Strč prst skrz krk

2012-02-23

Að borða fíl

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:11

Ég er í þannig verkefni núna.  Ég er semsagt að vinna í að hreinsa málningu af spjaldahurðunum uppi og gera klárar fyrir sprautun.  Er núna búinn að vera í u.þ.b. mánuð með fyrstu hurðina af fimm.  Það tók mig um 15 klst. að hreinsa málninguna af hurðinni. Alls gat ég talið 7 eða 8 mismunandi liti allt frá gylltu í beinhvítt.  Ég setti málninguna, sem ég skrapaði af hurðinni, í poka og vigtaði þegar ég var búinn að ná henni allri af.  Samtals voru þetta 5,3 kg af málningu á einni hurð!

Hann sígur í þessi

Eins og sést þá sígur þetta í.

2010-07-5

Öskuþvottur

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:52

Ég dreif mig út í kvöld eftir matinn og skrúbbaði öskuna, sem hefur gert sig heimakomna af og til upp á síðkastið, af húsinu. Alveg ótrúlegt hvað mikil drulla hafði sest á húsið þetta langt frá eldstöðinni. Það var náttúrlega ekki annað hægt en að þrífa húsið þar sem ég ætla að fara að hressa aðeins upp á málninguna á því.

2010-04-29

Svo var ég líka

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 21:19

að átta mig á því að í gær voru 15 ár frá því við tókum við lyklavöldum hér á Njálsgötunni. Magnað hvað tíminn flýgur.

2010-01-2

Brjálæðið í þvottahúsinu II

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 20:05

Ég var víst búinn að hóta því að birta myndir af þvottahússverkefninu þegar það væri búið. Náði, sem betur fer, að klára þetta fyrir jól. Gott ef að síðasti pensildrátturinn var ekki dreginn 22. des.

Ætlaði svo að finna myndirnar frá því áður en ég byrjaði á verkefninu. Þær virðast því miður vera týndar og tröllum gefnar. Allavega, hér kemur smá myndasería af því hvernig þetta lítur út núna:

Þvottavélastæðin, sem kláruðust fyrst. Ekki mikil breyting þar.
út í anddyri

Skápurinn kominn í skorsteinshornið.
skápur - bak við hann meiri röraflækja

Hjólagrindin komin á sinn stað aftur:
hjólaveggur

Hitaveitugrindin lítur mun skár út svona:
meiri röraflækja og rafmagnsskápur

Smá munur svo að sjá gluggavegginn:
gluggi

Svona til samanburðar þá leit þetta svona út síðast þegar ég birti myndir af framkvæmdunum.

2009-11-17

Brjálæðið í þvottahúsinu

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:58

Nú er ég búinn að vera þrjár vikur að vesenast í þvottahúsinu. Verkefnið ca. hálfnað og það er smátt og smátt að komast mynd á þetta. Hérna eru nokkrar myndir eins og staðan er í dag:

Orðið þokkalega snyrtilegt hjá þvottavélunum, enda lögð ofuráhersla á að klára það svæði fyrst.
hilla yfir þvottavélum og frysti

Skorsteinshornið ekki komið alveg eins langt.
hálfmálað inn í skorsteinshorn

Ekki mikið búið að gerast hjá rafmagnstöflunni og hitaveitugrindinni.
rafmagnstaflan og drasl

Gluggaveggurinn ennþá fangelsisgrár.
inn í horn - vel yfirbreitt

Þarf svo að grafa upp myndirnar, sem voru teknar áður en ég byrjaði (svolítið langt síðan þær voru teknar). Hendi þeim inn þegar þetta verður búið.

2009-11-7

Blogn

Filed under: Blogg,Húsið — Jón Lárus @ 23:11

Þetta orð varð til hjá okkur Hildigunni fyrir einu eða tveimur árum síðan. Þetta valt upp úr mér óvart og Hildigunnur var með skýringu á reiðum höndum: Lítil virkni á bloggi.

