Strč prst skrz krk

2009-02-23

Interval training

Filed under: Hlaup — Jón Lárus @ 23:10

Tók fyrstu þannig æfinguna á árinu um helgina (nei ekki tónbilaþjálfun).
Hef ekki hugmynd um hvað þetta er kallað á íslensku en ég tók 10 sinnum 90 sekúndna spretti með 60 sekúndna pásu á milli. Ógeðslega erfitt. Sérstaklega þegar var komið að spretti 6, 7 og 8. Númer 9 og 10 eru svo sálrænt auðveldari af því þá veit ég að þetta er að verða búið. Var ánægður með hvað formið virðist hafa dalað lítið yfir veturinn eins og gerist svo oft.

2009-01-3

Jólafríið

Filed under: Hlaup — Jón Lárus @ 23:56

var ekki bara sukk og svínarí. Ég tók mig til og var hrikalega duglegur (að mínu áliti a.m.k). að skokka. Held ég hafi tekið samtals 45 km síðan á aðfangadag. Tempó meira að segja ótrúlega gott miðað við árstíma. Tvisvar sinnum 10 km á undir 44 mín. (43:38 og 43:52). Oft sem maður er á 45-47 mín. á þessum árstíma. Veðrið er líka búið að vera mjög hagstætt til útiveru. Vorveður nánast alla daga jólafrísins.

2007-08-7

Le Marche

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Hlaup — Jón Lárus @ 23:52

Eftir 5 daga í Róm var stefnan tekin til Le Marche þar sem sem stórfjölskyldan ætlaði að dvelja í sveitasetri í eina viku. Tekin var ákvörðun um að aka sem allra stystu leið yfir Appennínaskagann. Eftir u.þ.b. 5 tíma ferðalag komumst við loks á áfangastað, rétt hjá þorpinu Montefalcone Appennino.

Þorpið uppi á kletti

Síðustu 40 kílómetrarnir eða svo á afskaplega þröngum og hlykkjóttum vegum. Þar á leiðinni sáum við fyrsta af mörgum skógareldum, sem komu upp reglulega þarna í nágrenninu.

Húsið var síðan ekkert smá flott. 8 stór og glæsileg herbergi og a.m.k. tvö smærri þannig að hópurinn komst auðveldlega fyrir. Sér sundlaug og tennisvöllur.

Sundlaugin

Sundlaugin átti eftir að koma sér vel. Hitinn þarna var síst minni en í Róm þótt rakastigið væri líklega öllu lægra. Krakkarnir nánast bjuggu ofan í lauginni og okkur fullorðna fólkinu þótti heldur alls ekki slæmt að hoppa út í til að kæla okkur.

Eina sem hægt var að setja út á var að engin loftkæling var í húsinu. Við sváfum því við galopna glugga til að reyna að fá einhvern andvara í gegnum herbergin. Það var allt í lagi því þarna voru nánast engar moskítóflugur. Eftir að hafa verið nánast sem nálapúði eftir Róm þá bættust ekki nema 2 eða 3 stungur við í Le Marche.

Við Jón Heiðar ákváðum að reyna að skokka þarna um nágrennið. Það kom nú í ljós að aðstæður voru skokkurum frekar óhagstæðar. Dalbotninn var í ca. 300 m hæð og þorpið fyrir ofan í rétt tæplega 900 m hæð. Og húsið okkar svona u.þ.b. fyrir miðju eða í um 600 m hæð. Við reyndum fyrst að skokka upp eftir. Það var erfitt. 35 stiga hiti og 2 km stanslaust upp í móti. Við kláruðum 5 km og vorum gjörsamlega búnir. Ákváðum síðan eftir að hafa skokkað upp eftir tvisvar að skokka niður í dalinn. Tókum 6 kílómetra. 2,5 kílómetrar stanslaust niður í móti. Mesti halli yfir 20% og 36 gráðu hiti. Held svei mér þá að þetta séu erfiðustu aðstæður sem ég hef skokkað í á æfinni. Hafi maður verið búinn eftir fyrstu tvö skiptin þá var maður algerlega kláraður þarna. Þetta er ekki svæði sem er hentugt fyrir skokkara.

