bróðir er algjör hjólafíkill og á geðveikt flott hjól (koltrefjar, magnesíum og kryptonít eru helstu efnin í því held ég). Vegur eitthvað um 11kg og kostaði 750k fyrir tveimur árum. Þurfum að breyta því aðeins þannig að ég geti hjólað á því. Núna eru á því keppnispedalar en þar sem ég á ekki þannig hjólaskó þá ætlum við að skipta yfir á venjulega pedala. Verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út.

2009-05-11

Hjólað í vinnuna

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:58

Það hefur nú ekki gengið sérlega vel hjá þeim, sem standa fyrir átakinu: Hjólað í vinnuna, að þessu sinni. Búið að standa í fjóra daga og af þeim hefur verið mjög leiðinlegt hjólaveður þrisvar sinnum. Stígarnir tómir. Spáir nú reyndar skánandi veðri þannig að vonandi fer að rætast úr þessu.

2009-02-3

Ótrúlegur

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:56

munur sem er að hjóla í bænum núorðið að vetrarlagi. Stígurinn meðfram Sæbrautinni er núorðið ruddur og sandborinn snemma á hverjum morgni þegar hefur verið einhver snjókoma. Annað en fyrir nokkrum árum þegar þekktist ekki að stígar og gangstéttar væru ruddar. Ánægður með þetta hjá borginni.

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.