Lítil virkni á blogginu undanfarið á sér sínar skýringar. Ég er ekkert hættur að blogga. Hef bara verið mjög önnum kafinn í smíðaverkefni í húsinu síðustu tvær vikur og hefur fátt annað komist að. Það kemur örugglega montfærsla þegar verkefninu er lokið. Að þessu sinni mundi ég meira að segja eftir því að taka fyrir myndir. Svo er bara spurning um hvort þær finnist.

2009-10-31

Byggingarvörur

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 00:05

eru orðnar alveg fáránlega dýrar. Ég er búinn að vera að lagfæra aðeins þvottahúsið okkar og þurfti að kaupa nokkrar gifsplötur. Gerði ráð fyrir að þær myndu kosta svona 1500 kall stykkið í allra hæsta lagi 2000 kall. Nei, þá kostar hver plata 3000 krónur! Alveg út í hött. Hráefnið í þetta kostar nánast ekki neitt. Gifs verður m.a. til sem úrgangsefni við keyrslu kolaorkuvera.

2009-08-13

Loftárás

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:29

Ég tók eftir því að einhverjir ólukkans fuglar höfðu dritað á húsið okkar í kvöld. Fjólubláir taumar höfðu lekið niður vesturhliðina á nokkrum stöðum. Frekar óspennandi. Sem betur fer hafði ég verið að mála og stigi því nærtækur. Gat þess vegna auðveldlega hreinsað burt ósómann.

2009-07-23

Litablanda

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:19

Eins og fram kom í síðustu færslu þá málaði ég garðhliðið og handriðið um síðustu helgi. Kannski ekki annálaefni en þetta var samt smávesen. Ég nota nefnilega Hammerite málningu, algjör snilldarmálning því það má mála beint á ryðgaða fleti. Þarf ekkert að pússa (nema losa laust ryð og málningu) eða grunna.

Til að byrja með þegar við fluttum í húsið þá málaði ég hliðið og handriðið hvítt enda ekki um aðra passandi liti að ræða frá Hammerite. Síðan gerðist það fyrir nokkrum árum að það var farið að framleiða þessa málningu í rjómagulum lit, sem var mjög líkur litnum á húsinu okkar. Ég var mjög ánægður með það, skipti umsvifalaust yfir í nýja litinn enda passaði það miklu betur við húsið.

Svo var náttúrlega hætt að framleiða þennan lit. Þegar ég komst að því þá keypti ég síðustu þrjár eða fjórar dósirnar sem til voru á landinu. Sú síðasta kláraðist í fyrra.

Nú voru góð ráð dýr. Mig langaði ekkert til að skipta yfir í hvítan aftur og vildi helst ekki hætta að nota Hammerite. Mér datt því í hug að fara með litakóðann að vegglitnum á húsinu í málningarverslun og athuga hvort hægt væri að fá uppgefin hlutföllin á milli grunnlitanna. Það var nú ekki hægt að fá þau uppgefin nákvæmlega en ég fékk þó að vita að í blönduna færu hvítur gulur og ambra (sem er mjög dökkbrúnn litur).

Ég fór því á stúfana og gat útvegað mér hvítan lit og gulan. Ambran var hins vegar ófáanleg í Hammerite. Ég keypti svartan lit í staðinn.

Svo var farið að sulla. Mjög óvísindalegt allt saman en á endanum fékk ég fram lit sem er nokkuð líkur húslitnum, aðeins kaldari samt.

Þegar kemur næst að því að endurnýja málninguna þá er ég nokkuð viss um að ég nái ekki alveg nákvæmlega sama litatóninum, skiptir nú ekki öllu máli. Er þá jafnvel að spá í að prófa að bæta við rauðum lit næst til að fá smá roða í blönduna (hefði gert það ef búðir hefðu verið opnar þegar ég var að sulla litunum saman).