2006-09-2

Brúarhlaup frh.

Filed under: Hlaup — Jón Lárus @ 22:13

Hljóp 1/2 maraþon í Brúarhlaupinu í morgun. Þetta varð ekki eins skemmtilegt og ég var búinn að vonast eftir.

Þegar ég lagði af stað austur á Selfoss var nánast logn hér í Reykjavík. Ekki á Selfossi. Þegar ég kom þangað var stíf norðaustan átt. Ég vissi það strax og ég steig út úr bílnum að allar vonir um góðan tíma væru úr sögunni. Þá að hlaupinu: Fyrstu 12,5 km gengu reyndar mjög vel. Enda undan vindi að mestu leyti. Millitími á 10 km 41:16, sem var meira en mínútu betri tími en ég hljóp 10 km á í brúarhlaupinu í fyrra (n.b. ég hélt aftur af mér vegna þess að ég vissi að bakaleiðin yrði erfið). Síðan var snúið við á leiðinni til Stokkseyrarbakka eftir 12,5 km. Millitími u.þ.b. 51 mín. Eftir það var hlaupið á móti vindi. Í stuttu máli sagt þá tók mig jafn langan tíma að hlaupa síðustu 8,5 km og fyrri 12,5 km. þ.a. ég endaði á 1:41:58. Við erum að tala um 12 mínútur frá markmiðinu. 😦

Ástæðan fyrir því að ég kláraði var að þegar var snúið við, var ég eins langt frá Selfossi og hlaupið fór, einhvern veginn varð ég jú að komast í bílinn aftur!?

2006-09-1

Brúarhlaup

Filed under: Hlaup — Jón Lárus @ 00:21

Var svo að skrá mig í 1/2 maraþon í Brúarhlaupinu á Selfossi, sem verður haldið á laugardaginn. Markmiðin ekki gefin upp nákvæmar en það að stefnt er á bætingu…

2006-08-13

Úrvinda

Filed under: Garðurinn,Hlaup,Veikindi — Jón Lárus @ 23:07

Ég var of þreyttur til að blogga í gær en tímdi samt ekki að missa af bloggdeginum. Þannig að ég tók frá smá pláss. Fékk síðan þessa ömurlegu magapest í nótt (örugglega það sama og Finnur var með í fyrradag og svo aftur í morgun). Er bara rétt að skreiðast á fætur núna 😦
Þetta þýðir líka að ég er hættur við að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni um næstu helgi. Ekkert gaman að hlaupa ef maður er ekki í toppformi. Grrr…
En að öðru jákvæðara. Við kláruðum undirvinnuna fyrir nýju stéttina í gær. Búin að vera svakaleg törn. 3 dagar í mokstur og svo lokasnurfus í gær. Feginn að þetta er búið í bili. Handleggirnir á mér eru líka fegnir, þvílíkar harðsperrur, sem ég er með.

2006-08-3

Klikkaði

Filed under: Hlaup — Jón Lárus @ 23:39

grjóthausinn ég fór út að skokka áðan. 1:06:25 er ekkert alveg glataður tími á 15 km. Veðrið var reyndar ekkert sérstaklega hagstætt rigndi allan tímann. Man ekki hvenær ég var síðast svona gegnvotur. Var þess vegna frekar feginn að hafa hætt við að skrá mig í Vatnsmýrarhlaupið. Mætti keppendum sem voru að reyna að hita sig upp þegar ég var að klára hringinn, litu ekkert sérlega vel út.

2006-01-2

Ok, ég viðurkenni. Ég er tækjafíkill. Nú er ég búi…

Filed under: Hlaup — Jón Lárus @ 19:58

Ok, ég viðurkenni. Ég er tækjafíkill. Nú er ég búinn að hlaupa helstu hringina mína með Garmin hlaupa gps tækinu, sem ég fékk í jólagjöf. Ótrúlega svöl græja. Eini mínusinn er að flestir hringirnir virðast vera heldur styttri en ég hafði áætlað. Og tímarnir þar af leiðandi slappari sem því nemur.

Bloggaðu hjá WordPress.com.