Strč prst skrz krk

2010-02-19

Vetrarólympíuleikarnir

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 23:57

eru á fullkomnum tíma fyrir mig að þessu sinni. Ég hef ekki fylgst með stórkeppni af þessu tagi að neinu ráði í mörg ár. Núna þá byrja útsendingarnar svona upp úr 10. Maður nær auðveldlega að fylgjast með einni grein jafnvel tveimur ef sú næsta er spennandi. Enda við manninn mælt að ég hef horft á einhverja grein allt frá því að leikarnir byrjuðu.
Má maður því biðja um vetrarólympíuleika alltaf á vesturströnd Kanada…

2008-08-17

Síðasti

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 22:22

leikur handboltastrákanna í riðlakeppninni á eftir kl. 1 í nótt. Verður pottþétt horft á hann, jafnvel þótt það sé vinna í fyrramálið. Sérstaklega eftir þennan háspennuleik á móti Dönum í gær. Man síðast eftir svona spennandi leik á móti Rúmenum í einhverri heimsmeistarakeppni fyrir mörgum árum (við mörðum þá sigur eftir æsispennandi lokamínútur). Allavega, ekkert smá sætt að ná að jafna þarna í lokin.

Og vælið í þessum þjálfara þeirra. Búnir að fá hagstæða dómgæslu allan leikinn, fyrir utan að þetta var alveg klárt vítakast. Gaurinn stóð inni í teig.

Síðan er bara að vona að þeir haldi einbeitingu og nái að legga Egyptana. Sigur þýðir lágmark annað sæti og jafnvel sigur í riðlinum ef Rússar ná að leggja Kóreumenn.

2008-07-17

Ermarsundið

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 23:50

Ekki smá glæsilegur árangur hjá Benedikt Hjartarsyni að ná að klára að synda yfir Ermarsundið. Þrekvirki að vera á sundi í 16 tíma. Það sem ég furða mig mest á í sambandi við þetta er hversu mikill hraði hefur verið á honum á leiðinni. Samkvæmt því, sem fram kemur í fréttum synti hann um 60 km á þessum 16 tímum (eða um 3,75 km á klst.). Þetta er fáránlega mikill hraði. Væntanlega hafa nú straumar átt einhvern þátt í þessu en hefur samt greinilega verið mikil ferð á honum.

2008-06-2

Hvað

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 00:03

er sætara en það en að vinna Svía í handbolta í algjörum úrslitaleik um sæti á ólympíuleikum?

Á íþróttasviðinu get ég bara ekki ímyndað mér neitt. Verð að viðurkenna það að ég var nú ekkert mjög bjartsýnn fyrir leikinn, eftir frekar slæmt tap fyrir Pólverjum í gær. En það gerir þennan sigur bara enn sætari. Svíarnir ætluðu víst að kæra úrslitin vegna þess að líklega var eitt mark vantalið hjá þeim. Samkvæmt nýjustu fréttum á mbl.is þá eru þeir hættir við enda held ég að séu engin fordæmi fyrir því að atvik sem upp koma í leik verði þess valdandi að hann sé endurtekinn. Þetta er bara hluti af leiknum. Síðan er ekki eins og hafi bara munað þessu eina marki í leikslok. Við unnum með fjögurra marka mun. Líklega hafa Svíarnir áttað sig á að það væru engar forsendur fyrir kæru þó hefði verið mistalið um eitt mark.

2008-03-21

Ekki hefði ég

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 20:23

viljað vera í írska handboltalandsliðinu (U20 ára), sem tapaði fyrir því íslenska 67:3 í gær í undankeppni heimsmeistaramóts. Hálfleikstölur 34:3 þ.a. þær síðari hálfleiknum 33:0. Martröð.

En að senda svona lið, sem á greinilega ekkert erindi í keppnina, skil ég ekki.

2008-02-17

Pirr.is

Filed under: Íþróttir,Ruglið — Jón Lárus @ 00:35

Fer ekkert smá í taugarnar á mér þegar íþróttafréttamenn tala um tvöfalda tvennu eða þrefalda tvennu í körfubolta þegar einhver leikmaður hefur náð yfir 10 í stigaskorun, fráköstum, vörðum skotum eða stoðsendingum.  Samanber til dæmis þessa frétt (ein af mörgum). Þetta er náttúrlega bara tvenna eða þrenna. Annars væri það ferna eða sexa. Hálfvitar.

2008-02-5

Hreyfingarleysi

Filed under: Íþróttir,Boltinn — Jón Lárus @ 21:42

Mig er farið að lengja eftir því að geta hreyft mig almennilega. Var í fótbolta áðan og pústið var nú bara svona og svona. Hef ekki getað hreyft mig almennilega í næstum því mánuð. Hvorki hlaupið né hjólað.