2009-07-21

Hræddi túrista

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:18

um síðustu helgi. Alveg óvart samt.

Var að mála hliðið og handriðið hjá stiganum upp að aðalinnganginum. Þar sem hliðið var ekki orðið þurrt þegar ég kláraði lét ég það standa opið. Síðar um kvöldið ákvað ég að skella mér út og loka því. Snaraðist út, bakdyramegin. Þá voru einmitt á þeirri stundu tvær stelpur að taka mynd af húsinu. Þær hrukku í kút, hafa líklega haldið að ég ætlaði að fara að skammast eitthvað í þeim. Svo sagði önnur þeirra að þær væru bara að taka mynd af húsinu og hvort að það væri ekki allt í lagi. Bættu svo við að þeim þætti það mjög fallegt. Ég hélt nú það, þakkaði fyrir hrósið, lokaði hliðinu og fór inn aftur. Fattaði ekki fyrr en þá að ég hefði nú átt að segja við þær að það hefði nú ekki verið meiningin að láta þær hrökkva svona í kút.

2009-07-2

Viðbrenndur ljósbúnaður

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:25

Eitthvert kvöldið fyrir nokkrum dögum tókum við eftir lykt, fnyk öllu heldur, í eldhúsinu. Við áttum svolítið erfitt með að staðsetja hann. Ruslafatan var fljótlega útilokuð og þá voru bara ísskápurinn (ekki inni í honum) og flúrlampinn yfir eldhúsvaskinum eftir sem hugsanlegar lyktaruppsprettur. Við prófuðum að slökkva á flúrlampanum til að athuga hvort lyktin myndi dofna eitthvað. Það gekk mjög hægt og morguninn eftir var enn talsverð stybba í eldhúsinu. Þá um kvöldið ákvað ég að taka ljósbúnaðinn niður og athuga hvort ég sæi eitthvað athugavert. Þetta voru niðurstöðurnar, eitthvað inni í lampanum hafði gefið sig og brætt ytra byrðið:

Úrbræddur flúrlampi.

Meira af lampanum.

Það sem meira var við að taka lampann niður þá blossaði fýlan upp aftur. Enn nokkrum dögum síðar er stybban ekki alveg horfin. Við vorum samt mjög fegin að það var ekki ísskápurinn, sem var að bræða úr sér.

2009-04-8

Loksins

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:59

búinn að mála herbergið hennar Freyju. Ótrúlegt hvað þessi síðustu handtök eru alltaf drjúg.

Eins og venjulega þá tók ég engar myndir áður en ég byrjaði. Svona lítur þetta nú samt út núna.

Freyja er mjög ánægð með breytinguna og þá er tilganginum náð, held ég.

2009-03-7

Rann á okkur

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 19:46

smá kaupæði áðan, eins og Hildigunnur segir frá hér. Þetta hefur nú staðið lengi til hjá okkur en ekki komist í verk fyrr en nú. Einhvern veginn var bara rétti tíminn áðan og þegar við rákumst á eina ljósakrónu, sem okkur leist báðum vel á var ekki aftur snúið.

Búinn svo að hengja upp ljósakrónuna. Mikill munur frá gamla ljósinu, sem passaði hreint afleitlega við húsið.

Gamla ljósið

Allt annað að sjá borðstofuna með nýju ljósakrónunni.

Nýja ljósakrónan.

2009-02-2

Fasteignagjöldin

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:14

Við erum ekki ósátt við fasteignagjöldin að þessu sinni. Skiluðum inn einni ruslatunnu í haust og erum bara með eina núna fyrir húsið. Bara þetta atriði lækkaði fasteignagjöldin um 12.000 kall. Munar um minna. Á móti hækkuðu reyndar einhverjir aðrir liðir þannig að í heildina lækkuðu fasteignagjöldin um 7.000 kall. Má samt alveg notast við þetta.

