Strč prst skrz krk

2012-10-3

JEDI message processing error

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 23:25

Þetta var efni tölvupósts, sem ég fékk fyrir síðustu helgi.  Mér varð ekki um sel.  Þetta hlaut að þýða að það væru meiriháttar truflanir á mættinum.  Um kvöldið kom svo líklega skýringin.  Jón Gnarr klæddur sem Jedi riddari við opnun RIFF hátíðarinnar.

2011-03-13

Finnur nörd

Filed under: Fjölskyldan,Nördismi — Jón Lárus @ 22:51

Ég fékk bók um dulkóðun í afmælisgjöf um daginn (The code book eftir Simon Singh). Mjög skemmtileg bók, þannig að ég var fljótur með hana. Sagði síðan Finni eitthvað frá henni. Hann varð strax voða spenntur og byrjaði að lesa. Ég bjóst nú ekki við að hann myndi fara neitt langt í henni. Myndi kannski komast í gegnum fyrstu einn eða tvo kaflana í mesta lagi. Nei, nei það var nú eitthvað annað. Nú er hann meira en hálfnaður með bókina og farinn að demba yfir mig spurningum um Enigma dulmálsvél Þjóðverja. Mér finnst það reyndar ekkert slæmt.

2010-10-20

201020102010

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 17:32

Í kvöld kemur þessi skemmtilega tíma og dagsetning upp.

2010-05-29

Ástralía #6 (Evidence #1)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 00:05

Var víst búinn að lofa þessu æsispennandi myndbandi. Engir spoilerar hérna en takið sérstaklega eftir lausninni í lokin…

2010-05-28

Ástralía #V (MDCCCLXXXVIII)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 23:07

Fyrst maður er byrjaður þá er best að halda áfram. Á göngu okkar um glæpahverfi Campbelltown þá rákumst við á lengsta rómverska ártal, sem ég hef séð. Get raunar ekki ímyndað mér lengra ártal, á okkar tímum að minnsta kosti.

Langt ártal

2010-05-19

Ástralía #1 (nörd á suðurhveli jarðar)

Filed under: Ferðalög,Nördismi — Jón Lárus @ 23:31

Best að henda inn nokkrum punktum um Ástralíuferðina sem við Hildigunnur (ásamt Kjartani Ólafssyni hluta af tímanum) fórum í núna í maí. Þetta verður nú ekki nein ferðasaga í þeim skilningi; Hildigunnur sér um þá hlið mála.

Það voru nokkur atriði sem ég var spenntur fyrir að sjá og skoða á suðurhveli jarðar. Meðal atriða á tikklistanum voru að kíkja á stjörnuhimininn þar sem nánast öll stjörnumerkin (m.a. suðurkrossinn) eru framandi. Ganga úr skugga um að hringiður snúist rangsælis og sjá sólina í hápunkti í norðri.

Fyrsta daginn okkar í Sydney þá flaskaði ég á þessu síðasttalda atriði (þótt ég hefði átt að vita betur). Við ætluðum að fá okkur göngutúr að óperuhúsinu (sem var í norðurátt frá hótelinu okkar). Komum út og mér fannst að sólin væri í suðri. Gengum þess vegna undan sól. Við áttuðum okkur á mistökunum þegar við komum að aðaljárnbrautarstöðinni, sem við vissum að væri í suðurátt frá hótelinu okkar. Magnað að geta klúðrað þessu.

Til þess að kanna atriði númer tvö þá lét ég renna í baðkarið á hótelinu. Hleypti svo úr því og viti menn: Þetta stemmdi, hringiðan sem myndaðist snerist rangsælis. Þetta var að sjálfsögðu dokumenterað rækilega. Eins víst að æsispennandi myndband þessu til sönnunar verði hent hér inn síðar.

2010-03-3

Bjössi bróðir

Filed under: Afmæli,Nördismi,Ruglið — Jón Lárus @ 22:42

á afmæli í dag. Til hamingju með það litli bróðir!