Ég nenni ekki að fara út að hlaupa í svona snjó og hálku, finnst ég ekkert fá út úr því og hjóla ekki heldur. Hef ekki farið út í að kaupa mér snjódekk með nöglum á hjólið. Þannig að eina hreyfingin núna er boltinn einu sinni í viku.

Og þegar boltinn er leiðinlegur (les: mitt lið tapar) þá er nú lítið varið í það…

2008-01-29

Er það ekki dæmigert

Filed under: Íþróttir,Undrun — Jón Lárus @ 22:48

að eftir að Danir sneru heim eftir að hafa unnið Evrópumeistaratitilinn í handbolta á dögunum þá var tekið á móti þeim með pompi og pragt (eins og vera ber). Flugvélinni, sem flutti þá heim var m.a. fylgt eftir af orrustuflugvélum (hvers vegna í ósköpunum veit ég ekki). Þetta hefur víst ekki gerst síðan Danir urðu Evrópumeistarar í knattspyrnu ’92.

Síðan þá hefur danska kvennalandsliðið unnið Evrópumeistaratitil, heimsmeistaratitil og gull á ólympíuleikum. Fékk aldrei þessar móttökur. Hvenær ætli það verði að karla og kvennalandsliðum verði gert jafn hátt undir höfði?

2008-01-23

Loksins, loksins!

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 21:42

Strákarnir tóku sig saman í andlitinu og unnu glæsilegan sigur á Ungverjum. Eftir skrykkjótta byrjun þar sem þeir lentu m.a. 8-4 undir þá tókst þeim að jafna fyrir hálfleik. Síðan náðu þeir að keyra algerlega yfir andstæðingana í síðari hálfleik. Hreiðar át sóknarmennina eins og snakk. Held hann hafi varið úr 5 dauðafærum. Ólíkt öðrum leikjum þá tókst þeim að nýta sér það og byggja upp gott forskot. Endaði á 8 marka sigri. Ekki smá flott afmælisgjöf.

Spánverjar á morgun. Ættum að eiga góða möguleika á móti þeim því þeir töpuðu á móti Svíum með eins marks mun á flautumarki og eiga ekki lengur möguleika á að vinna til verðaluna.

2008-01-19

Þeir komu til baka

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 21:20

Vá! Þvílíkur fyrri hálfleikur hjá liðinu áðan. Þetta er hrikalegasta vörn, sem ég hef séð spilaða. 5 mörk í heilum hálfleik og andstæðingurinn ekki Ástralía eða Grænland! Enda skoruðum við mörk á færibandi og grey Slóvakarnir eins og kjúklingar á leið til slátrunar.

Síðari hálfleikurinn var síðan eins og framhald af Svíaleiknum. Sóknin hikstandi og vörnin ekkert spes. Skytturnar okkar eru bara ekki með í þessari keppni ennþá. Síðan náttúrlega algerlega óásættanlegt að fá á sig 2 mörk þvert yfir völlinn. Hvað voru markverðirnir að hugsa? Samt skiljanlegt að sé erfitt að einbeita sér þegar er kominn 11 marka munur í hálfleik.

Á endanum frekar öruggur sigur, sem hefði samt átt að verða miklu stærri.  Má mikið vera ef þetta dugar ekki til að fleyta okkur í milliriðil. Sé ekki alveg þetta slóvakíska lið sigra Svía. Hvað þá með 5-6 mörkum.

2008-01-17

Púff…

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 21:13

Ekki var þetta nú glæsilegt gegn Svíum. Vörnin svo sem allt í lagi. Ekkert stórslys að fá á sig 24 mörk. En sóknin var hræðileg. Sænska vörnin og sérstaklega þó markmaðurinn pökkuðu okkur saman. Hann hélt Svíunum á floti í fyrri hálfleik þegar þeir sýndu ekki neitt og jarðaði svo íslensku sóknina í síðari hálfleik. 2 mörk á næstum 20 mínútum er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.

Segir nú allt sem segja þarf að Svíarnir, sem voru margoft manni færri, töpuðu ekki slíkum leikkafla fyrr en undir lok leiksins. Til að kóróna þetta allt saman var vítanýtingin slök hjá okkur.

Það þarf mikið að gerast til að við vinnum Frakka eða Slóvaka.

2007-12-29

Íþróttamaður ársins

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 18:31

Ég var ekki smá ánægður með kjör á íþróttamanni ársins að þessu sinni. Margrét Lára átti þetta svo sannarlega skilið. Líka viðurkenning á kvennaknattspyrnunni, sem hefur alltaf staðið í skugga karlasparksins.

Árangur karlalandsliðsins í fótbolta var líka svo lélegur að það hefði aldrei komið til greina að velja neinn þeirra. Mesta furða að einhver þeirra skyldi komast inn á topp 10.

2007-11-21

Væl, væl, væl

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 23:10

Get alveg ímyndað mér hljóðið í vinnufélögum mínum (sem flestir eru forfallnir fótboltaáhugamenn) á morgun eftir að Englendingar komust ekki áfram í Evrópukeppninni.