2008-12-21

Við erum búin

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:42

að vera þvílíkt dugleg um helgina. Sérstaklega þó í dag þar sem náðist að rúlla upp hverju verkefninu á fætur öðru. Hildigunnur listar þetta allt saman samviskusamlega upp hérna.

Skaut mig samt pínulítið í fótinn í einu verkefninu. Það var farið að marra í hjörunum á einni hurðinni hérna. Loksins pirraði það mig nógu mikið til að ég fann til maskínuolíu og smurði kvikindið. Virkaði fínt. Hætti alveg að marra. Hins vegar fellur hún alltaf að stöfum í staðinn. Ekki viss um að mér finnist það minna pirrandi.

Kann einhver húsráð við slíkum vandræðum?

2008-11-23

Leiðsluflækjur

Filed under: Græjur,Húsið — Jón Lárus @ 23:57

Frá því að við tókum inn net, síma og sjónvarp í gegnum ljósleiðara þá er ég búinn að vera á kafi í að ganga frá leiðslum og snúrum út um alla íbúð. Núna í dag kláraðist síðasti áfangi af þremur.
Fyrsti áfangi var að tengja allt saman. Síðan þurfti að ganga almennilega frá öllum þessum köplum og snúrum. Það var gert í tveimur áföngum. Sá síðari kláraðist í dag. Mjög ánægður með að þetta er búið.

2008-07-13

Mynd

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:23

af hliðinu eftir lagfæringar komin hér:

Hlið eftir lagfæringar

2008-07-11

Nýja hliðið

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 11:58

tilbúið og komið á sinn stað (það er að segja lagfært hlið). Ógó flott. Mynd þegar myndavélin mætir á svæðið.

2008-07-5

Eftir að

Filed under: Garðurinn,Húsið,Stúss — Jón Lárus @ 15:51

hafa útvegað efni til að gera við læsinguna á garðhliðinu þá fórum við með hliðið í viðgerð hjá járnsmiðnum okkar. Mér datt ekki í hug að hliðlæsingin myndi virka, það hefur ekki verið húnn á hliðinu síðan við fluttum hingað fyrir þrettán árum. Járnsmiðurinn prófaði að setja hún í hliðið og þá kengvirkaði lokan bara. Magnað.

Hliðið fyrir viðgerð.

Þannig að það var ákveðið að smíða nýjan hún á hliðið, laga lamirnar aðeins, hefur étist ansi mikið úr þeim eins og sést kannski á myndinni. Einnig þarf að smíða móttak til að festa á garðvegginn. Fáum hliðið kannski til baka í næstu viku. Verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út.

2008-02-29

Flóð!

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 21:39

Hildigunnur lenti í smá hremmingum í dag.  Hún hafði farið í bað og rak fótinn eitthvað í yfirfallið (sem var úr plasti),  það var orðið gamalt og lúið og hrökk í sundur við höggið.  Þá skipti engum togum að frárennslispípan á bak við losnaði frá og byrjaði að flæða inn um glufuna, sem myndaðist.  Hildigunnur var snögg og kippti tappanum úr baðinu og rauk síðan niður á neðri hæðina.  Þar lak niður úr loftinu og inn í herbergið hans Finns.  Sem betur fer þá kom þessi leki á besta stað ef svo má segja.  Lak ekkert í rúmið og hvorki á bókaskápinn né parkettið á ganginum.  Bara á teppið inni hjá Finni.  Eina sem sér eitthvað smá á er panellinn í loftinu.  Maður þarf samt eiginlega að vita af því til að sjá það. 

Skutumst svo í  Húsasmiðju eftir vinnu og ætluðum að kaupa nýtt lok fyrir yfirfallið.  Fékkst ekki þar en okkur var bent á Tengi.  Drifum okkur þangað og fengum stykkið.  Þurftum reyndar að kaupa tengisett en það kostaði nú engin ósköp þannig að þetta hefði nú alveg getað verið verra.

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.