Fór svo að reikna í dag og komst að þeirri niðurstöðu að hann er orðinn 3 árum eldri en ég. Hann orðinn 42ja en ég bara 39. Já sumir eldast hraðar en aðrir því hann var 11 árum yngri en ég þegar hann fæddist.

2009-07-2

Stærðfræðingar

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 22:23

þurfa víst ekki að stunda ljósabekki (eða sleikja sólina ef út í það er farið). Ástæðan: Þeir deila bara sin með cos og fá út tan.

2009-06-19

Hnattstaða

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 20:49

okkar á Njálsgötunni, nánar tiltekið við útidyrahurðina að framan (þegar dyrnar eru lokaðar) er 64°8’39.45″N, 21°55’43.90″W. Skv. nei.is.

2009-05-23

Sniglets

Filed under: Nördismi,Ruglið — Jón Lárus @ 20:59

Rakst á þetta á vafri á netinu fyrir nokkrum dögum. Hafði ekki séð þetta síðan í menntaskóla. Fullt af skemmtilegum orðum. Er samt greinilega alltaf að bætast við listann því ég kannaðist ekki við nema brot af orðunum. Bevemeter, cabnicreep, flurr, frust, elbonics og Hozone voru nokkur sem ég mundi eftir frá því í gamla daga. Algjör snilld margt af þessu.

2009-04-29

Þetta er

Filed under: Nördismi,Ruglið — Jón Lárus @ 21:44

án efa flottasta klukka, sem ég hef séð (kannski fyrir utan klukkuna í ráðhúsinu í Prag).

Nördaklukka

2009-02-11

1234567890

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 18:06

Var að enda við að skrá mig inn á flettishóp þeirra sem ætla að fylgjast með UNIX tímastimpli verða 1234567890. Gerist víst föstudaginn 13. Getur þetta orðið mikið svartara en það?

2009-01-31

Nördasamtal

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 20:54

Við Hildigunnur vorum í útréttingum í dag. Vorum að keyra milli staða. Mér varð litið á bílklukkuna og sá að hún var 3:14. Hei, Hildigunnur klukkan er pí. Sagði ég. Þá svaraði Hildigunnur: „Hversu nördalegt væri það að mæla sér mót kl. pí stundvíslega?“

Alveg nördalegt…

2008-11-5

Sorpu

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 22:43

tékk II.

Nú eru komnar niðurstöður í sorpvigtunarkönnuninni okkar. Vigtuðum allt það sorp sem fór í tunnu frá okkur í tvo mánuði. Niðurstaðan er að við framleiðum rétt innan við 1 kíló af sorpi á dag (nákvæmlega 880 g). Ég er ekki ósáttur við þetta þó að við gætum gert betur með því að jarðgera lífræna úrganginn. Þegar við tökum það skref þá fellur talan niður í 4-500 g á dag.

2008-09-21

Sorpu

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 23:42

tékk.

Ákvað að tékka á því hvað við framleiðum mikið af sorpi, sem er urðað, hér á heimilinu. Er búinn að vigta allt, sem fer út í tunnu núna í hálfan mánuð og er bara nokkuð sáttur við niðurstöðurnar. Mér sýnist að á þessum hálfa mánuði þá sé hent út í tunnu rétt tæplega 1 kg af sorpi á dag. Gerði sams konar könnun fyrir svona 4-5 árum og þá var niðurstaðan 1,25 kg á dag.

Held að meðaltalið hér á Reykjavíkursvæðinu sé u.þ.b. 1 kg af sorpi á haus á dag. Ef það er rétt munað hjá mér þá framleiðum við ekki nema 1/5 af meðaltalinu enda flokkum við til endurvinnslu bókstaflega allt, sem hægt er að flokka. Eina sem við gerum ekki er að vera með jarðgerð úr matarafgöngum. Þegar við stígum það skref verður ekki mikið eftir fyrir tunnuna.