Ég hoppaði hins vegar í stólnum þegar ég sá að Króatarnir hefðu unnið. Vildi miklu frekar sjá Rússana komast áfram. Fífa skildi hins vegar ekkert í þessum látum í pabba sínum.

2007-06-17

Flott

Filed under: Íþróttir,Formúla 1 — Jón Lárus @ 22:23

íþróttahelgi núna. Fyrst vann kvennalandsliðið okkar lið Frakka í knattspyrnu. Glæsilegur sigur. Frakkar eiga eitt af bestu kvennalandsliðum heims. Nær væri fyrir KSÍ að leggja meiri áherslu á kvennaliðið heldur en að púkka upp á þetta handónýta karlalandslið.

Síðan voru úrslitin í Bandaríkjakappakstrinum fín. McLaren greinilega komið með góðan bíl og unnu öruggan sigur. Það sást meira að segja alvöru kappakstur á köflum (Fisichella kom á óvart með mjög ákveðnum akstri), sem hefur verið af skornum skammti á þessu tímabili fyrr en í síðustu tveimur keppnum.
Ég var dauðhræddur fyrir Kanadakappaksturinn og þennan um að Ferrarimenn yrðu erfiðir viðureignar. Annað kom heldur betur á daginn. Næsta keppni, Frakklandskappaksturinn, ætti síðan að henta McLaren vel. Þar er fullt af hægum beygjum, sem virðist vera Akkilesarhæll á Ferraribílnum í ár.

Að lokum vann svo handboltalandsliðið okkar einvígi við Serba um að komast í úrslitakeppni næsta Evrópumóts með einu marki. Hefðum við skorað einu marki færra hefðu Serbarnir farið áfram.
Þetta hefur greinilega verið háspennuleikur. Ég var hins vegar að stússa ýmislegt, gera jógúrt og rúgbrauð og gleymdi leiknum alveg.

2007-02-13

14-2

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 22:48

Fótbolti er leiðinleg íþrótt.

Komst að því í kvöld þegar liðið mitt lenti 14-2 undir. Endatölurnar 24-17. Grrr…

Ekkert tapsár. Neiii.

2006-11-6

Náði

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 00:00

meira að segja að taka eitt létt skokk í dag. Þó það væri rok þá var það samt skárra en í gær. Bleytan þá maður minn. Skokkgallinn var níðþungur eftir það ævintýri.

2006-06-17

Snilld, snilld, snilld

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 21:55

Loksins náðum við að slá Svíþjóð út í alvöruleik. Það hefur víst ekki gerst síðan 1964 og þýðir að Svíar eru ekki með á HM í fyrsta skipti frá upphafi. Kominn tími á það, þótt fyrr hefði verið.
Leikurinn áðan var þvílíkur háspennuleikur. Bæði lið klúðruðu eins og þeim væri borgað fyrir. Mér var nú ekki farið að lítast á blikuna um miðjan síðari hálfleikinn þegar Svíar voru búnir að ná 5 markaforskoti og þeir inni á HM. Okkur tókst þá að snúa leiknum og jafna og halda síðan út. Þegar voru svo 5 mínútur eftir hélt ég að dómararnir ætluðu að gefa Svíunum þetta á silfurbakka þegar við fengum þrjá brottrekstra á fáeinum sekúndum. En sem betur fer tókst strákunum að þrauka þann kafla.
Ótrúlega sætt. Við að fara á HM á kostnað Svía. Þetta jafnar út vonbrigði gegn Svíum mörg ár aftur í tímann.

2006-06-11

Svíagrýlan

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 23:01

Sá svona búta úr leiknum við Svía í dag. Skemmtileg tilbreyting að sjá þá fara á taugum og klúðra leiknum á síðasta korterinu. Yfirleitt hefur þetta verið á hinn veginn. Svo er bara að vona að við náum að halda þessu um næstu helgi.

2006-04-7

Davíð sigrar Golíat

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 10:06

Í gær urðu þau óvæntu en skemmtilegu úrslit að Skallagrímsmenn náðu að slá út Keflvíkinga í leikjarimmu um að komast í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitil í körfunni. Ekki nóg með að Skallagrímur hefur aldrei áður komist í úrslit heldur hafa þeir að því er ég best veit aldrei unnið Keflvíkinga á heimavelli þeirra fyrr en í gær. Sætt, sætt sætt.

Svo er bara að halda áfram og taka Njarðvíkinga í úrslitum. Veit með hvoru liðinu ég held…

2006-02-19

Þar kom að því. Ég hef nánast ekkert fylgst með ve…

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 22:48

Þar kom að því. Ég hef nánast ekkert fylgst með vetrarólympíuleikunum fram að þessu. Bætti úr því í dag. horfði á skíðaboðgöngu kvenna og karla. Lá bara í leti og lét efnið fljóta yfir mig. Það er náttúrlega nett bilun að horfa á tvær svona keppnir í röð.

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.