2008-09-5

FLU

Filed under: Nördismi,Ruglið,Vinnan — Jón Lárus @ 22:00

Það kom eitt ansi gott símtal inn á þjónustuborðið okkar í dag. Við frammi í sal heyrðum allt í einu að strákarnir á þjónustuborðinu gjörsamlega sprungu úr hlátri. Skömmu síðar kom einn þeirra og útskýrði hvað hafði gerst. Þá hafði hann fengið símtal, sem hljóðaði einhvern veginn á þessa leið:

Starfsmaður: „Er þetta þjónustuborðið?“
Þjónustuborð: „Já, hvað er málið?“
S: „Internetið er ónýtt hjá mér!“
Þ: „?!“
Þ: „Hvað áttu við?“
S: „Ég get ekkert gert.“
Þ: „Bíddu, leyfðu mér að yfirtaka vélina þína.“
Þjónustuborð yfirtekur vélina og sér að vafrinn hefur verið stilltur á að þekja allan skjáinn og síðan ýtt á F11 þannig að stikurnar voru faldar.
Þ: „Þetta er ekkert mál, smelltu bara með músinni á gluggann og ýttu svo á F11.“
S: „Það virkar ekki!“
Þ: „Smelltu með músinni á gluggann og ýttu svo á F11.“
S: „Ég reyndi aftur og það gerist ekkert!“
Þjónustuborðið endurtekur fyrirmælin enn einu sinni og nú einstaklega hægt og skýrt.
S: „Ó, ég hélt þú ættir við að slá inn FLU“

Óborganlegt!

2008-07-21

Best að skella inn

Filed under: Brandarar,Nördismi — Jón Lárus @ 23:01

öðrum nördabrandara.  Fífa heyrir þetta í unglingavinnunni.  Flokksstjórinn, eðlisfræðinemi, er greinilega náma af svona nördabröndurum.  Allavega:

What did i say to pi?

A: Get rational!

But how did pi retort?

A: Get real!

2008-06-11

Nördabrandari (gáta)

Filed under: Brandarar,Nördismi — Jón Lárus @ 23:32

Fífa sagði mér þennan brandara/gátu. Flokksstjórinn hennar í unglingavinnunni, sem er víst verkfræðinemi, sagði þeim hann. Here goes…

Einstein, Newton og Pascal voru í feluleik. Einstein var hann og á meðan hann taldi upp að 1729 þá földu hinir sig. Pascal inni í fataskáp en Newton tók fram stól teiknaði ferning, sem var metri á kant, umhverfis stólinn og settist síðan á hann. Þegar Einstein var búinn að telja þá fór hann að leita og kom nánast samstundis auga á Newton. Einstein hrópaði hróðugur: „Newton, ég er búinn að finna þig!“ Newton svaraði að bragði: „Nei, ég er ekki Newton, ég er Pascal!“

Jæja kæru lesendur, hvernig gengur þetta upp hjá honum?

2008-06-3

Eftir jarðskjálftann

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 19:30

um daginn fletti ég upp upplýsingum um orkulosun jarðskjálfta af mismunandi styrkleika. Sá þá að við öflugustu jarðskjálftana var orkulosunin mæld í EJ (Exa Joule), sem var eining sem ég þekkti og svo (ZJ), sem ég hafði aldrei séð áður. Ég varð forvitinn og fletti þessu upp á wikipediu þar sem þetta var útskýrt. Z stendur fyrir Zetta (svo er reyndar til Y líka, sem stendur fyrir Yotta).

Það sem vakti samt mesta athygli mína var það að Bandaríkin eru eitt af þremur ríkjum, sem nota ekki SI einingakerfið, sem aðaleiningakerfi. Hin löndin tvö eru Myanmar og Líbería!

2008-05-29

Var bara að spá

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 00:41

þegar lerkitré „laufgast“ hvað er það þá kallað? Lerkitréð er að barra sig? Lerkitré er náttúrlega barrtré og getur því ekki laufgast (ef maður fer út í smáatriðin og ég fer stundum út í smáatriðin (tryggingafélög hafa haft samband við mig til að semja smáaletursklausur…)). Eða lætur maður bara svona tæknileg smáatriði ekki á sig fá og segir bara lerkitréð er að laufgast?

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.